02.12.1944
Efri deild: 80. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (1797)

52. mál, hafnarlög fyrir Akureyrarkaupstað

Frsm. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta var flutt í Nd. af þm. Ak. samkv. beiðni bæjarstjórnar Akureyrar. Í hafnarl. fyrir Akureyrarkaupstað eru eigi eins og í hafnarl. annarra kaupstaða nein ákvæði um framlag úr ríkissjóði til hafnargerðar né heimild fyrir ríkisstj. til þess að ábyrgjast lán handa kaupstaðnum til hafnargerðar. Með framangreindum breyt. verður úr þessu bætt og fengið samræmi við hafnarl. þau, sem sett hafa verið á síðari árum. Það virðist því ekki nema eðlilegt, þegar Akureyri hefur hafið undirbúning að nýjum hafnarframkvæmdum, að farið sé fram á, að slík ákvæði nái til þeirra framkvæmda. Sjútvn. Nd. taldi sjálfsagt að taka slík ákvæði inn í hafnarl. fyrir Akureyri, og sjútvn. þessarar d. hefur einnig orðið sammála um, að sjálfsagt sé að gera það.

Hins vegar var í Nd. tekið upp í frv. af sjútvn. breyt. eftir tilmælum vitamálastjóra um það, að hafnarsjóður skyldi eiga allt land við höfnina, sem flyti yfir með stórstraumsflóði. Meiri hl. sjútvn. þessarar d. vildi ekki fallast á þetta ákvæði, með því að þá væri gengið á eignarrétt þeirra manna, sem lönd ættu að höfninni. Og Akureyri á ekki landið, þar sem hafnarframkvæmdirnar eiga að vera. Ég fyrir mitt leyti get samþ., að slík ákvæði væru sett inn í frv. Það væru aðeins ný ákvæði um skiptingu landamerkja milli sjávar og upplands. Aðalatriðið er, þegar bæjarfélög koma upp dýrum mannvirkjum, sem eiga að koma almenningi í bæjunum að gagni, að nokkuð sé gert til þess, að þau verði ekki dýrari en óhjákvæmilegt er. Þetta var einnig deiluatriði í fyrravetur við afgreiðslu hafnarl. fyrir Siglufjörð, og varð það þá að samkomulagi, að þetta atriði væri fellt úr frv. Og þar sem ég vil ekki stofna til deilna um hafnarl. fyrir Akureyri, hef ég fallizt á, að n. legði einróma til, að þetta ákvæði félli úr frv. Flytur hún því brtt. 578 um, að 2. gr. frv. falli niður, þar sem hún fjallar um þetta atriði.

Að öðru leyti var n. sammála um að fá frv. samþ., þar sem það felur ekki í sér annað en það, að Akureyrarkaupstaður njóti sömu réttinda um fjárframlög og ábyrgð ríkissjóðs til nýrra hafnarframkvæmda og aðrir kaupstaðir, sem hafa fengið samþ. hafnarl. á seinni árum.

Vona ég, að hv. d. geti samþ. frv. með þeirri breyt., sem sjútvn. leggur til.