12.12.1944
Efri deild: 86. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í B-deild Alþingistíðinda. (1889)

115. mál, laun háskólakennara Háskóla Íslands

Bjarni Benediktsson:

Ég veit ekki, hvort það hefur mikla þýðingu að ræða málið mjög í þessari d., vegna þess að með úrslitum, sem mál varðandi háskólann fékk um daginn, er sýnt, að örlög þessa máls verða ráðin með áróðri bak við tjöldin, enda gengið svo hart að, að mönnum var meinað að flytja brtt. Meiri hl. knýr málið fram, hvað sem öllum röksemdum og skynsemi líður. En ég vil samt fyrir mitt leyti ekki láta þetta mál fara svo út úr d., að ekki sé til alvarlegrar umræðu tekið, hverjar leiðir menn hugsa sér í þessum efnum og hvort menn telji það fært að láta háskólann stækka svo gífurlega sem ráð er fyrir gert á örfáum árum, bæði hvort menn telji, að ríkissjóður hafi efni á því að halda uppi þeim mikla kostnaði, sem af því leiðir, og eins hvort stofnuninni sjálfri verður slíkt ekki hefndargjöf. Ég hef bent á það hér í umræðunum um stofnun embættis við læknadeild, embættis, sem ég annars var fylgjandi, að reynslan varð sú frá fyrra stríði, þegar menn töldu sig hafa ærna fjármuni með höndum og stofnuðu — eftir því sem þá gerðist — í óðaönn embætti við háskólann, að þessi embættafjölgun varð háskólanum til hinnar mestu bölvunar, vegna þess að sí og æ var hann hafður milli tanna sem óþörf útþenslustofnun. Og ætíð þegar þurfti að spara fé ríkissjóðs, sem stundum var á þeim árum, varð háskólinn einna helzt fyrir, vegna þeirrar útþenslu, sem hann varð fyrir í síðasta stríði, en var þó lítilvæg í samanburði við það, sem nú á að gerast. Það má að vísu segja varðandi það frv., sem hér liggur fyrir, að ekki sé ráðgert í raun og veru, að háskólinn verði fyrir kostnaði nema af tveimur nýjum embættum. Hitt séu allt embætti, sem þegar sé búið að stofna. Þetta má nú til sanns vegar færa. En ég vil fara nokkrum orðum um þetta frv. í heild. Hér á að lögfesta tvö dósentsembætti í viðskiptafræði við lagadeildina. Að mínu áliti var í upphafi rangt farið að og háskólanum lítill greiði gerður, þegar þessi svokallaða viðskiptadeild var sett í háskólann. Ég fyrir mitt leyti hafði þá eindregna sannfæringu fyrir því — og fjallaði um það mál í háskólanum á sínum tíma — og sú sannfæring hefur styrkzt af því, sem síðar hefur skeð, að þessari kennslu sé ákaflega óhagkvæmlega fyrir komið í háskólanum. Ég er sannfærður um, að það hefði verið miklu skynsamlegra að koma upp til viðbótar aukinni kennslu í verzlunarskólanum, kennslu, sem þeir menn úr verzlunarskólanum, samvinnuskólanum og menntaskólanum, sem ætluðu að leggja fyrir sig þessi fræði, hefðu getað tileinkað sér. Með þessu móti hefðu starfskraftarnir bezt orðið nýttir og helzt verið farið að í samræmi við það, sem reynsla annars staðar hefur sýnt, að hagkvæmt væri. Í stað þess var af miklu ofurkappi og sannast að segja, að því er mér skilst, óskiljanlegu ofurkappi, lögð áherzla á að koma þessari viðskiptadeild inn í háskólann, og naut það mikillar hylli, bæði hjá meiri hl. Alþ. og miklum meiri hl. háskólakennara og stúdenta. En menn urðu ekki jafnhrifnir af því, sem var svo sjálfsögð afleiðing af þessari ráðstöfun, þegar þáverandi kennslumálaráðh., hv. 1. þm. Reykv. (MJ), veitti verzlunarskólanum stúdentsprófsréttindi. Þá ætluðu stúdentar alveg að ærast. Og ég held, að háskólaráðið hafi sent þáverandi kennslumálaráðh. illmæli og skæting fyrir þessa ráðstöfun hans, sem var þó auðvitað sjálfsögð. Því að hvernig geta menn hugsað sér, ef hér á að halda uppi einhvers konar æðstu menntastofnun í verzlunarfræðum, að útiloka þá menn, sem sérstaklega hafa frá upphafi hugsað sér að gera verzlun að sínu lífsstarfi og miða sinn undirbúning frá barnaskólaaldri við það starf, — útiloka þá frá þeirri æðstu menntastofnun? Það er slíkt ranglæti og fásinna, að engu tali tekur. Stúdentar virtust ímynda sér, að þeir gætu fengið viðskiptadeildina sem atvinnustofnun handa sér, sem gerði þá rétthærri öðrum verzlunarmönnum í landinu. Reynslan á vist eftir að staðfesta það hér, að hægara er að koma vitleysunni á en að afnema hana aftur. Og sjálfsagt verður hvorki af því, að viðskiptadeildin verði færð úr háskólanum né heldur að stúdentsprófsréttindi verði tekin af verzlunarskólanum. En mér sýnist samt rétt að bíða með fullnaðarákvörðun um það, hver háttur á þessu verði hafður, þangað til menn hafa tekið ákvörðun um, hvernig framtíðarskólakerfi landsins skuli ski~að og þar með verzlunar- og viðskiptakennslu. Ég fyrir mitt leyti er sannfærður um, að það er háskólanum til bölvunar og verzlunarstéttinni enginn greiði með því gerður að vera að blanda þessu saman við háskólann. Og þó að ég vilji nú ekki á þessu stigi málsins koma með till. um það að fella viðskiptadeildina niður, þá sé ég ekki ástæðu til þess að vera að samþykkja þessi tvö embætti eins og sakir standa, heldur finnst mér megi bíða með að lögfesta þau, þangað til búið er, eins og ég sagði, a.m.k. að athuga þær till. um framtíðarskipulag skólamálanna, sem í undirbúningi hafa verið.

