08.03.1944
Neðri deild: 28. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í B-deild Alþingistíðinda. (187)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. — Ég tók ekki til máls, þegar þetta mál var rætt síðast hér í hv. deild.

Þær brtt., sem hæstv. forsrh. bar fram, þegar málið var hér fyrr fyrir hv. d., liggja nú fyrir aftur. Mér datt ekki í hug, að svo gæti farið hér, eins og þó fór, að sú brtt. yrði samþ. og till. stjskrn. felldar. Enda held ég, að það hafi verið svo, að þeir menn, sem þannig greiddu atkv., hafi ekki athugað til fullnustu, hvað hér var um að ræða.

Mér finnst líka allmikill misskilningur vera um það hjá hv. þm., að þeim finnist vald forseta með þeim ákvæðum, sem stjskrn. hefur lagt til, vera of lítið og að það þurfi að auka frá því, sem stjskrn. leggur til. Mitt álit er alveg þvert á móti. Ég álít — að sízt sé ástæða til þess fyrir okkur með breyt. á stjskr. hér á þ. að rýra vald Alþ. Öll stjórnarskipunarbarátta okkar Íslendinga hefur miðað að því að fá það vald, sem var í höndum konungs, í hendur Alþ. Og síðustu 20 árin höfum við haft þetta vald í höndum þingsins, og ef konungurinn hefði gripið til synjunarvaldsins, þá hefði orðið að grípa til ráðstafana, til þess að Alþ. hefði það vald, sem það hefur fengið. Raunverulega hefur konungurinn ekki haft synjunarvald hjá okkur nema á pappírnum, og ef það hefði ekki verið pappírsvald aðeins, hefði ríkið gripið til ráðstafana, til þess að valdið væri í höndum Alþ. — Mér datt því ekki í hug, að meiri hl. Alþ. samþ. brtt., sem gengi í þá átt að rýra vald þingsins, því að með því væri skapað nýtt vald við hliðina á Alþ., sem væri miklu sterkara en hið erlenda konungsvald síðustu árin.

Þegar við í mþn. í stjskr.málinu byrjuðum að athuga stjskrfrv., — og Sósfl. á fulltrúa í n., — þá fannst okkur ákvæðið um þingkjör forseta ekki rétt, vegna þess að forsetinn hefur samkv. stjskrfrv. svo mikið vald, — það væri þess vegna ekki eðlilegt að hafa hann þingkjörinn. Það væri mikið vald, sem forseti fengi með því, að auk þess sem hann hefur áhrif á framkvæmdarvaldið, gæti hann skotið til þjóðarinnar málum til synjunar, sem Alþ. væri búið að samþ. Það væri því eðlilegt, að forseti væri kosinn af þjóðinni, þegar hann hefði þetta mikið vald. Ef hann væri þingkjörinn. virtist okkur eðlilegast, að hann hefði ekkert vald til þess að skjóta málum til þjóðarinnar. Það er í sjálfu sér mótsögn í því, að forseti sé kosinn af' þinginu og að hann einnig hafi vald til þess að skjóta l., sem þingið samþ., til þjóðarinnar. Og sá forseti, sem slíkt vald hefði, álitum við, að ætti að vera kosinn af þjóðinni. Ég held þess vegna, að það sé alveg gengið út frá röngum forsendum, þegar hv. þm. tala um, að vegna þess að forseti sé þjóðkjörinn, þurfi hann að hafa meira vald. Ég vek athygli hv. þm. á því, að meira að segja um sjálft þingræðið, sem við byggjum á, er ekki fastar að orði kveðið í þessu frv. en að í 1. gr. þess stjskrfrv., sem hér liggur fyrir nú, er einvörðungu sagt: „Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn“. Það er eina orðið í frv, um þetta. Að öðru leyti eru þingræðinu engin takmörk sett í þessu stjskrfrv.

