27.09.1944
Neðri deild: 56. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í B-deild Alþingistíðinda. (1695)

137. mál, lækningaleyfi til handa dr. Karl Kroner

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Á þskj. 344 flytjum við 5 þm. frv. til l. um heimild til að veita dr. med. Karl Kroner, fyrrum yfirlækni í Berlín, lækningaleyfi hér á landi. Dr. Karl Kroner hefur dvalizt hér á landi í nærri 6 ár. Hann varð af sömu ástæðum og margur að fara frá Þýzkalandi, en þar var hann þekktur sérfræðingur í taugasjúkdómum og kunnur Íslandsvinur, og heimili þeirra hjóna stóð um langan tíma opið íslenzkum námsmönnum og öðrum, sem til Þýzkalands komu, og hefur þannig fjöldi Íslendinga af þeim hið bezta að segja og þeirra gestrisni. Þegar dr. Karl Kroner kom hingað til lands, ætlaði hann að dveljast hér skamma stund og hafði í hyggju að fara til Danmerkur og setjast þar að. Af ýmsum ástæðum, hættum samfara hindrunum og ströngum reglum um innflutningsleyfi, þegar stríðið kom, gat ekki orðið af því, að hann kæmist þangað. Hér á Íslandi hefur hann ekki lækningaleyfi, og samkv. gildandi l. frá 1932 er það skilyrði fyrir lækningaleyfi, að maðurinn hafi íslenzkan ríkisborgararétt. Í l. er svo fyrir mælt, að viðkomandi verði að hafa próf í læknisfræði frá læknadeild Háskóla Íslands, en í 3. gr. l. segir, að í vissum tilfellum geti staðið svo á, að umsögn læknadeildar Háskólans sé talin fullnægjandi. Hefur þetta því komið til mála hjá læknadeildinni, og hefur hún látið uppi það álit, að hæfileikar þessa manns séu í bezta lagi, en það hefur ekki verið hægt að koma þessu í kring, af því að ríkisborgararéttinn vantar. Þessi ágæti læknir hefur því orðið að stunda erfiðisvinnu, þótt hann hafi ætíð áður lagt stund á læknastörf, og geta allir skilið, hve erfitt það er fyrir mann, sem er kominn á sjötugsaldur, og ekki vansalaust, þar sem hér á í hlut þekktasti og bezti Íslandsvinur, sem hingað hefur komið, og góður læknir í sinni grein.

Það var um tvær leiðir að velja. Önnur var sú að veita honum ríkisborgararétt og skapa þar með grundvöll fyrir því, að hann gæti fengið lækningaleyfi. Hann hefur ekki dvalizt hér nema um sex ára skeið, en samkv. því, sem gert er ráð fyrir í ríkisborgararéttarl., er krafizt 10 ára dvalar, til þess að viðkomandi geti öðlazt ríkisborgararétt. Töldum við flm. mjög óvíst, að Alþ. mundi gera undantekningu í þessu tilfelli, og fyrir því völdum við hina leiðina, að bera fram frv.; sem er bundið við hans nafn persónulega. Það kann að koma sú mótbára, að hér sé verið að skapa fordæmi, en ég held, að ekki þurfi að óttast það, því að hér stendur alveg sérstaklega á og víst má telja, að slík tilfelli sem þetta muni verða mjög sjaldgæf. Ég hef átt tal við ýmsa ágæta menn úr læknastétt um þetta mál, og þeir hafa allir verið því mjög fylgjandi, að Alþ. veitti honum undanþágu. Til hans hafa mjög margir sjúklingar leitað, en hann hefur orðið að vísa þeim frá sér, því að hann hefur ekki rétt til að starfa að þessum lækningum. Enn fremur hafa margir íslenzkir læknar leitað til hans til ráðagerða, og veit ég, að hann hefur jafnan fúslega veitt þá aðstoð, sem hann hefur getað. Ég vænti því, að þessu frv. verði vel tekið, og vildi mælast til þess, að því yrði vísað til 2. umr. og heilbrmn.