Ég mun þess vegna bera fram skrifl. brtt. um að fella 2. gr. frv. niður og að þessir tveir dósentar verði þá með sama hætti og verið hefur lausráðnir, þangað til endanleg skipun er á þetta komin.

Varðandi aftur á móti 3. gr., þá er þar ætlunin að stofna tvö dósentsembætti við heimspekideild háskólans, í bókmenntum og sögu. Það segir ekki — og sýnir sannast að segja flausturslegan undirbúning málsins — í hverrar þjóðar bókmenntum og sögu þessi embætti eiga að vera. Hér er til bókmenntafræðingur í spönsku, og hann ágætur, og menn, sem hafa lagt stund á sögu rússneska kommúnistaflokksins. Skilst mér, að ráðh. gæti valið þessa menn og gert að embættismönnum við háskólann alveg eins og norrænufræðingana, eftir frv., sem fyrir liggur. En það mun nú ekki vera tilgangurinn að stofna embætti óákveðið, heldur er ætlunin að auka þarna kennslu í íslenzkum fræðum. Og í sjálfu sér er ekkí nema gott um það að segja, ef menn álíta, að íslenzka ríkið hafi efni á því að standa undir þvílíkri útþenslu í embættakerfinu, og ef menn telja, að háskólinn hafi sjálfur ekki efni á því af því fé, sem hann hefur til umráða, að standast þessi útgjöld.

