12.12.1944
Efri deild: 86. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í B-deild Alþingistíðinda. (1888)

115. mál, laun háskólakennara Háskóla Íslands

Jónas Jónsson:

Ég flutti smávægilega brtt. við 2. umr., en tók hana aftur til 3. umr., til þess að málið fengi betri athugun.

Það er nú ekki hægt að neita því, að það er nokkuð mikill stórhugur viðvíkjandi háskólanum, því að það rignir niður daglega nýjum frv. um aukna kennslukrafta eða þá réttindum fyrir kennara að fara burt, en halda þó réttindum sínum.

Ég vil þó aðeins benda á það, sem ég hef lauslega bent á áður, að það er í raun og veru í l. frá 1936, þar sem atvinnudeildin er talin sérstök deild, þó að þar sé engin kennsla, og er réttast að fella þetta niður, með því að ekki er nein náttúrufræðikennsla þar, heldur vinnustofur og rannsóknarstofa. Og þessi hv. d. samþ. fyrir sitt leyti að gera fullkomna verkfræðideild við háskólann, ekki aðeins fyrri hluta námsins, eins og fyrst var ætlazt til, heldur líka síðari hlutann. En þá finnst mér ekki til neins annað en að ganga hreinlega frá því, að það verði athugað, að þessir verkfræðinemar fái þar fullkomna kennslu og þeir verði síðar færir til síns starfs. Ég álít, að það hefði verið miklu réttara að gera aðeins ráðstafanir til þess að hafa fyrrihlutakennslu, en háskólinn sækir á um þetta, og menn vilja láta það eftir honum, og hæstv. ríkisstj. virðist því fylgjandi. En það er spursmál, að búið sé svo vel um, að nokkrar líkur séu til, að af því verði sæmilegt gagn. Mér er kunnugt um, að áhrifamenn við háskólann vilja fá 3 fasta menn þar í viðbót, en hafa trú á því, að það gangi betur að fá þingið til þess að samþ., með því að óskir þeirra komi í smáskömmtum. En mér þykir rétt, að hæstv. Alþ. láti ekki leika með sig, en gangi að því að stofna þetta, ef það á annað borð vill gera það.

Nú er þannig ástatt, að við framhaldsnám er ekki nema um einn æfðan verkfræðing að ræða sem stendur, hvað hafnargerð viðvíkur. En þessi þýðingarmikla kennsla er unnin í hjáverkum. Nýlega hefur þessi verkfræðingur verið ráðinn hjá bænum. Og þó að hann annist kennsluna í vetur, er talið, að það verði ekki lengur. Þannig vantar nú æfðan verkfræðing í vegamálum, brúamálum og jafnvel til fleiri hluta. Það er engin vafi, að ef við samþ. frv., eins og það er nú, kemur innan skamms að því, að fjölga verður upp í fimm. Er þá spursmál, hvort menn vilja taka fjóra strax, þannig að það sé sæmilegur aðbúnaður í bili, eða hvort menn vilja bíða eitt ár, þangað til við fáum yfir okkur allar kröfurnar.