12.09.1944
Efri deild: 41. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 973 í B-deild Alþingistíðinda. (1719)

94. mál, byggingarmálefni Reykjavíkur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég vil þegar á þessu stigi málsins benda á, hvort ekki væri rétt að taka til athugunar breyt. á 6. gr. frv. eins og það er nú. Í þessari gr. stendur, að úrskurði megi skjóta til æðri dóms, en það málskot fresti ekki framkvæmd úrskurðar, sem þá fer fram á ábyrgð bæjarsjóðs. Mér finnst hér farið inn á óeðlilega braut, ef á að framkvæma úrskurði, sem hefur verið áfrýjað, án þess að vitað sé, hvort þessir úrskurðir fá staðizt fyrir dómi eða ekki. Þetta getur bakað báðum aðilum erfiðleika og tjón. Ef málið fellur á bæjarsjóð, er hann skaðabótaskyldur, en hjá því mætti komast, ef framkvæmd væri frestað, þar til dómur er fallinn. 4. gr. gerir ráð fyrir, að um ágreining geti verið að ræða milli þessara aðila, sem á að vera úrskurðað af stjórnarráðinu. Nú getur verið, að viðkomandi aðili, sem er að gera einhverja framkvæmd, þykist vera í fullum rétti, en úrskurður stjórnarráðsins falli honum í hag, og þá finnst mér óviðkunnanlegt að láta rífa það, sem hann hefur gert, áður en vissa er fengin fyrir, hvort hann hefur rétt til að gera það eða ekki. Þetta væri nokkurn veginn sama og ef ætti að framkvæma dóma, sem áfrýjað hefði verið, áður en dómur hæstaréttar væri fallinn.

Ég vænti, að hv. n. taki þetta til athugunar, svo að ekki verði farið að leggja inn á nýjar leiðir um framkvæmd úrskurða.