12.12.1944
Efri deild: 86. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1027 í B-deild Alþingistíðinda. (1892)

115. mál, laun háskólakennara Háskóla Íslands

Þorsteinn Þorsteinsson:

Við 2. umr. þessa máls hafði ég minnzt örlítið á frv. og það atriði, sem mér þótti þar athyglisverðast. Ég verð að segja, að nú, eftir að hafa heyrt ræðu hv. 6. þm. Reykv., býst ég við, að afstaða mín gagnvart hagfræðideild verði nokkuð önnur. Ég verð að treysta því, að sá maður, sem hefur verið deildarforseti lagadeildar um skeið og verið þar prófessor nokkuð lengur, þekki þessar deildir. Ég hugði og gat um það við 2. umr., að það mundi vera þannig kennslufyrirkomulag, að það mundi ekki vera fært fyrir deildina að missa þessa tvo hagfræðinga, sem nú gegna kennslu við þá deild, en þar sem þetta horfir öðruvísi við að kunnugra manna dómi og þess manns, sem ég treysti, að hafi bæði dómgreind og þekkingu til að fara rétt með þau atriði, get ég fylgt honum þar að máli. Aftur á móti er það eins og ég tók fram áður, að ég sé ekki ástæðu til að fara að breyta um í frv. þeirri till., sem er um norrænudeildina, því að eins og áður hefur verið minnzt á, verður sú deild og á að vera sómi háskólans og á að bera hann uppi, ekki síður utanlands, einkum á Norðurlöndum. Þess vegna var það ætlunin þegar í stað, þegar skólinn var settur, að efla þá deild meira en aðrar deildir háskólans. En hitt gæti hugsazt, að setja mætti ákvæði í þetta frv. um það, að þessi dósent, sem nú þegar er skipaður, gæti tekið að sér að kenna í forföllum hinna reglulegu prófessora, og þyrfti þá ekki strax að skipa annan mann í staðinn, þó að prófessor félli frá eða fengi leyfi frá kennslu.

Um 3. atriðið, verkfræðideildina, vil ég segja það, að ég tel það mjög vanráðið að fara nú að lögfesta 3 prófessora í þeirri deild. Ég er ekki að halda því fram, að þessi deild sé óþörf, hún mun að mörgu leyti þörf, en ég hugði, að það hefði verið hægt að bíða fram yfir stríðslok með það að lögfesta þessi prófessorsembætti við þá deild. Við getum búizt við því, að í stríðslok komi hingað aftur heim ýmsir verkfræðinemar, sem búnir séu að taka próf í verkfræði, og þeir komi með ýmsar nýjungar, sem þeir hafi númið ytra, og miklu meiri þekkingu hingað inn í landið en þeir hafa, sem fyrir eru. En mundi þá ekki fara eins og í norrænudeildinni, mundi þá ekki verða að byrja einn áfangann enn, 2–4 verkfræðinga til viðbótar, af því, hvað ágætir menn þetta væru og þeir þyrftu að komast að þessari deild til þess að geta kennt þar verkfræðingaefnum? Ég segi fyrir mig, að ég held það sé vafasamt að fara að byrja nú á að lögfesta þessi embætti, því að það getur orðið til þess, að við seinna sjáum eftir því og þyki sem okkur vanti autt rúm fyrir ýmsa menn, sem við teldum, að ættu að eiga sæti þar sem prófessorar. Þess vegna finnst mér varasamt að fara mjög fljótt að með þessi mál, en stilla heldur í hóf. Hæstv. kennslumálaráðh. hvarf úr d., en mig sem fjvnm. hefði langað til að fá að vita hjá honum, hvaða liðir það væru, sem nú ætti að strika út af fjárl. Væri gott, að fjvn. fengi að vita það nú fyrir 3. umr. fjárl.