18.09.1944
Efri deild: 44. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í B-deild Alþingistíðinda. (1641)

97. mál, tilraunastöð

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Þetta mál er ekki nýtt í þessari hv. d. Það lá fyrir síðasta þingi, en í sambandi við annað mál, skólastofnun á jörðinni Reykhólum. Nú hefur flm. tekið þetta efni út úr því frv. og flytur það sérstaklega. Sama efni hefur áður verið borið undir búnaðarþing og það verið sammála um, að þarna þyrfti að reisa tilraunastöð. Nú hafa þegar verið reistar og reknar tilraunastöðvar í öðrum landsfjórðungum, sunnanlands á Sámsstöðum og norðanlands í Eyjafirði. En á Austurlandi hefur þegar verið keypt jörð til slíks rekstrar, en mér er ekki kunnugt, hverjar byggingar eða framkvæmdir er farið að gera á þeim stað. Nú er það Vestfirðingafjórðungur, sem hefur ekki fengið neina slíka tilraunastöð, og þykir því tímabært, að hafizt sé handa að athuga þetta mál og undirbúa það af stj. hálfu og Búnaðarfélagi Íslands.

Í frv. er ekki farið fram á annað en að undirbúningur undir rekstur slíkrar stöðvar verði nú þegar hafinn og einnig verði látið af hendi tiltekið land á Reykhólum undir þessa stöð, — enn fremur að sjá svo um, að ekki verði gerðar neinar byggingar, sem koma í bága við þessa stöð. N. var sammála um þetta frv., þeir sem á fundi voru. Fjarstaddur var hv. 2. þm. Árn. Ég fyrir mitt leyti tel mjög áriðandi og nauðsynlegt fyrir Breiðfirðinga og Vestfirðinga yfirleitt, að þegar verði farið að hefjast handa og málið helzt látið ganga eins fljótt og hægt er, eftir því sem fé er fyrir hendi.