24.10.1944
Neðri deild: 70. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 991 í B-deild Alþingistíðinda. (1808)

170. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Flm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Þetta frv., sem ég leyfi mér að flytja á þskj. 433, fjallar um aukna fjárveitingu til hafnargerðar á Skagaströnd og að ríkisstj. sé veitt heimild til að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs allt að 1800000 kr., er hafnarsjóður kann að fá til hafnargerðarinnar. Þetta frv. er flutt í samráði við fyrrv. vitamálastjóra, núv. hæstv. atvmrh., og eins og sjá má, hefur vitamálastjórnin látið gera kostnaðaráætlun um verk það, sem ætlunin er, að þarna verði unnið.

Það hefur verið svo, að á undanförnum árum, frá því að hafnarl. Skagastrandar voru samþ., hefur verið mjög mikil tregða á því, eins og víða annars staðar, að fá nægilegt fé til að ljúka þessu verki. Nú er það svo, eins og alkunnugt er, að á bilinu frá Siglufirði og a.m.k. til Sauðárkróks er engin höfn, sem er fullkomin stórskipahöfn, og það er álit allra þeirra, sem kunnugir eru, að það sé hin mesta nauðsyn að koma upp fullkominni stórskipahöfn á Skagaströnd, og liggja til þess margar orsakir, sem að nokkru leyti eru tilgreindar í grg. fyrir þessu frv. og að nokkru leyti hefur verið gerð grein fyrir áður hér á Alþ., bæði í sambandi við framlag til þessa verks og á annan hátt.

Ég sé ekki á þessu stigi ástæðu til að fjölyrða mikið um þetta mál. Vænti ég, að hv. d. taki þessu frv, vel, og legg til, að því verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. sjútvn.