Hæstv. forsrh. var að tala um það áðan, að það væru ekki orðnar eftir nema skrautfjaðrir á forsetanum, ef hann væri sviptur þessu raunverulega synjunarvaldi, að geta hindrað, að l. gangi í gildi þannig, að þau gildi ekki sem l., fyrr en búið væri að bera þau undir þjóðaratkv., — m.ö.o., að 16. gr. þessa frv. um, að l. og mikilvægar stjórnarráðstafanir skuli bera upp fyrir forseta í ríkisráði, og ýmis önnur ákvæði stjskr. séu ekki annað en skrautfjaðrir á forsetanum. En þessi ákvæði og hliðstæð ákvæði voru ekki heldur annað en skrautfjaðrir, meðan konungurinn var. Eða hver vill halda því fram, að fundur í ríkisráði, eftir að þingið hafði komið sér saman um l., hafi verið nokkuð annað en sjálfsagt embættisverk, sem leyst hafi verið af hendi, eins og þegar forsrh. skrifar undir lög og tilskipanir?

En það eru önnur ákvæði í stjskrfrv., sem eru sannarlega annað og meira en skrautfjaðrir, þ.e. ákvæði 15. gr., þar sem fyrirskipað er, að forseti lýðveldisins skipi ráðherra og veiti þeim lausn og að hann ákveði tölu þeirra og skipti verkum með þeim, — og 24. gr., þar sem ákveðið er, að forseti geti rofið Alþ. Og við skulum bara athuga, hvað slíkt vald þýðir, hvað það þýðir á pólitískum krepputímum, því að það er á slíkum tímum, sem fyrst reynir verulega á. Við skulum hugsa okkur, hvernig fer, ef t.d. kemur til þess, að forseti neitar að staðfesta l. og skýtur þeim undir þjóðardóm. Venjulega eða a.m.k. mjög oft mundi ríkisstj., sem hefði fengið l. samþ. í þinginu og hefði meiri hl. þingsins á bak við sig, segja af sér, ef forseti neitaði að staðfesta slík l., hún mundi leggja lausnarbeiðni fyrir forseta. Ef forseti er röggsamur og duglegur maður og er viss um, að hann hafi á réttu að standa, að það hafi verið rétt af honum að láta þessi l. ganga undir þjóðardóm, — því að það yrði ekki gert út af smámálum, — þá getur forseti veitt stj. lausn. Og slík stj. fær e.t.v. ekki stuðning þingsins, meira að segja kannske vantraust. Engu að síður er stj. í landinu, — og forseti getur rofið þingið, og sú stj. getur gefið út brbl. Eftir átta mánuði kemur svo Alþ. saman á ný, og það þing er kannske enn þá óþægara en hið fyrra, og forseti getur rofið þetta nýja þing. Og það eru engin takmörk fyrir því, hversu oft forseti getur rofið þingið. Þetta á sér ekki stað í nokkurri annarri stjskr. Ég vil vekja sérstaka eftirtekt á þessu, því að þegar um ákvæði stjskr. er að ræða, verða þau ákvæði að miðast við einmitt það undantekningarástand, sem gert er ráð fyrir, að vart geti fyrir komið. Meðan allt gengur rólega og vel í þjóðfélaginu, þá gengur þetta af sjálfu sér. En einmitt á þeim stundum, þegar það ólíklegasta kemur fyrir, þá færist valdið eðlilega í hendur forseta. Það er því gefið mál, að forseti hefur eftir því frv., sem hér liggur fyrir, ekki neitt smáræðis vald. Hann hefur vald, sem getur verið „afgerandi“, og sem vafalaust hlýtur að verða gert upp á milli þings og þjóðar, hvernig skuli notað. Ég lít því svo á, að það sé fyllilega rétt fyrir hv. þm. að athuga gaumgæfilega, að með þeirri stjskr., sem hér er verið að setja, er sannarlega ekki verið að gera forseta íslenzka lýðveldisins að valdalausum manni, síður en svo. Hann er persóna, sem vissulega hefur mjög svo mikið vald, einmitt hvað snertir framkvæmdarvaldið, að það er alveg óþarfi að bæta því ofan á að veita honum persónulegt synjunarvald. Bókstaflega talað gæti þetta orðið þannig, eins og hv. 2. þm. S.-M. og frsm. hv. stjskrn. benti réttilega á, að það gæti orðið að kalla óstjórnandi í landinu. Ef t.d. forseti, sem kosinn er af t. d. 20–30% kjósenda og vel gæti verið harðskeyttur í skjóli þeirra manna, sem að baki honum stæðu, samþ. lög, sem hvorki væru mjög róttæk né íhaldssöm, gæti slíkur forseti, meira að segja þó að hann hefði ekki annað vald en að geta skotið málinu til þjóðarinnar, gert stjórn, sem er á annarri skoðun, mjög erfitt að starfa. Það væri mjög slæmt fyrir þjóðina að eiga það yfir höfði sér að fá hverja atkvgr. af annarri. Ef þessi forseti hefur þar að auki það vald að geta persónulega neitað þessum l. um staðfestingu og færi til þjóðaratkvgr. og þjóðaratkvgr. skæri úr, gæti það orðið alveg ómögulegt fyrir stj. og gæti leitt til stjórnarslita og annars slíks. Ég held því, að það sé mjög fjarri að leggja eins mikla áherzlu og lögð hefur verið á það af hæstv. forsrh. og sumum hv. þm. að veita forseta svo mikið persónulegt synjunarvald, ekki sízt þegar hægt er að kjósa forsetann þannig, að hann sé fulltrúi algers minni hl. þjóðarinnar.

