08.03.1944
Neðri deild: 28. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í B-deild Alþingistíðinda. (188)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Ólafur Thors:

Herra forseti. — Ég vildi aðeins gera stutta aths. varðandi þann ágreining, sem er á milli stjskrn. og hæstv. ríkisstj. Ég get vísað til þess málflutnings, sem hér hefur farið fram, fyrst og fremst af hálfu formanns n., hv. 2. þm. S.-M., og hv. 2. þm. Reykv., og skal ég ekki gera tilraun til að bæta þar miklu við, enda tel ég þess ekki þörf. — Ástæðan til þess, að ég vildi segja nokkur orð, er sú, að hv. 3. þm. Reykv. hélt því fram sem skoðun sinni, að sú breyt., sem ætti að gera á stjórnskipul. landsins, bæði samkv. þeirri till., er hæstv. forsrh. flutti, og till. þeirri, sem hér er flutt af hv. stjskrn., væri óheimil að hans dómi samkv. stjórnskipul. frá 16. des. 1942. Ég vildi láta það koma fram, að þessi hv. þm. var þá ráðh. og þessi stjskrbreyt. var flutt af þáv. ríkisstj. og að ég fyrir mitt leyti hafði annan skilning á þessu. Mér dettur ekki í hug að staðhæfa, að sá skilningur þurfi að vera réttur, en ég vil, að það komi fram, að ríkisstj., sem þá flutti þessa till., hafði ekki átt sérstakar viðræður í sambandi við þennan skilning hv. 3. þm. Reykv. Ég man það ekki, enda hefur hv. 3. þm. Reykv. ekki fært fram þau rök, heldur hefur hann talið, að samkv. orðalagi þessarar stjórnlagabreyt., væri ekki heimilt að gera þær breyt., sem nú á að gera á stjórnskipul. landsins. Mér þótti rétt að láta þetta koma fram, því að ég var frsm. þessarar stjórnlagabreyt. Ég vildi láta vita, hvað fyrir okkur vakti, þegar þetta frv. var flutt. Ég álít einnig, að gera megi þær breyt., sem nú á að gera, hvort heldur er með tilliti til hæstv. ríkisstj. eða þeirrar till., sem hæstv. stjskrn. sendi á þingið. Það er eins og hv. 3. þm. Reykv. álíti ekki leyfilegt að gera með þessum hætti nokkrar breyt. á stjórnskipul. aðrar en þær, sem beinlínis snerta sambandsslitin við Dani, og Íslendingar taki málefnin í sínar hendur. En eins og hér hefur verið leidd athygli að, er þetta sprottið af misskilningi, enda er það óskylt mál, að vald þjóðhöfðingjans breytist alveg eðli málsins samkv. við það, að þjóðhöfðinginn verður innlendur maður, búsettur í landinu sjálfu. Og ég vil þá líka leiða athygli þessara manna að því, að ég, sem er nú ekki neinn sérfræðingur í þessum efnum, hef oft spurzt fyrir um það hjá fróðum mönnum, þeim er sæti eiga í stjskrn., hvort þeir vissu þess nokkur dæmi, að forseti lýðveldis hefði algert synjunarvald. Þeir sögðu, að þeir þekktu þess engin dæmi, og ég er viss um — og þeir, sem sæti áttu á Alþ. 1942, — að þá fengi forsetinn meira synjunarvald en dæmi eru til í nokkru öðru landi.

Þennan skilning vildi ég láta koma fram af minni hálfu, en sé að öðru leyti ekki ástæðu til að gera neinar aths. við þær umr., sem hér hafa farið fram. Við hv. þm. A.-Húnv. og hv. þm. Vestm. vil ég segja það, að vel hefði mátt ræða þá skipun, sem þeir leggja til, en ég tel till. of seint fram komna og slæmt að reka þetta mál mjög á milli deilda. E.t.v. getur komið til greina að taka til athugunar seinna þessa uppástungu þeirra,, en ég get ekki greitt þessari till. atkv. núna. Mælist ég svo til þess, að hv. d. samþ. frv. í því formi, sem það nú liggur fyrir.