12.10.1944
Neðri deild: 64. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1005 í B-deild Alþingistíðinda. (1865)

115. mál, laun háskólakennara Háskóla Íslands

Sveinbjörn Högnason:

Það er ekki þörf að ræða mikið við hv. 8. þm. Reykv. eða slíka menn, sem hlaupa frá orðum sínum. Þeir eru ekki svara verðir. Hv. þm. sagði, að það gerði ekkert til, þó að þetta yrði sent n., en lagði ekki áherzlu á það, og hann kvaðst geta sagt fyrir hönd milliþn., að hún mundi reiðubúin að fylgja frv., án þess að það færi til n. Svo hleypur hann frá þessum ummælum og þyrlar upp ryki, þegar hann sér, að allt er komið í öngþveiti. Það er alltaf hans háttur, og ég hygg, að fleiri þm. hafi þá reynslu. Ég get sagt honum það, að ég tek ekki minnsta mark á orðum hans. Hvað sem hann segir um þetta, er ég viss um, að það er tómt fleipur. En ég verð að segja, að það er furðulegt, að þm., sem skipaður er í milliþn., skuli ekki einu sinni vita um frv., sem fram hafa komið um málefni n., þó að hann liggi í fríi austur á Laugarvatni um hásumarið, en ætlast til, að maður, sem stundar sinn búskap og heyskap, geti gefið honum upplýsingar um þetta. Ég veit ekki betur en milliþn. í skólamálum lægi tímum saman austur á Laugarvatni í sumar, en skrifar svo presti austur í sveit til að spyrja um þetta. Ég ætla að segja þessum hv. þm. það, að við mann, sem starfar þannig í opinberum trúnaðarmálum, ætla ég ekki að tala meira um þetta mál.