27.11.1944
Efri deild: 77. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 986 í B-deild Alþingistíðinda. (1776)

156. mál, vera herliðs hér á landi

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Með frv. þessu er farið fram á að hækka hámark það, sem ríkinu er gert að greiða í skaðabætur fyrir tjón, sem kann að hljótast af veru herliðs Bandaríkjanna, úr 50 þús. kr. upp í 100 þús. kr.

Allshn. hefur haft þetta mál til meðferðar, og hún vill mæla með, að þetta verði samþ. Ég skal játa, að n. hefur ekki haft neina aðstöðu til að gera sér grein fyrir, hve mikil útgjöld kynni að leiða af þessu, en hún telur málið sanngjarnt og mælir þess vegna með því. Ég vil bæta við frá mínu eigin sjónarmiði, að í sjálfu sér er auðvitað sanngjarnt að hafa ekkert hámark, þegar allra aðstæðna er gætt, heldur greiði ríkið það tjón, sem af því hlýzt, en hámarkið er sett, vegna þess að hugsanlegt er, að svo stórkostlegt tjón ætti sér stað, að ríkinu væri alveg um megn að bæta það að fullu. En ég vil taka það fram, að mér er kunnugt um það, og það er sjálfsagt fleirum, að ýmsir gera ósanngjarnar kröfur í þessu efni, og mætti það fylgja samþykkt þessa máls hér í þ., að þar væri tekið fram, að ætlazt væri til, að gætt væri nægilegrar varasemi, þegar skaðabótakröfur eru úrskurðaðar.