06.10.1944
Efri deild: 54. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 980 í B-deild Alþingistíðinda. (1745)

131. mál, bæjarstjórn í Ólafsfirði

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Ég hef í sjálfu sér engu við það að bæta, sem ég sagði um þetta mál við 1. umr., öðru en því, að allshn. d. hefur fallizt á þau rök, sem ég hef fært fram, og leggur því til, að þetta frv. verði samþ. óbreytt.

En, eins og hv. þdm. hafa nú heyrt, þá hefur nú verið sent skeyti til Alþ. frá nokkrum íbúum Ólafsfjarðarhrepps, þar sem þeir óska eftir því, að Ólafsfjarðarhreppur verði áfram í Eyjafjarðarsýslu, en mæla aftur með því, að kauptúnið sé gert að bæjarfélagi, m.ö.o. að núverandi Ólafsfjarðarhreppi sé skipt. — Ég verð nú að segja það eins og það er, að mér kemur þetta skeyti ákaflega mikið á óvart. Því að eins og getið er um í grg. frv., þá hefur það verið tvívegis samþ. á almennum fundi í Ólafsfirði að óska eftir því, að Ólafsfjarðarhreppur fái bæjarréttindi. Og á öðrum þessum fundi var ég sjálfur staddur, það var þingmálafundur í vor. Þar heyrðist engin einasta rödd á móti þessu máli, og ekkert mótatkvæði kom fram. Ég hygg þó, að þar hafi verið menn, sem nú skrifa undir þetta mótmælaskeyti.

Það er nú sjálfsagt að taka þetta skeyti til athugunar. Og það hefði mátt taka, málið upp á þeim grundvelli frá upphafi, að Ólafsfjarðarkauptún yrði bær, en hreppurinn héldi sér að öðru leyti. Þannig hygg ég, að það hafi verið, þegar Neskaupstaður fékk bæjarréttindi. (IngP: Það var búið að skipta hreppnum áður.) Jæja, það er þó nokkuð svipað. Skiptin voru komin þar áður, en Neskaupstaður er samt sem áður hluti úr hreppi, sem áður var. Það er sjálfsagt að athuga þetta nýja viðhorf. Og ég mun fara fram á það við form. allshn., að málið verði tekið til athugunar á ný í n. út af þessu skeyti. En mér finnst engin ástæða til þess að stöðva 2. umr. út af þessu, og ég legg því til, fyrir hönd n., að frv. verði nú samþ. Það má þá taka það til nýrrar athugunar á milli umr.