05.12.1944
Efri deild: 82. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í B-deild Alþingistíðinda. (1882)

115. mál, laun háskólakennara Háskóla Íslands

Frsm. meiri hl. (Kristinn Andrésson):

Herra forseti. Ég gleðst yfir þeim undirtektum, sem frv. þetta fær í þessari d.; og sé, að fjölgun kennaraembætta við heimspekideildina fær góðar undirtektir og að ekki er nema sjálfsagt að lögfesta dósentsembætti í viðskiptafræðum.

Það er sérstaklega eitt atriði, sem ástæða er til að skýra örlítið frá, og er það viðvíkjandi þrem prófessorum í verkfræðideild. Einn þm., hv. þm. Dal., virðist reyndar leggja móti því, að stofnun þessara embætta fari fram nú að þessu sinni, hann vill heldur taka málið í fleiri áföngum. Það er að vísu rétt hjá honum, að þessi deild var stofnuð eftir að styrjöldin skall á, þar sem þess var þá brýn nauðsyn. Síðan árið 1940 hefur verið haldið uppi kennslu í deildinni, en aðeins sem stundakennslu, og hygg ég, að reynslan hafi nú sýnt okkur eftir þennan stutta tíma, að full ástæða sé til þess, að þetta nám fari fram hér heima. Það er að vísu rétt, sem hv. þm. S.–Þ. sagði, að það eru ekki aðeins stúdentar, er stunda hér fyrri hluta verkfræðináms, sem um er að ræða, heldur er nú verið að taka hér upp framhaldsnám í einni grein verkfræðinnar, byggingarverkfræði. Í henni stunda nú 7 stúdentar nám, 14 eru í yngri deild, og 6 tóku fyrri hluta próf á s.l. vori. Það eru því alls 27 stúdentar, sem nám stunda í verkfræði, en þar af stunda sjö stúdentar framhaldsnám í byggingarverkfræði, eins og áður er sagt, og um þá hefur ágreiningur risið innan háskólans. Menn greinir ekki á um, að hér skuli stofna deild, sem útskrifi stúdenta frá fyrri hluta verkfræðináms, en menn greinir hins vegar á um, hvort framhaldsnám skuli vera látið fara fram hér á landi eða hvort stúdentar sigli til framhaldsnáms. Meiri hluta verkfræðinganna þótti rétt að taka eina grein verkfræðinnar út úr, sem sé byggingarverkfræði, og útskrifa fullkomna byggingarverkfræðinga frá henni. En þeir hinir sömu verkfræðingar, sem eindregið mæla með framhaldsnámi í byggingarverkfræði, segja jafnframt, að það sé allt of lítið að hafa ekki nema þrjá prófessora í verkfræðideild, þar sem tveir kenna fyrri hlutann, en aðeins einn síðari hlutann, og álíta, að það þurfi tvo til að kenna fyrri hlutann og þrjá hinn síðari. Okkur þykir því rétt, meðal annars vegna þessa ágreinings um framhaldsnámið, að fara að þessu sinni ekki lengra en að stofna aðeins þrjú prófessorsembætti við verkfræðideildina og láta það ráðast síðar, hvort menn verði sammála um framhaldsnám byggingarverkfræðinnar hér á landi. Viðvíkjandi nauðsyn þess að útskrifa byggingarverkfræðinga er óþarfi að fara mörgum orðum. Um það atriði hljóta allir að vera sammála, því að einmitt á þessu sviði vantar okkur menn. Það er sannað mál, að okkur vantar að minnsta kosti 20–30 byggingarverkfræðinga, nokkra í Reykjavík, og auk þess í hvern kaupstað úti um land, svo að það er einmitt þessi grein verkfræðinga, sem við verðum nú að leggja áherzlu á að fá útskrifaða.

Hv. þm. S.-Þ. vék að því, að einn af þeim mönnum, sem ætlað væri prófessorsembætti í verkfræðideild, vildi alls ekki taka það starf að sér, og hefði hann ekki vitað um, að það væri honum ætlað. Mun hv. þm. hér eiga við Trausta Ólafsson efnafræðing, en annars er hér um misskilning að ræða. Að vísu hefur Trausta ekki verið ljóst, að hans yrði sérstaklega getið í sambandi við þetta frv., en hann vissi að öðru leyti um allan undirbúning og fyrirætlanir, sem voru í sambandi við þessi mál. Háskólaráð taldi ekki rétt, að verkfræðideild yrði stofnuð með færri en þrem prófessorum við hana, enda held ég, að reglan sé sú, að ekki sé stofnuð deild með færri en þrem prófessorum. Nú er Trausti Ólafsson kennari í efnafræði við læknadeild, jafnframt því sem hann stundar störf við atvinnudeildina, og þótti ýmsum eðlilegra, að hann yrði prófessor við læknadeild en einn af þrem prófessorum við verkfræðideild. Háskólaráði hefur hins vegar fundizt réttara, að Trausti Ólafsson yrði einmitt einn af þrem prófessorum við verkfræðideild, að minnsta kosti fyrst um sinn, þangað til komizt yrði að niðurstöðu um annan kennara við þessi störf. Auk þess er af þessu sparnaður, sem sést af því, að ef Trausti yrði einn af þrem prófessorum við verkfræðideild, þá er ekki um nýtt starf að ræða, þar sem hann hefur nú þegar svipuð laun við atvinnudeildina og hann mundi hafa, ef hann yrði skipaður prófessor við verkfræðideildina. Kostnaðarauki við að hafa stundakennara eins og nú er, er mjög lítill, og er reiknað út í frv., að hann sé aðeins 3000 krónur.

Ég held því, að öllu athuguðu, að rétt sé að fara að till. háskólaráðs og stofna að þessu sinni verkfræðideild með þeim þrem prófessorum, sem hér er gert ráð fyrir, en bíða eftir því, hvort samkomulag næst um framhaldsdeild í byggingarverkfræði eða ekki.