08.03.1944
Neðri deild: 28. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að vera margorður. Í þessu máli hefur verið leikið á svo fáa strengi í umr., og raunar er málið einfalt. — Ég get ekki fellt mig við skoðun hv. þm. A.-Húnv. (JPálm) eða skoðun hv. þm. G.-K. (ÓTh), en báðir slógu á þá strengi, að ekki ætti að samþ. stjskrfrv. eins og þessi þd. samþ. það á dögunum, heldur eins og það kemur nú frá Ed., því að ekki mætti hrekja málið milli deilda. En það er Ed., sem hefur tekið að sér að breyta frv., hennar er ábyrgðin, ef frv. hrekst. Ég er ekki farinn að sjá, að fram hafi komið í þessari d, nein rök, sem eigi voru fram komin í umr. um daginn. Hví á Nd. að gefast upp fyrir Ed., 19 þm. að gefast upp fyrir 9?

En það, sem hv. frsm., 2. þm. S.-M. (EystJ), hélt fastast fram, að með forseta fylgdi engin „tradition“, það er rétt. En þingræðið hér í landi og vald Alþ. er búið að fá sína „tradition“. Mér þætti gaman að sjá, — raunar væri það ekki gaman, — þannig forseta, sem ætlaði sér að ýta til hliðar þeirri „tradition“ valdi sínu til óeðlilegs framdráttar. Viðleitni til þess mundi skjótt falla máttvana niður. Þegar Alþ. er komið hér inn á þá hugsun að hafa ekki synjunarákvæðin óbreytt frá því, sem var um synjunarrétt konungs, heldur þrengri, hlýtur þess að verða minnzt um leið, að forseti fær að öðru leyti mjög afleiðingaríkt vald, eins og sumir hv. þm. hafa rætt um, sérstaklega þingrofsvaldið. Ég vil segja, ef stjskr. verður úr garði gerð eins og Ed. samþ. hana, að þá er forseta gefið heldur undir fótinn að gagnrýna fastlega þá lagasetning, sem kemur frá Alþ.

Ég fellst ekki á, að forseti muni nokkru sinni beita valdi sínu eftir persónulegum skoðunum né láta tilfinningar sínar ráða í málum. Ég get ekki ætlað, að hér verði nokkurn tíma forseti, sem það gerði, heldur mundi brátt skapast „tradition“ forsetavaldsins og sérhver forseti fara nokkuð eftir henni og að öðru leyti eftir meginreglum, sem eigin geðþótti yrði fortakslaust að lúta. Það gæti ögrað tilfinningum forsetans, þegar hann væri sannfærður um, að frá þingræðislegu sjónarmiði, frá sjónarmiði þjóðarinnar, þá ættu l. ekki að ná fram að ganga, fyrr en þjóðin samþ., — þá ögraði það honum að beita hinu valdinu, sem ég tel of mikið vald, að rjúfa þing að eigin vild. Það vald óskaði ég, að stjskrn. hefði takmarkað, því að í sambandi við þingrof er heimilaður ískyggilega langur frestur á því að Alþ. komi saman til fundar. Þetta er gamalt ákvæði frá þeim tíma, þegar illar samgöngur voru hér og ekki þótti hættandi á að fastbinda, að Alþ. skyldi koma saman með næsta litlum fyrirvara.

Hv. frsm. lét mikið yfir því, að forsetinn mundi eiga slæma ævi oft og tíðum af því, ef á bak við hann stæði kannske lítill þjóðarvilji, þ.e.a.s., hann hefði verið kosinn með litlu atkvæðamagni og að hann mundi þá verða pressaður til að gera þetta eða hitt. Það getur vel skeð, og ég efast ekki um, að einhvern tíma komi til þess, að þingið og forsetinn hafi mismunandi skoðanir á málum. En við verðum að reikna með því, að forsetinn verði alltaf meðal fremstu manna í þessu þjóðfélagi og að hann beiti valdi sínu í samræmi við þjóðarvilja, þannig, að hann fari rétt með umboð sitt. En ég teldi hins vegar, ef frv. verður samþ. eins og það er komið frá hv. Ed., að kastað væri fyrir fram dálítilli rýrð á forsetadæmið sjálft. En það vil ég ekki fyrir nokkurn mun, að geti átt sér stað. Og fyrir mér vakir ekki, að þetta hafi svo mikið að segja í framkvæmd í einstökum tilfellum. Ég sagði það einmitt í hv. Ed., að þetta væri fræðilega mikilvægt atriði, en í framkvæmd hefði það litla þýðingu. Ég lít svo á, að synjunarvald forseta eigi að vera alveg hliðstætt valdi til útgáfu brbl. Þegar þau eru út gefin, verður það að vera brýn nauðsyn, til þess að það komi til greina að gera það milli þinga. Eins álít ég, að það gæti ekki komið til mála, að forseti neitaði l. um staðfestingu, nema hann hefði einhvern hliðstæðan neyðarrétt eins og um útgáfu brbl.

En svo kemur annað, sem er smátt atriði. Það er óneitanlega dálítið skrýtið, þegar búið er að samþ. l. frá þinginu og ákveðið er í þeim, að þau öðlist gildi þegar í stað, að svo komi forsetinn og segi: Nei, þessi l. öðlast ekki gildi. — Hvenær eiga þau þá að öðlast gildi? Eftir því, sem frv. er nú, þá á það að vera, um leið og forsetinn segir nei við að staðfesta þau. Þetta tekur sig kynlega út, — í stað þess að láta l. öðlast gildi þann dag, sem þingið gengur frá þeim, eða í stað þess að miða gildistöku þeirra við útgáfudag Stjórnartíðinda um að láta þau öðlast gildi.

Ég býst ekki við, að það hafi mikil áhrif á hv. d., þótt ég tali hér lengur. En ég hef talað hér frá því sjónarmiði, að virðing þingræðisins sé haldin í heiðri, hugtakið ekki skekkt og vald forsetans verði ekki fyrir fram rýrt í augum þjóðarinnar og annarra.