Nú er það svo, að við háskólann hafa í raun og veru alveg nýlega verið stofnuð tvö fræðistörf í norrænudeild. Annað er háskólabókavarðarstarfið, sem mjög lærður og gagnmerkur maður gegnir, dr. Einar Ólafur Sveinsson, sem er ötull maður við vísindastörf, og vitað er, að hann hefur sömu laun og prófessor. Hann lítur á sitt embætti fyrst og fremst sem fræðistarf. Enn fremur er lektorsembættið í málfræði, sem annar ágætismaður, dr. Björn Guðfinnsson, gegnir. Svo sjáum við, að komið er fram frv. í Nd. um það, að prófessor Sigurður Nordal verði leystur undan kennslustarfi og verði þarna sem eins konar heiðursprófessor áfram. Og þá losnar hans embætti. Ef við því tökum tillit til þessara tveggja nýju starfa við háskólann og frv. um embætti próf. Sigurðar Nordals, sem sjálfsagt er flutt með svipuðu ofurkappi og önnur mál varðandi háskólann á síðustu tímum, þannig að þar tjáir lítt að hreyfa mótmælum, hvorki innan háskólans né utan, gegn því, sem vissum mönnum þar sýnist, — þá er á fáum árum ætlazt til að stofna fimm ný embætti við norrænudeildina. Það er í sjálfu sér ekki nema gott um þetta að segja, ef menn bara telja, að ríkissjóður hafi efni á því. En ég fyrir mitt leyti álít varðandi aðrar deildir háskólans, að þörf sé á að taka til athugunar, hvort ekki þurfi að auka kennslukrafta við þær, ef á að auka þá svo stórkostlega við þessa einu deild, sem þó mun, næst guðfræðideild, vera mannfæst, að ég hygg. Einnig eru ýmsar aðrar stofnanir hér, sem ég álít mikilsvert fyrir að fá aukna starfskrafta, en hafa ekki fengið þá, vegna þess að menn hafa séð í það fé, sem til þess hefði farið. Hvað eftir annað hefur staðið í fjárlögum heimild til stjórnarinnar að skipa tvo nýja menn í hæstarétt, og styðst sú heimild við núverandi ákvæði hæstaréttarlaganna. Ég hef fært rök að því í sambandi við frv., sem hv. þm. Seyðf. flutti, að íslenzku réttarfari — og það má bæta við íslenzkum lögvísindum — ríður ekki á neinu meir en að fá þessa tvo menn inn í hæstarétt til viðbótar og að réttarfarinu og hæstarétti sjálfum sé beinn voði búinn, ef þar verður ekki fjölgað áður en langt líður. Ég hef samt sem áður skirrzt við að fylgja því máli eftir gagnvart ríkisstj. eða á þingi, vegna þess að mér sem fleirum hefur ofboðið sú útþensla, sem hefur átt sér stað.

Ég skal ekki hafa á móti því, að þetta mál sé gott, bara ef við getum staðið okkur við það í hlutfalli við annað. En það eru hvorki fleiri né færri en fimm ný embætti við sömu háskóladeild, sem á að stofna á örfáum árum. Mér hefur skilizt, að þessi áhugi fyrir að stofna þessi tvö dósentsembætti standi í sambandi við það, að tveir ágætir menn eiga hlut að máli. Það má nú benda á það, að nýbúið er að veita embætti í sögu, og fékk það prýðilegur maður, dr. Þorkell Jóhannesson, maður, sem ég álít, að fyrir löngu hefði átt að vera kominn að háskólanum og sé þar til mikillar prýði og gagns. En ef það embætti er rétt skipað, þá tjáir ekki að segja: Vegna þess að annar umsækjandi var um embættið, þá verðum við að stofna stöðu handa honum. En það sama er að ske í guðfræðideild. Tveir voru umsækjendur, og nú á að stofna embætti til þess að geta komið báðum að. Ef háskólinn ætlar þannig að koma sér úr vanda, verða embættin ákaflega ótrygg til lengdar, og er engri stofnun gerður meiri grikkur en ef slíkur háttur á að takast upp.

Varðandi hinn manninn, sem á að stofna dósentsembætti fyrir, sem mér er sagt, að sé prýðilegur maður, er það að segja, að ef ætlunin er að láta próf. Sigurð Nordal fá lausn, því í ósköpunum ekki að gera þennan prýðismann að prófessor í staðinn fyrir Sigurð Nordal eða að gera hann að háskólabókaverði, ef dr. Einar Ólafur Sveinsson á að verða eftirmaður Nordals? Mér sýnist vera hægt að bjarga þeim mönnum, sem hér er um að ræða, með öllum þeim embættafjölda, sem þegar er til, ef menn hafa hug á því, án þess að fara út í þá stórkostlegu útþenslu, sem hér er ráðgerð.

