28.02.1944
Neðri deild: 21. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í B-deild Alþingistíðinda. (163)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. — Eins og ég hef áður getið um, finnst mér ekki vera um veigamikið atriði að ræða, þar sem þetta er. Ég get ekki fallizt á, að nokkuð sé ofmælt í 2. gr., þótt sagt sé, að löggjafarvaldið sé í höndum Alþ. og forseta. En þetta taldi hæstv. forsrh. ofmælt. Það er á valdi forseta að ákveða, hvort l. gangi til þjóðaratkvgr. eða ekki. Mætti því e.t.v. segja, að löggjafarvaldið væri í höndum Alþ., forseta og þjóðarinnar. Forsetinn á að vísu engan þátt í löggjafarstarfinu, annan en að undirskrifa l. og skjóta til þjóðaratkvgr., ef hann telur nauðsynlegt, en auk þess getur hann gefið út brbl. (Forsrh.: Það er undantekning.) Já, en undantekning, sem þráfaldlega er gripið til.

Hæstv. forsrh. vildi láta svo, að ég teldi það synjunarvald fullkomið, sem hann vill hafa. Það er ekki rétt, en ég minntist á, að það gæti verkað eins og fullkomið synjunarvald.

Annars geri ég ekki ráð fyrir því, að n. geri það að kappsmáli, hvor leiðin farin verður.