28.02.1944
Neðri deild: 21. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í B-deild Alþingistíðinda. (159)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. (Eysteinn Jónsson):

Stjskrn. beggja d. hafa komið saman í tilefni af umr. þeim, sem orðið hafa um frv. Þær hafa komið sér saman um flutning brtt. á þskj. 99 við frv., eins og það er nú eftir 2. umr. í Nd.

Brtt. eru tvær. Sú fyrri er við 11. gr. og er á þá leið, a) að í stað orðanna. „allra atkvæða“ í 3. mgr. komi: þingmanna, .— b) að í stað „mánaðar“ komi: tveggja mánaða, — og c) að umorða 4. mgr. svo sem segir í till. um það. Sú umorðun þýðir, að forseti telst ekki endurkosinn til fjögurra ára að nýju, þótt krafa Alþ. um frávikningu hans nái ekki samþykki.

Hin brtt. er orðabreyt. eingöngu.

Ég vil í sambandi við brtt. hæstv. forsrh. á þskj. 94 geta þess, að mér láðist að taka það fram, að brtt. þessa efnis lá fyrir n., og gat hún ekki á hana fallizt. Hið sama gildir um þessa brtt. Þó að konungur hafi haft algert synjunarvald samkv. bókstafnum, þ'a hefur hann samkv. venjunni aldrei neitt synjunarvald haft. Þetta finnst n. þurfa að taka til greina, þegar konungsvaldið er nú flutt inn í landið. Venjan hefur orðið sú, að synjunarvald konungs hefur aldrei komið til framkvæmda, þó að hann hafi haft það lagalega. Ef forseti hefði synjunarvald, þá gæti það í framkvæmdinni orðið allt annað en hið formlega synjunarvald konungs. Þetta mun öllum ljóst, sem um málið hafa fjallað. Það sést bezt á því, að engum hefur dottið í hug að hafa synjunarákvæðið í stjskr. óbreytt eins og áður. Öllum kemur saman um, að það verði að vera sameiginlegt með þjóðinni og forsetanum. Mönnum þykir ekki eðlilegt, að forseti, sem væri þjóðkjörinn, — e.t.v. með minnihlutakosningu, hafi fullkomið synjunarvald. En þá kemur upp sú spurning, hvort forseti skuli hafa fullkomið bráðabirgðasynjunarvald laga eða þau skuli öðlast gildi þegar í stað, þótt forseti vilji skjóta þeim til þjóðaratkvgr. Það má ræða lengi um það, hvort æskilegra er. Ég hallast að því að láta ákvæðið standa eins og gengið er frá því í frv. af hálfu mþn.

Það er rétt, eins og hæstv. forsrh. benti á, að ef l. öðlast gildi fyrst, en þjóðin getur fellt þau síðar úr gildi, þá skapast á tímabili óvissa um, hvort l. standi til frambúðar eða ekki. Þetta er nokkur galli. En þá ber að gæta hins, — ef sú aðferð er höfð, að l., sem forseti gerir aths. við, fái ekki lagagildi fyrr en þau hafa verið samþ. af þjóðinni, að þá getur farið svo, að l. séu gerð ónýt með því einu að fresta gildistöku þeirra þannig um tíma. T.d. um löggjöf varðandi ýmis fjármál og atvinnumál, í sambandi við verkföll o.fl. gæti frestunarvald forseta orðið í reyndinni fullt synjunarvald. Það er hugsanlegt, að forseti, sem e.t.v. væri kosinn af minni hl. þjóðarinnar, gæti notað þetta vald sitt til þess að setja fót fyrir löggjöf, sem bæði þingið og meiri hl. þjóðarinnar væri samþykkur. Ég hygg því, að þótt á ákvæði frv. séu nokkrir gallar, eins og hæstv. forsrh. benti á, þá megi á hinu fyrirkomulaginu finna galla ekki síður. Hins vegar tel ég þetta ekki mikið atriði, því að ég geri ráð fyrir, að synjunarvaldinu verði lítið beitt, enda verður forsetinn fremur þjóðhöfðingi og umboðsmaður fyrir þjóðina í heild en pólitískur eftirlitsmaður með störfum Alþ. Hitt er annað mál, hvort breyta ætti þessu algerlega og ætla forseta að vera stjórnmálaleiðtogi, en ekki þjóðhöfðingi. Yrði þá að breyta stjskr. mjög frá því, sem hún er nú fyrirhuguð og hægt er að gera að þessu sinni.

Ég sé svo ekki ástæðu til að láta fleiri orð um þetta falla. Ég held það hafi fremur litla praktíska þýðingu, hvernig frá þessu er gengið, en eðlilegra að halda því, eins og það er í frv.