26.02.1944
Neðri deild: 20. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. — Ég verð að segja örfá orð í tilefni af því, sem nokkrir hv. þm. hafa sagt, og vil ég byrja á því, sem hv. 3. þm. Reykv. minntist á síðast.

Það getur auðvitað orkað tvímælis, hvort réttmætt sé að ákveða þjóðkjör forsetans með því valdsviði, sem forseta er ætlað í stjskr. Þetta er mín persónulega skoðun. En það var útbreidd skoðun í n., að rétt væri að hafa forseta þjóðkjörinn, þótt ekki væri aukið valdsvið hans. — Margir nm. litu svo á, að þótt forsetinn hefði ekki meira vald en til er tekið í frv. og brtt. n., þá hefði hann eigi að síður mjög. þýðingarmiklu starfi að gegna fyrir þjóðina, bæði sem fulltrúi hennar út á við og einnig sem starfsmaður hennar að þýðingarmiklum málefnum, þegar sérstaklega stendur á, einnig vegna þess valds, sem honum er veitt til þess að skjóta málefnum þeim, sem Alþ. hefur samþ., til þjóðarinnar. Það hafði einnig áhrif í n. og áreiðanlega áhrif á mig, sem annars taldi þetta álitamál, að mjög eindreginn vilji hefur komið fram meðal þjóðarinnar í þá átt, að forseti yrði kjörinn beinum kosningum af þjóðinni.

Hv. 3. þm. Reykv. ber kvíðboga fyrir því, að kosningabaráttan um forsetaefnin verði afar persónuleg, þar sem varla geti verið um það að ræða, að nokkur forseti bjóði sig fram með það fyrir augum að framfylgja ákveðinni stjórnmálastefnu. Það er rétt, að þessi hætta er fyrir hendi, ef menn hafa ekki þroska til þess að bægja henni frá. En við viljum vona, að þessu verði ekki til að dreifa, þótt forseti verði þjóðkjörinn með þessu valdsviði. Við viljum vænta þess, að þeir, sem ötulast hafa gengið fram í því að óska eftir, að forsetinn verði þjóðkjörinn, hinn mikli fjöldi meðal þjóðarinnar, sem það hefur gert, sýni þroska sinn í því að láta þjóðkjörið fara fram þannig, að sómi verði að, en ekki þannig, að forsetaefnin verði dregin niður í svaðið í sambandi við kosninguna, þjóðinni til vanvirðu og stórskaða. Enn fremur finnst mér, að það mætti gera sér vonir um, þegar valdsviðið er ekki meira en gert er ráð fyrir í stjskrfrv., að forsetakjör yrði ekki pólitískt með venjulegum hætti og að menn reyndu að finna forsetaefni, sem þjóðin gæti sameinazt um án tillits til stjórnmálaskoðana. En ef svo tekst til, að á þjóðkjöri forseta verður haldið eins og verið sé að kjósa mann til þess að framkvæma ákveðna stjórnmálastefnu og forsetakjörið fær á sig allan venjulegan pólitískan baráttublæ, þótt forseta sé ætlað þjóðhöfðingjastarf, en ekki leiðtogastarf í stjórnmálum, þá tel ég þjóðkjörið reynast illa.

Hv. 3. þm. Reykv. benti á, að sér fyndist ekki rétt að framlengja kjörtímabil forseta, þótt þjóðin vildi ekki fallast á að setja hann af eftir ósk Alþ. Það má vel vera, að hæpið sé að gera ráð fyrir þessu, en það, sem fyrir n. vakti, var að gera ákvæðið um frávikninguna þannig, að ekki yrði lagt út í slíkt, nema full ástæða væri til. En þó er ekki útilokað, að forseti bryti svo af sér, að meginþorri manna væri á einu máli um, að hann gæti ekki starfað áfram. N. mun athuga, hvort hún telur ástæðu til að breyta þessu að fenginni þessari bendingu frá hv. 3. þm. Reykv.

Þá benti hv. 3. þm. Reykv. á, að í brtt. n. er gert ráð fyrir, að 3/4 allra atkv. á Alþ. þurfi til þess að frá,vikningarkrafa sé gild; og spyr, hvort átt sé við þm. alla eða aðeins þá, sem taka þátt í atkvgr. N. ætlast til, að 3/4 allra þm. þurfi að standa að slíkri samþykkt. Munum við athuga, hvort ástæða er til að gera þetta orðalag gleggra.

