04.03.1944
Efri deild: 21. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í B-deild Alþingistíðinda. (178)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Magnús Jónsson:

Herra forseti. — Ég skal ekki vera fjölorður um þetta mál. Hv. 8. landsk. þm. sagði, að brtt. sú frá stjskrn., sem hér er um að ræða, hefði eða rúmaði í sér hugsunarvillu, að því er þetta ágreiningsmál snertir. Ég skal játa, að segja má, að þetta sé í vissu falli satt almennt talað, þegar það er sett fram eins og hann gerði: Löggjafarvaldið er alveg hjá tveimur aðilum, og af því leiðir, að ekkert verður að l., fyrr en þeir tveir aðilar hafa samþ. það. Og þessu er alveg jafnt haldið í stjskr., hvort sem brtt. verður samþ. eða ekki. 2. gr. stjskr. er þar af leiðandi alveg rétt og getur staðizt alveg jafnt eftir sem áður. Það er almenn regla, að l. öðlist ekki gildi, fyrr en þau eru borin upp í ríkisráði og undirskrifuð af forseta. En stjskrn. hefur náttúrlega leyfi til, þrátt fyrir þá almennu hugsun, sem þar er sett fram, að setja undantekningu frá þessari reglu.

Það er auðvitað hægt í stjskr. að setja takmarkanir fyrir þessu valdi forseta í sjálfu sér, alveg eins og Alþ. sýnist. Og ef þessi brtt. verður samþ., þá eru þessar takmarkanir settar, sem sé, að ef ágreiningur er milli þessara tveggja aðila, Alþ. og forseta, þá sé það í raun og veru Alþ., sem ræður. En þá er forseta eftir sem áður áskilinn réttur, sem engum öðrum í þjóðfélaginu er áskilinn, sem sé málskotsréttur, er orðið getur til þess, að hann geti orðið aðili að löggjöf samt sem áður, þannig að hann er eini aðilinn í þjóðfélaginu, sem hefur aðstöðu til þess að fella úr gildi l., sem Alþ. hefur samþ. Með þessu yrði brugðið út af þessari almennu reglu, sem . annars er haldið, að lagafrv. verða ekki l., nema þau séu samþ. af Alþ. og undirrituð af forseta. Ég sé því ekki annað en þetta sé aðeins mál, sem Alþ. ákveður, og það sé ekkert í því, sem hægt sé að tala um, hvort sé sérstaklega hugsunarrétt eða hugsunarrangt. Hér er aðeins um það að velja, hvort þingið vill efla dálítið vald forsetans eða draga úr því. — Ef maður færi í þessu sambandi að tala um, hvað væri „hugsunarrétt“, þá gæti maður náttúrlega sagt, að forsetinn, þessi eini þjóðfélagsþegn, sem valinn er í þessa stöðu, hann hafi í sjálfu sér enga lýðræðislega aðstöðu til þess að vera svo mikill aðili að löggjöf. En hann hefur þessa aðstöðu aðeins í krafti þess, að hann sé réttari fulltrúi þjóðarviljans en Alþ. Hann hefur rétt til þess að skjóta því undir atkv. þjóðarinnar, hver er sá rétti þjóðarvilji í ákveðnu máli. Og þá á vilji hans ekki að ráða, fyrr en atkvgr. hefur sýnt, hvort hann er sá rétti fulltrúi þjóðarviljans. Fulltrúar þjóðarinnar á Alþ. eiga að ráða fyrst um sinn, og forseti á að hafa rétt til þess að spyrja þjóðina um, hvort hann sé ekki raunverulegri og réttari fulltrúi þjóðarviljans, og úr því verður ekki skorið, fyrr en þjóðin samþ. það í hverju tilfelli, að hann sé það. En ef ekki má framkvæma l., sem Alþ. samþ., en forseti synjar um staðfestingu, fyrr en búið er að samþ. þau við þjóðaratkvgr., þá getur forseti gert svo til hverri ríkisstj. ómögulegt að starfa, því að hann getur verið með einlæg málskot til þjóðarinnar. Það má kannske segja, að hann geri það ekki. En hver veit, ef forsetinn er þannig gerður, að honum finnst Alþ. sí og æ vera með háskalega löggjöf fyrir þjóðfélagið, angurgapalegar samþykktir og algerlega rangar, að því er stefnu snertir. Og þá getur forseti gert Alþ. og ríkisstj. algerlega ómögulegt að starfa, ef hann getur með einlægum málskotum til þjóðarinnar hindrað það í margar vikur, að hægt sé að framkvæma l., sem samþ. hafa verið á Alþ.