Það hefur oft komið fram í þessari umr., að það, væri eins og verið væri að draga eitthvað úr valdi þjóðarinnar með því, að forseti fái ekki persónulegt synjunarvald. Alþ. hlýtur alltaf að vera miklu meiri fulltrúi en forsetinn sjálfur, einkanlega ef hann er kosinn eftir þessum l. Forsetinn getur verið fulltrúi fyrir t.d. 9% þjóðarinnar og hinn hluti kjósenda ekki átt í honum minnstu vitund. Því fer þar af leiðandi mjög fjarri, að með því að halda fast í þetta vald, sem Alþ. hefur haft, sé verið að draga úr valdi þjóðarinnar, heldur þvert á móti. Ég trúi því ekki öðru en hv. d. geti samþ. stjskr. eins og hún er komin frá hv. Ed. Hún getur verið þess fullviss, þegar hún athugar stjórnskipunarlögin eins og þau liggja fyrir, að forseti íslenzka lýðveldisins hefur sannarlega óvanalega mikið vald eftir stjskrfrv. sjálfu. Og að honum skuli í viðbót við það vald, sem alltaf er valdsvið forsetans, líka vera fenginn réttur til að geta skotið máli sínu til þjóðarinnar undir þjóðaratkvgr., er sannarlega meira vald en við höfum rétt til að veita honum.

Viðvíkjandi þeirri brtt., sem hv. 3. þm. Reykv. er með, þar sem hann heldur því fram, að þær breyt., sem stjskrn. og hæstv. forsrh. leggja til, að gerðar verði, séu á rökum reistar, vil ég í því sambandi benda honum á, að það er óheimilt að gera nokkrar breyt. á stjskr. aðrar en þær, að Íslendingar taki eða stofni lýðveldi, taki æðsta vald í málefnum ríkisins í sínar hendur. Það er verið að stofna lýðveldi á Íslandi, og það er af þeirri ástæðu, að við tökum burt konunginn. Við stofnum ekki íslenzkan konungdóm eða íslenzkan forsetadóm. Við erum að taka það vald, sem konungurinn hefur haft. Við erum að stofna það, sem kallað er lýðveldi og frábrugðið er konungdómi í verulegum atriðum. Og eitt af stærstu atriðunum er það, að lýðveldið fái vald þingsins að miklu meira leyti en var undir konungdóminum, því að konungdómurinn var, eftir því sem túlkað hefur verið, ekkert annað en nafnið tómt. Það er því alveg gefið, að stjskr. frá 1942 heimilar okkur að gera þær breyt., sem eðlilega leiðir af stofnun lýðveldis, og þar með þær breyt., sem miða að því að afnema konungdóminn. Hefði í því mátt fara miklu lengra en gert hefur verið. Með því, sem nú er gert, er gengið fullmikið á rétt og vald Alþ., eins og hvað eftir annað hefur verið tekið fram.

Ég álít því, að hv. d. eigi nú að fella þær brtt., sem fram hafa komið, og samþ. stjskr. eins og hún liggur nú fyrir.