04.03.1944
Efri deild: 21. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í B-deild Alþingistíðinda. (174)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Ég ætla ekki að ræða um þetta mál almennt. Það eru að vísu ýmis atriði í ræðu hv. frsm., sem ég er langt frá að vera sammála honum um, sérstaklega um hættuna, sem af því gæti stafað að taka ákvæðið um 17. júní úr stjskrfrv. eins og gert hefur verið af meiri hl. stjskrn. Ég færði fram gagnrök gegn þessari staðhæfingu hans í n., og held ég því, að óþarfi sé að endurtaka þær umr. hér í þessari hv. d.

En ástæðan til þess, að ég stend hér upp, sem ég mundi sennilega ekki hafa gert nema vegna sérstaks tilefnis, er sú, að ég get ekki greitt atkv. með þeirri brtt., sem borin er fram af stjskrn. þessarar hv. d. Vinnubrögðin í stjskrn. beggja d., sem eins og alþm. er kunnugt, unnu saman og héldu sameiginlega fundi, voru þannig, að greidd voru atkv. um hverja einstaka gr. frv. og hvert einstakt atriði hverrar gr., og síðan varð það samkomulag, að þeir, sem voru í minni hl., gerðu ekki ágreining og bæru ekki fram brtt. Þetta atriði, sem hér liggur fyrir, bar þannig að í störfum n., að það lá fyrir brtt. frá ríkisstj., sú sama eða að minnsta kosti svipuð þeirri, sem hefur verið samþ. í Nd. við 26. gr. frv. Ég greiddi atkv. með brtt. stj., en sú brtt. var felld með 7 atkv. gegn 3 í n. Þá var brtt. borin fram í Nd., en hún kom frá ríkisstj. eða forsrh., ef ég man rétt., og eftir að hún hefur verið samþ. í Nd., þá greiði ég atkv. í samræmi við það, sem ég gerði í n. Hins vegar finnst mér ekki ástæða til að halda uppi langri umr. um þetta mál, því að mér finnst, satt að segja, að ekki skipti neinu verulegu máli, hvort þau ákvæði verði látin haldast eins og Nd. gekk frá þeim eða frv. verði aftur breytt í það form, sem það var í, þegar það var lagt fyrir Nd. Það má ýmis rök færa með því og gegn því, svo sem gert var í þeim umr., sem áttu sér stað í n. og Nd. En ég mun að sjálfsögðu greiða atkv. í samræmi við það, sem ég gerði í stjskrn.