04.03.1944
Efri deild: 21. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Herra forseti. — Ég ætla ekki að lengja umr. mikið, en vildi þó segja nokkur orð í tilefni af brtt. 132 og út af orðum hv. frsm., sem hann lét fylgja þessari till.

Ég tek hér til máls af því, að ég á nokkra hlutdeild í frv., eins og það kom frá Nd. — Ég minnist þess ekki að hafa hlustað á jafnskýrar umr. í Nd. og er rætt var um neitunarvald forsetans, um það, að löggjafarvaldið skyldi að öllu leyti vera í höndum Alþingis. Hv. frsm. kveður hér hreint að orði, svo að ekki er um að villast. Synjun forseta á ekki að leiða til frestunar á gildistöku l., heldur skulu þau öðlast gildi samt sem áður og halda því, unz þjóðaratkvgr. hefur skorið úr.

Þar sem niðurstaða stjskrn. varð á þessa leið, er ljóst, að löggjafarvaldið er alls ekki hjá forseta, þótt orðalag stjskrfrv. bendi til þess. Það hefði því átt að orða 1. mgr. 2. gr. öðruvísi: Alþingi fer með löggjafarvaldið, eða: Alþingi og kjósendur fara með löggjafarvaldið. Er það sökum þess, sem ég hef áður tekið fram, að l., sem forseti hefur neitað að staðfesta, öðlast samt sem áður gildi.

Það er eðlilegt, að Alþ. fallist ekki á það ákvæði, að forsetinn hafi synjunarvald, því að það eru aðeins leifar frá einveldistímanum. En ég get ekki skilið, að algerlega þurfi að svipta hann hlutdeild í löggjafarvaldinu, þótt hann sé innlendur. Ég hefði getað skilið, að slíkt ákvæði væri lögfest, ef forseti væri óafsetjanlegur erfðaherra, sem væri þrýst inn í landið af útlendu valdi, en að þjóðinni missýnist svo, að hún velji til forseta mann, sem gengi í berhögg við vilja Alþ. og hennar, — því trúi ég ekki. Því að hvað er forseti, ef hann hlustar ekki eftir því, sem þjóðin meinar? Ef forseti synjar lagafrv. staðfestingar, en það er samþ. við þjóðaratkvæði, þá álít ég, að áreiðanlega væri nokkur ástæða fyrir hendi, til þess að Alþ. kærði þann forseta. En neitun forseta væri ekki órökstudd, ef frv. næði ekki ríflegum meiri hl. hjá þjóðinni.

Það undrar mig, að mþn. í stjskrmálinu skuli ekki hafa athugað 24. gr. stjskr., því að jafnframt og þjóðhöfðingi kemur inn í landið, er full ástæða til þess. Samkv. þessari gr. getur forseti rofið þing og stjórnað í átta mánuði þinglaust. Þetta eru gamlar leifar, sem frekar væri ástæða til að hrófla við.

Ég get ekki komið því úr huga mér, að ef brtt. verður samþ., þá er 26. gr. í ósamræmi við 2. gr. frv. Mér finnst hart að trúa ekki sínum eigin þjóðhöfðingja, sem þjóðin hefur sjálf kosið, til að fara réttilega með vald sitt í fjögur ár. Ég trúi því ekki, að hv. d. samþ. hina frambornu brtt. við 26. gr., eins og hv. Nd. samþ. hana.