12.09.1944
Neðri deild: 48. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í B-deild Alþingistíðinda. (1622)

99. mál, lendingarbætur á Látrum í Aðalvík

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Á Aðalvík eru mjög fiskisæl mið, og á þessi mið er mjög stutt frá verstöðvum, sem liggja við víkina. Hefur um mjög langan aldur verið stundaður þarna sjór frá tveimur verstöðvum, Látrum og Sæbóli, sem eru smáþorp sitt hvorum megin við víkina. Nú hagar þannig til á Látrum, sem frv. ræðir um, að þar er algert hafnleysi. Fyrir allmörgum árum var mælt fyrir töluverðum lendingarbótum, allstórri bryggju. Samkv. kostnaðaráætlun, sem gerð var um þessar væntanlegu framkvæmdir, kostuðu þær stórfé, meira en fámennt hreppsfélag gæti staðið undir.

S.l. sumar var á ný framkvæmd rannsókn á lendingarskilyrðum á þessum stað, og þá fyrst og fremst með það fyrir augum, að einhver smá bátabryggja yrði þarna byggð, sem að kostnaði til yrði ekki ofviða fámennu hreppsfélagi að ráðast í. Samkv. áðurnefndri rannsókn, sem verkfræðingur frá vitamálaskrifstofunni framkvæmdi, kostar 35–40 þús. kr. að byggja þarna smábryggju, hentuga fyrir smábátaútgerðina, sem þarna er. Frv. miðar við þessa kostnaðaráætlun og gerir ráð fyrir 20 þús. kr. framlagi frá ríkissjóði og 20 þús. kr. ríkisábyrgð. Hreppsn. Sléttuhrepps samþ. á fundi sínum 27. ágúst s.l. að fela þm. kjördæmisins að flytja frv. um lendingarbætur að Látrum, og liggur það nú fyrir til fyrstu umr. Tel ég ekki þurfa að fara um það fleiri orðum. Þessar lendingarbætur eru brýn nauðsyn, og vænti ég, að , hv. d. snúist vel við frv. sem og öðrum slíkum, sem samþ. hafa verið undanfarið eða koma kunna nú fram. Leyfi ég mér að óska, að frv. verði vísað til 2. umr. og sjútvn.