09.03.1944
Efri deild: 26. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 946 í B-deild Alþingistíðinda. (1526)

7. mál, hafnarlög fyrir Siglufjarðarkaupstað

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Síðan frv. þetta var samþ. til 3. umr., hafa hv. flm. frv. komið að máli við sjútvn.-menn þessarar hv. deildar og óskað eftir því, að sjútvn. bæri fram brtt. nú við þessa 3. og síðustu umr. málsins, sem ég leyfi mér að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta: „Aftan við 4. mgr. 6. gr. laganna komi: enda hafi krafa um slíkt komið fram frá viðkomandi lóðarleigutaka ekki síðar en einum mánuði eftir að meiri hluti leigutaka hefur samþykkt að ráðast í endurbyggingu eigna sinna samkv. 1. mgr. þessarar greinar og hann meðtekið um það tilkynningu frá hafnarnefnd.“

Ég hef rætt þetta við sjútvn., og hefur hún fallizt á, að rétt væri að bæta þessu aftan við til þess að takmarka þann tíma, sem viðkomandi lóðarleigutaki gæti haft til að velja um, hvort hann vildi taka þátt í endurbyggingu hafnarmannvirkja eða gera kröfu um það, að hafnarsjóður keypti af honum mannvirkin; það væri ekki rétt, að hann hefði til þess ótakmarkaðan tíma. Leggur því sjútvn. til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem ég afhendi hæstv. forseta.