12.10.1944
Neðri deild: 64. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (1857)

115. mál, laun háskólakennara Háskóla Íslands

Sveinbjörn Högnason:

Hv. frsm. (GTh) óskaði, að það kæmi beint fram, ef einhver væri móti frv. Ég tel, eins og sakir standa og eins og öll afstaða Alþingis er nú í fjármálum, að ekki sé fært að lögfesta sjö ný embætti, þótt sum séu til bráðabirgða. Ég er því á móti frv., eins og það er borið fram. Í öðru lagi er ófært að ganga nú frá framtíðarfyrirkomulagi í málinu, þegar það er vitað, að starfandi n. í skólamálum hefur enn ekkert látið í ljós um fyrirkomulag á málum háskólans.

Ég veit ekki betur en fjárhagsástandið sé nú þannig, að útgjöldin séu orðin tugum milljóna meiri en tekjurnar og upplýst er, að 4/5 allra útgjaldanna eru lögákveðin gjöld, þar af 30–40 millj. launagreiðslur til fastlaunamanna. Ég hef ekki séð neinar till. frá þeim þm., sem mæla fyrir frv., í þá átt að afla nýrra tekna. Ég sé, að um leið og þetta mál er tekið til umr., kemur frv. frá ríkisstj. um að bæta við áttunda háskólakennaranum, frv. á þskj. 423. Ég fyrir mitt leyti vil fyrst sjá til þess, hvernig reiðir af fjárhagsmálum ríkisins á næsta ári, og hvaða vilji er til þess að afla nauðsynlegra tekna. Mér þætti rétt að heyra frá fjvn., hvað henni finnst um að stofna nú 7 embætti á þennan hátt, alveg skipulagslaust, og fá þann kostnað ofan á fjárl., sem fyrir liggja.

Ég get fallizt á það, til bráðabirgða, að samþ. brtt. hv. þm. V.-Húnv. En ef hún verður felld, er ég móti frv. að svo komnu máli.