Sá er munurinn á aðstöðu forseta og konungs, að sá fyrrnefndi er kosinn af þjóðinni og fenginn þessi réttur í hendur. Samkv. þessari lýðveldisstjskr. getur hann alltaf hindrað, að l. fái gildi, því að hann getur hindrað Alþ. í að starfa. Forseti getur hindrað l. í trássi við þjóðarviljann og allar reglur. Ef þjóðaratkvgr. gengur forseta í óhag og l. öðlast gildi, þá verður þetta svo hlægilegur skrípaleikur, að óhugsandi er, að nokkur forseti leyfi sér slíkt. Ef hinn kosturinn er tekinn, að láta l. öðlast gildi þrátt fyrir synjun forseta, þá getur hann ekki hindrað það nema í samræmi við þjóðarviljann. Mér kemur því mjög á óvart, hvað margir eru með því að auka vald forsetans. Ég hélt, að Alþ. væri á þeirri skoðun, að því bæri að halda því löggjafarvaldi, sem það hefur nú. Það er og hefur alltaf verið á tilfinningu allra, að Alþ. hafi eitt haft löggjafarvaldið. Ég vil, að það hafi það áfram. Ég álít þó ekki hægt að komast hjá að áskilja honum þennan málskotsrétt, þannig að hann geti fellt l. úr gildi, ef hann þykir réttari fulltrúi þjóðarviljans en Alþ. Mig furðar stórlega á, hvað hv. 3. landsk. lagði á það mikla áherzlu í ræðu sinni, að forseti yrði kosinn með meiri hl. atkv. allra kjósenda. Ég álít, að hann megi vera kosinn með eins fáum atkv. og vill. Ég álít, að hann eigi að vera valdalítill og ekki sé rétt að tryggja honum mikið þjóðarvald til að byrja með. Hann á að vera kosinn jafnvel af minni hluta kjósenda, ef þjóðin kærir sig ekki um að veita honum meiri hluta.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að Alþ. eigi að hafa löggjafarvaldið og halda forsetanum eins mikið utan við málefnin og frekast er unnt. Mér þótti það því næsta undarlegt, þegar hv. 8. landsk. talaði um, að óheppilegt væri að draga forsetaefni inn í deilur. Það er mjög slæmt. Ég játa það. En þá veit ég ekki, hvers vegna menn vilja fá honum svona mikið vald, sem rótar honum, þegar hann er orðinn forseti, í mestu ágreiningsmálin. Sannleikurinn er sá, að ef forsetinn á að vera utan við deilur og standa sem hlutlaus maður, t.d. í stjórnarskiptum, verðum við að hafa hann sem valdaminnstan. Það, sem fyrir mér vakir með þessu, að hafa forsetann sem valdaminnstan, er einungis að vernda þetta dýrmæti, að hafa einhvern mann, sem getur staðið utan við deilur. Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta meira. Ég furða mig á ræðu hv. þm. Str. Þessi till. er mjög undarleg, en svo rís hér upp einn maður úr n. og segist ætla að greiða atkv. á móti henni. Ég var ekki undrandi yfir afstöðu hv. þm., en mér þótti þetta undarlegt, því að ég hélt, að n. stæði saman um þessa till.