Til viðbótar þessu vil ég svo benda á það, að ég ásamt öðrum mönnum átti hlut að því — og hef ekki hlotið einróma þakkir fyrir — að sjá háskólanum fyrir töluvert auknum tekjum, og á ég við Tjarnarbíó. Samkv. skýrslum, sem fyrir liggja, hefur árlegur hagnaður undanfarið numið hvorki meira né minna en 3–400 þús. kr. Nú mun vera búið að greiða áfallinn kostnað við að koma þessari stofnun upp. Það má að vísu gera ráð fyrir, að tekjur lækki, þegar setuliðið hverfur, en góð ágóðastofnun verður þetta væntanlega ætíð. Og hvað er sanngjarnara en að þessum tekjum verði varið til þess á hverjum tíma að launa þeim mönnum, sem afbragð þykja annarra manna, eins og mér er sagt um sagnfræðing þann, sem nú á að setja í dósentsembættið, að launa honum þannig, þangað til hann getur fengið fast embætti við sitt hæfi. Til hvers annars á að nota þessa peninga? Mér sýnist háskólinn verða að gera sér grein fyrir, að hann getur ekki haft það tvennt uppi, annars vegar forréttindi varðandi gróðafyrirtæki til þess að fá mikið fé að moða með og hins vegar að ætla að skjóta sér undan því að styrkja þá vísindamenn, sem á hverjum tíma bera af öðrum mönnum, en geta ekki komizt í embætti í bili. Tilgangurinn með því að láta háskólann fá þetta lausafé var einmitt sá, að við hér á Alþ. þyrftum ekki að vera að rífast um eða ráðstafa þessum lausu fræðimönnum, heldur gæti háskólinn sjálfur valið úr og ákveðið, hverja ætti að styrkja í bili. Að minnsta kosti hefur slíkt vakað fyrir mér. Og ég sé satt að segja ekki, hvaða ástæða er til að gera þarna frekar upp á milli. Mér er sagt, að háskólinn hafi ráðgert að ráða einn mann, sem er starfsmaður við þingið, til þess að starfa við orðabók, og taka af bíópeningunum til þess. Því er ekki hægt að fara með hina mennina á sama hátt? Ekki mundi fara í það nema örlítið brot af bíópeningunum. Og norrænudeildin hefur ekki fengið meira en sinn hluta af þessu fé til ráðstöfunar, þó að þessi háttur væri upp tekinn. En deildin hefur fram að þessu fengið bróðurpartinn af því, sem hefur verið veitt til slíkra fræða úr Sáttmálasjóði.

Sannast að segja virðist mér, að til hafi verið margar aðrar leiðir til þess að sjá háskólanum sæmilega borgið og gera hlut þeirra manna, sem hér um ræðir, ærið veglegan, þó að ekki væri til þess ætlazt að stofna nú embætti á ríkisins kostnað. En það er í sjálfu sér leitt að þurfa að beita sér á móti þessu máli, af því að það er tekið persónulega af þeim mönnum, sem eiga að fá embættin. Og svo er líka sagt, að maður snúist á móti háskólanum. En vegna þess að ég þykist vera nokkuð kunnugur, þá tel ég skyldu mína að benda á, í hvílíkar öfgar þessi efni eru komin. Ég geri það ekki sízt vegna þess, að ég er sannfærður um, að það kemur þeim mun harðar niður á háskólanum áður en lýkur, ef svo verður fram haldið, sem upp er tekið. Ég hef hugsað mér að vera ef til vill með því að stofna dósentsembætti handa þessum sagnfræðingi, vegna þess að nýbúið er að veita prófessorsembætti í þeirri grein og vonandi, að þeir starfskraftar endist lengi. En varðandi bókmenntafræðina sé ég ekki ástæðu til að greiða atkv. með honum, vegna þess að líkindi eru til, að embætti fyrir hann losni bráðlega, og háskólinn getur á meðan launað honum af sínum miklu tekjum, ef ekki er hægt að finna þessum manni hæfilegt starf annars staðar.

Það væri gaman að vita, á hverju menn eiga von, og vil ég því spyrja: Er ætlazt til þess, að hvaða svokallaður fræðimaður, sem er á lausum kili og eitthvað er tengdur háskólanum, þurfi ekki annað en að koma og segja: Hér er ég, nú þarf ég að fá embætti; — og þá ætli Alþ. að stofna það handa honum? Ég hef starfað í átta ár við háskólann og geri ráð fyrir, áður langir tímar líða, að losna úr því starfi, sem ég nú gegni. Má ég þá eiga von á því persónulega og allir, sem svipað stendur á fyrir, að þurfa ekki annað en að koma hingað og verði þá ný embætti stofnuð handa okkur? Þessu væri fróðlegt að fá svar við.