Hæstv. dómsmrh. minntist á það í gær, hvort ekki væri ástæða til að samræma betur orðalag stjskrfrv. varðandi heiti forseta, eftir að embættisheiti hans yrði breytt í „forseti Íslands“ í stað „forseti lýðveldisins“, sem í frv. stendur. Þetta hefur verið athugað í n. og niðurstaðan orðið þær brtt., sem hér liggja fyrir og þetta snerta, en ekki fleiri. Mönnum fannst ekki ósamræmi í því, að ýmist standi í stjskr. forsetinn eða forseti lýðveldisins, þótt embættisheiti forsetans sé forseti Íslands, en það verður greinilega tekið fram í upphafi stjskr., ef till. n. verður samþ. Þótt embættisheiti forsetans sé forseti Íslands, þá er hann eigi að síður forseti lýðveldisins, og má á hann minnast þannig til tilbreytingar.

Þá eru nokkur orð út af athugasemdum, sem fram eru komnar af hálfu hv. þm. Borgf. og hv. 2. þm. Reykv., — fyrst út af athugasemdum hv. 2. þm. Reykv. Hann færði ástæður fyrir því af sinni hálfu og meðstarfsmanns síns í stjskrn. úr sama flokki, af hverju þeir hefðu ekki getað fallizt á að taka ákvæðið um gildistöku 17. júní úr stjskr. Færði hann fram sömu ástæður af þeirra hálfu og greinir í nál. Ég hafði í framsöguræðu minni gert grein fyrir, af hverju við framsóknarmenn í n. töldum sjálfsagt að gera samkomulag um málið, og um leið svarað því fyrir fram að miklu leyti, sem fram kom nú hjá hv. 2. þm. Reykv.

Þá hefur hv. þm. G.-K. rakið þetta sérstaklega, eftir að hv. 2. þm. Reykv. talaði, og svarað ýmsu, sem að þessu lýtur. Get ég því verið stuttorður um þetta atriði. Hv. þm. talaði um, að ég hefði gert ráð fyrir því, að íhlutun gæti átt sér stað af hálfu annarra um framkvæmd málsins hér eftir. Þetta er ekki rétt skilið hjá hv. þm. Ég sagði, að fram hefði komið, að þeir, sem væru á móti samkomulaginu, gerðu ráð fyrir, að slík íhlutun gæti átt sér stað. Það er ekki mín spá, að svo muni verða. Ég vil endurtaka, að ég álít enga hættu samfara því að taka ákvæðið um gildistökudaginn úr frv. Ég vil þá einnig endurtaka þá skoðun mína, að ekki muni koma til mála afskipti í þessa átt af hálfu þeirra þjóða, sem við höfum samband við, á þeim tíma, sem eftir er, þangað til gildistakan á að verða. Þótt svo ólíklega bæri til, að slík afskipti yrðu reynd, þá kæmi ekki heldur til mála að snúa við á þeirri braut, sem ákveðin hefur verið, fremur en það stæði í sjálfri stjskr., að lýðveldið yrði stofnað 17. júní 1944.

Hv. 2. þm. Reykv. spurði mig tveggja spurninga.

Önnur var sú, af hvaða tilefni ég hefði sagt það tryggt, að sömu alþm. sætu hér í júnímánuði og nú eru hér. Mér finnst þetta liggja í augum uppi og þurfi ekki útskýringar við, en bendi þó hv. þm. á það, að fyrir liggur trygging fyrir því, sem ég hélt honum væri kunnugt um, að Alþ. verður ekki rofið fyrir 17. júní. — Hin spurningin var sú, hvort ég hefði tryggingu fyrir því, að þingheimur stæði saman að stjskrfrv., hversu sem færi um einstakar brtt., en þessu hafði ég lýst yfir. Mér skilst, að hann spyrji þessarar spurningar í sambandi við afstöðu hv. 4. þm. Reykv. Ég held, að hv. 2. þm. Reykv. hafi misskilið þetta. Ég taldi mig hafa sagt, að það væri alveg tryggt, að þingheimur stæði saman um stjskrfrv., þótt brtt. stjskrn. yrðu samþ. Þetta var það, sem ég sagði. (ÓTh: Nei, hv. þm. sagði hitt!) Það hefur þá verið mismæli, sem leiðréttist hér með, því að ég hef ekki heimild til þess að segja annað og meira en það, sem nú hefur verið greint. Eins og allir hv. þm. vita, þá hefur hv. 4. þm. Reykv. gert það að skilyrði fyrir fylgi sínu við frv., að brtt. n. við 81. gr. verði samþ., en um það er samkomulag allra nema fulltrúa Sósfl. í n.

