12.10.1944
Neðri deild: 64. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 985 í B-deild Alþingistíðinda. (1763)

156. mál, vera herliðs hér á landi

Flm. (Garðar Þorsteinsson):

Herra forseti. — Á þinginu 1943 flutti ég frv., sem hér er farið fram á, að gerðar verði breytingar á. Frv. þetta gekk út á það, að ríkissjóður skyldi bæta íslenzkum ríkisborgurum tjón, sem þeir hefðu beðið eða kynnu að bíða vegna aðgerða bandarískra hernaðaryfirvalda eða manna úr herliðum þeirra. Þetta frv. var samþ. á þinginu 1943 og varð þá að l. Ég tel, að frv. þetta hafi orðið að miklu gagni, ekki sízt vegna þess, að mér skilst, að reynslan hafi orðið sú, að það hafi verið hægt að semja við hernaðaryfirvöldin um næstum allar kröfur, sem á hendur þeim hafa verið gerðar, án þess að þær kæmu til úrskurðar annarra en þeirra, sem starfa í þessu sambandi. Mér er kunnugt um, að eftir að þessi l. voru samþ., samþ. bandarísku hernaðaryfirvöldin að taka upp samninga um kröfur, sem áður var búið að neita um að greiða, og veit ég ekki nema um 2 mál, sem komið hafa fyrir íslenzka dómstóla á móti ríkissjóði vegna bótakrafna á hendur hernaðaryfirvöldunum. Þegar frv. var upphaflega flutt, var eina mótbáran gegn því sú, að þetta kynni að hafa mikil fjárútlát í för með sér fyrir ríkissjóð, en það hefur ekki orðið sú reyndin á. Í frv. var upphaflega ekki gert ráð fyrir að takmarka bótakröfurnar við neina ákveðna upphæð, en til þess að fyrirbyggja, að hægt yrði að hafa skaðabótaskyldu ríkissjóðs of háa, varð samkomulag um að takmarka hana við 50 þús. kr., og féllst Alþ. á það. Nú er mér hins vegar kunnugt um, eins og segir í grg., að komið hefur í ljós, að það liggja fyrir skaðabótakröfur gegn hernaðaryfirvöldunum, sem ekki hafa fengizt samþ., og nema þær mun hærri upphæð en hámark skaðabótaskyldu ríkissjóðs er nú. Til þess að fá leiðréttingu á þessu í l. er hér farið fram á að miða hámarksupphæðina við 100 þús. kr. Ég held því, að þar sem reynslan hefur skorið úr um, að ríkissjóður hefur ekki þurft að greiða neinar bætur vegna bandarískra yfirvalda yfirleitt og þau verið fús til að samþ. kröfur á hendur þeim, þá ætti ekki að tefja þetta mál eða verða því að fjörtjóni, þótt hámark skaðabótaskyldu ríkissjóðs sé hækkað úr 50 þús. kr. upp í 100 þús. kr., auk þess sem gildi peninga er sízt meira nú heldur en þegar hið upprunalega frv. var flutt. Legg ég svo til, að þessu máli verði að lokinni umr. vísað til allshn.