Engin deild háskólans hefur verið kröfuminni en lagadeild. Þar hafa kennarar tekið á sig stórkostleg aukastörf, án þess að detta í hug að biðja um aukna starfskrafta. Hafa þó í raun og veru kannske engir starfsmenn við háskólann meira starf en þessir menn, sem þurfa árlega að brjótast í gegnum öll þau kynstur af lögum, sem koma frá Alþ., og reyna að fella þau á fræðilegan hátt inn í þær kennslubækur í lögfræði, sem fyrir eru.

Varðandi verkfræðideild, þá sýnist mér alveg sjálfsagt að halda uppi verkfræðikennslu. Það má að vísu nokkuð deila um það, hvort ekki sé nokkuð fljótt að fara að lögfesta þetta, meðan ekki er komin á það frekari reynsla, en við verðum að vona, að geta okkar verði slík, að við getum haldið þessu uppi. Þetta er nauðsynleg kennsla, og það er mikil þörf á fleiri verkfræðingum, og mun ég þess vegna greiða atkv. með þeim lið frv., þó að mér sýnist, að þetta hefði mátt bíða og meltast nokkuð betur með hv. þm. En vegna þess að við höfum lesið ræðu hæstv. kennslumálarh., þá er hann flutti 1. des. s.l., þar sem hann talar um þá miklu þörf, sem væri á mönnum til þessa starfa, þá vil ég spyrja hann, hvort hann hafi veitt því athygli, að það mun vera miklum takmörkunum háð, hversu margir nemendur hverju sinni fá inngöngu í verkfræðideild. Ég veit ekki, hvort það er bundið við fjóra eða eitthvað slíkt, en það er farið stranglega eftir einkunnum, án þess að til nokkurs annars sé tekið tillit. Við því, að eftir einkunnum sé farið, er ekkert að segja, úr því að takmarkað er á annað borð, því að það er ekki svo gott að finna neitt annað út en að fara eftir einkunnum. En ég er sannfærður um, að það er mjög hættulegt að setja á slíkar takmarkanir um fjölda námsmanna. Menn setja þær venjulega svo þröngar og með þeim hætti, að reynslan sýnir, að ef eftir þeim hefði verið farið, mundi mannaskortur hafa orðið. Ég held það sé ekki hægt hjá því að komast, að það sé hættulegt bæði fyrir þjóðfélagið í heild og fyrir einstaklingana, ef á að meina unglingum að halda áfram á námsbrautinni, vegna þess að þeir við eitthvert eitt próf, sem þeir hafa staðizt, hafa ekki fengið jafnháa einkunn og einhver annar, þó að þeir hins vegar standist sjálft prófið. Það verður að krefjast einhverrar lágmarksþekkingar, en það, hvort einhver fær kannske broti úr stigi hærri eða lægri einkunn á einhverju prófi, er svo valtur mælikvarði, að ég tel það mikinn ábyrgðarhluta að láta framtíð unglingsins falla og standa með því, og eins er hættulegt fyrir þjóðfélagið í heild að fara eftir slíkum mælikvarða. Ég hef alltaf verið andvígur þessum takmörkunum á nemendafjölda í háskóladeildunum. En mér skilst, að slíkar takmarkanir eigi sér stað í verkfræðingadeildinni. En mér finnst ekki falla saman, annars vegar þetta tal um mikinn skort á verkfræðingum og hins vegar að hafa jafnstrangar takmarkanir á þessu og verið hefur. Ég vildi þess vegna beina því til hæstv. kennslumálarh. að taka þetta atriði nú til íhugunar. Ég hef kannske gerzt heldur fjölorður um þetta mál, en ég vil þó enn taka það fram, að það má ekki skoða ummæli mín svo, að ég vilji ekki veg háskólans sem mestan. En ég hef á því nokkuð aðra skoðun, hvernig háskólanum sé bezt þjónað, heldur en sýnist vera ráðandi hér á þingi og í háskólanum sjálfum, og hef ég því fremur viljað láta í ljós sannfæringu mína í þessum efnum.