Þá aðeins örfá orð út af því, sem hv. þm. Borgf. sagði. Hann sagðist óttast, að samkomulag það, sem gert hefði verið, yrði til þess að gera málinu örðugra fyrir og spilla fyrir því innan lands, með þjóðinni sjálfri. Þetta tel ég mikinn misskilning. Ég tel, að þessu samkomulagi verði fagnað af þjóðinni og að það auki stórkostlega veg Alþ. Það er glæsilegur sigur, að þetta samkomulag hefur náðst, án þess að nokkuð væri slegið af þeim ákvörðunum, sem teknar höfðu verið um stofnun lýðveldis í vor.

Hv. þm. Borgf. sagðist kvíða því, að óhugur kæmi í menn og að menn skildu ekki þetta samkomulag. Hann þarf engu að kvíða í því efni. Ég er sannfærður um, að menn koma undireins auga á, að það er sjálfsagt að vinna það til samkomulags fyrir þjóðaratkvgr. að taka gildistökudaginn úr frv. Með því er opnaður möguleiki til þess, að allir standi saman endanlega eftir þjóðaratkvgr., einmitt um 17. júní. Þannig vonum við, að þetta fari. Hv. þm. kvaðst óttast, að þessi meðferð yki hættuna á erlendri íhlutun. Ég hef sagt skoðun mína á þessu atriði í sambandi við ummæli hv. 2. þm. Reykv., en vil bæta því við, að frá mínu sjónarmiði er aðeins eitt til, sem orðið gæti til þess, að athugasemdir kæmu frá öðrum þjóðum, og það er sundrung landsmanna sjálfra. Ég veit, að standi Alþ. saman um þetta mál, þá gerir þjóðin það einnig, og þá þarf engu að kvíða.

Hv. þm. sagðist ekki vera ánægður með framkomu ýmissa þm. nú, sem hefðu verið mjög skeleggir í málinu við 1. umr. þess hér á Alþ. Það er misskilningur hjá hv. þm. Borgf., að menn séu ekki jafnskeleggir og þá. Mér finnst alveg ástæðulaust, að menn leggi sig fram til þess að láta líta svo út sem samkomulag, er nú hefur verið gert í málum þessum, sé vottur um, nokkurt hik.

Ég benti á það við 1. umr. málsins, að saman yrði að fara stofnun lýðveldisins og sambandsslitin, og það samkomulag, sem hér hefur verið gert, er í fullu samræmi við þá stefnu. Ég vil minna á, að í þál. um sambandsslitin er ekki til tekinn neinn sérstakur dagur, þegar sambandslagasamningurinn skuli felldur úr gildi. Það er lagt í vald Alþ., hvenær gengið er frá sambandsslitunum með ályktun. Það er í fullu samræmi við þetta, að Alþ. sé ætlað að ákveða gildistöku stjskr. eftir þjóðaratkvgr.

Ég vil svo að endingu benda á, hvernig málið stendur nú. Það verður fullt samkomulag um það á þessu Alþ., þannig að allir þm. munu greiða atkv. með skilnaðinum og allir þm. munu greiða atkv. með lýðveldisstjskr. Forustumenn allra stjórnmálaflokka munu skora á þjóðina að fylkja sér um málin við þjóðaratkvgr. — Ef við hefðum ekki gert samkomulag, þá hefðu deilur um málið haldið áfram málinu til einhvers tjóns og öllum góðum mönnum til sárra leiðinda. Ágreiningurinn hefði bólgnað í meðförum, eins og oft vill verða, en nú hjaðnar hann niður, þegar menn taka að vinna saman að þjóðaratkvgr.

Hér hefur því vel ráðizt. Svo mun landsmönnum finnast, og það mun verða metið af öðrum þjóðum.