13.12.1944
Efri deild: 87. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1051 í B-deild Alþingistíðinda. (1903)

115. mál, laun háskólakennara Háskóla Íslands

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Þar sem þetta mál hefur nú verið rætt allmikið, þykir mér rétt að gera grein fyrir afstöðu minni, sérstaklega varðandi fjárhagshlið málsins. Ég ætla að fylgja þessu frv., og varðandi 4. gr. þá hef ég skipt um skoðun. Ég hef álitið, að ekki ætti að binda verkfræðideildina með lögum. Þetta hefur gengið allvel undanfarin ár, og ég ætlaði, að ekki þyrfti neina breytingu þar á. En mér er sagt, og ég hygg, að það sé rétt, að erfiðleikum sé bundið að halda uppi nauðsynlegum kennslukröftum, nema endanlega verði frá þessu gengið nú.

Segja má, að það sé ekki lítill útgjaldaauki við stofnun þriggja nýrra prófessorsembætta. En ef betur er að gáð, hygg ég, að það verði í raun og veru sparnaður fyrir þjóðfélagið í heild að koma þessu á laggirnar. Það er naumast vafaatriði, að meiri heildarágóði er að því að láta þá námsmenn, sem leggja stund á þessi fræði, ekki sækja menntun sína til annarra landa, þó að kostað sé upp á þrjú embætti í þessari fræðigrein, og þær athuganir hafa leitt til þess, að ég fylgi stofnun þessara embætta.

Um 3. gr. er aftur það að segja, að þar er gert ráð fyrir að stofna tvö ný embætti í heimspekideild. En nú liggur fyrir á þinginu frv. um að veita Sigurði Nordal lausn frá embætti með fullum launum, og að því er mér skilst, er til þess ætlazt, að við þeim störfum taki maður, sem nú er starfandi við háskólann, en við hans störfum taki aftur dósentar þeir tveir, sem ætlazt er til, að skipaðir verði. Hér verður því, ef frv. verður samþ. um að veita Sigurði Nordal lausn frá embætti, sem ég ætla mér ekki að standa á móti, aðeins um eitt nýtt embætti að ræða, sem stofnað yrði. Og ég er þakklátur þeim mönnum, sem hafa látið þann metnað í ljós fyrir háskóla okkar, að hann eigi að halda uppi þeirri fullkomnustu kennslu í íslenzkum fræðum, sem fáanleg er nokkurs staðar. Og þótt ekki verði komizt hjá einhverjum aukakostnaði við þetta, finnst mér fyrir mitt leyti, að ekki sé í það horfandi. Um aðra embættafjölgun er ekki að ræða eftir því frv., sem hér liggur fyrir.

Það er því álit mitt, að þrátt fyrir það að ég játa, að fyrir ríkissjóð verði nokkur útgjaldaíslenzk við samþykkt þessa frv., þá sé fyrir þjóðfélagið í heild ekki um veruleg útgjöld að ræða og ávinningurinn verði meiri en tilkostnaðurinn.