12.10.1944
Neðri deild: 64. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1001 í B-deild Alþingistíðinda. (1856)

115. mál, laun háskólakennara Háskóla Íslands

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. — Ég get því miður ekki skilið öll þessi andmæli hv. þm. Snæf. Hann talar t.d. um það, að því er snertir viðskiptadeild háskólans, að það sé fjarstæða að lögfesta þá deild, án þess að ráða fasta kennara til frambúðar. Er þetta ekki það, sem gert hefur verið? Mér skilst, að viðskiptadeild hafi starfað undanfarið, án þess að kennarar hafi verið ráðnir til frambúðar. Um það vitnar frv. hv. flm. sjálfs, því að ef þeir hefðu verið ráðnir til frambúðar, væri óþarft að flytja frv. um, að þessi embætti skyldu stofnuð. Ég fæ ekki séð, og það kom ekki fram í ræðu hv. þm. Snæf., nein rök fyrir því, að ekki væri eins hægt að hafa þessa kennara ráðna til bráðabirgða, til 15. júní 1946, eins og þeir hafa verið ráðnir að háskólanum að undanförnu, án þess að um ráðningu þeirra væru nokkur lög gildandi.

Ekki minntist þm. heldur neitt á mþn. í skólamálum, þótt þar eigi sæti einn af prófessorum háskólans og málefni háskólans séu vitanlega á hennar verksviði ekki síður en — önnur skólamál. Mér finnst það ekki nema sjálfsögð kurteisisskylda að fresta að ákveða þetta endanlega þangað til n. getur skilað áliti um málið. Ég geri ráð fyrir, að ríkisstj. noti sér þá heimild, sem henni yrði veitt samkv. till. minni til að hafa þessa kennara starfandi við háskólann fyrst um sinn, eða til 15. júní 1946. Þm. óskaði, að þingmenn greiddu heldur atkv. gegn frv. en með brtt. minni og frv. síðan svo breyttu. Það finnst mér kynlegt, því að betra er, að þetta sé lögfest til ákveðins tíma, tveggja ára, heldur en núverandi ástand haldist.