06.10.1944
Efri deild: 54. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 981 í B-deild Alþingistíðinda. (1746)

131. mál, bæjarstjórn í Ólafsfirði

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Mér hefur alltaf skilizt, að aðalástæðan fyrir því, að þetta frv. er borið fram á Alþ., sé í raun og veru þeir erfiðleikar, sem Ólafsfjörður á í út af hafnarmálum. Og sé það svo, þá er hér í raun og veru verið að fara í kringum hafnarl., eins og þau eru. Vildi ég því mælast til þess við hv. flm., hvort hann sæi sér ekki fært að láta fresta þessari umr. hér og reyna að taka málið upp á öðrum grundvelli, m.a. við sjútvn. þessarar d., hvort ekki væri hægt að leysa á einhvern viðunandi hátt þessi vandamál, sem hér steðja að. Það hafa komið fram ýmsar raddir, jafnvel frá öðrum sveitarfélögum, um það, að það sé nauðsyn á að breyta þessum ákvæðum almennt í hafnarl., að sýslur séu ekki gerðar ábyrgar eins og nú er. Auk þess er þess að gæta, að komin eru l. um hafnarbótasjóð og frv. um fjárveitingu úr þeim sjóði. — Hafnarl. eru nú þrískipt, og eru þau lendingarbótal., þar að auki hafnarl. fyrir sýslur og enn hafnarl. fyrir bæi, og öll gera þau ráð fyrir mismunandi fjárframlögum og mismunandi ábyrgðum. — Mér finnst réttast, að hafnarl. séu tekin til endurskoðunar og saminn sé hafnarlagabálkur, þar sem hægt væri að fullnægja þessum þörfum og kröfum Ólafsfjarðar. Það er m.a. ein leið í þessu, að þótt ekki sé þetta sett undir lendingarbætur, þá séu settar sömu skyldur hjá þeim, sem ekki þurfa ábyrgð sýslun., að þeim sé heimilt að leggja 6% hafnargjald á brúttóafla, sem landað er á slíkum stöðum. Það væri ákaflega mikil trygging fyrir ríkissjóð, ef í l. stæði, að það megi leggja allt að 6% á brúttóafla í staðinn fyrir 1 eða 2%, eins og er í hafnarl.

Eftir að hafa heyrt skeytið, sem lesið var hér upp frá Ólafsfirðingum, treysti ég mér ekki til að fylgja málinu að svo stöddu. Ég vil, að málið sé tekið aftur til athugunar, og ég vil, að samráð í því sé haft við sjútvn. d., til þess að vita, hvort ekki sé hægt að finna lausn á þessu vandamáli, sem reynt er hér að leysa, kannske með því að stofna til annars enn meira vandamáls.