18.09.1944
Efri deild: 44. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í B-deild Alþingistíðinda. (1642)

97. mál, tilraunastöð

Eiríkur Einarsson:

Úr því að ég kom því ekki við að vera á fundi landbn., þegar málið var tekið til ákvörðunar, vil ég gjarnan láta í ljós, að ég hef þá afstöðu til málsins, sem er í samræmi við niðurstöðu annarra nm., og get því fallizt á, að frv. þetta verði samþ. Ég vil aðeins láta þess getið frá mínu sjónarmiði, að heimild þessi er náttúrlega ekki svo föst í reipunum sem ætla mætti og kannske ekki von, því að málið er ekki komið á mikinn rekspöl, þó að menn hafi góðan vilja. Miðað við þann vilja til einhverrar gagnsemi fyrir landbúnaðinn af tilraunum þarna, get ég gefið málinu samþykki. En það er náttúrlega alls ekki sama, hvaða jarðræktartilraunir verða þarna gerðar. Það þarf að samræma þær tilraunir við þarfir bænda þar vestra um jarðrækt og einnig við getu jarðarinnar og til hvers hún hæfir bezt.

Á svona lítilli sneið úr landinu, sem stöðinni er ætluð, er ofætlun að hafa mjög fjölhliða jarðræktarstarfsemi. En þá er um að gera, að sá þáttur verði valinn, sem helzt má vænta árangurs af. Það mun nú vart hafa ráðið eingöngu um val Reykhóla til þessarar starfsemi, að þetta er mikil jörð, heldur einnig hitt, að Reykhólar eiga sína sögufrægð. Sízt vil ég lá hlutaðeigendum þjóðlega ræktarsemi jafnframt því að nota hagnýta aðstöðu þessarar jarðar. Það er sennilega vel farið, þegar hvorug brýtur í bága við annað. Þetta vil ég gjarnan láta verða hvatningarorð til réttra aðila á hverjum tíma, sem er, að þessi öfl megi verða að starfi saman, eftir því sem henta má.