29.11.1944
Efri deild: 79. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1060 í B-deild Alþingistíðinda. (1956)

190. mál, hafnarlög fyrir Ólafsfjörð

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Eins og fram er tekið í grg. fyrir þessu frv. og fram kemur í nál. sjútvn., þá eru breyt. þær, sem með þessu frv. eru ráðgerðar á hafnarl. Ólafsfjarðar, aðeins þær, sem leiðir af því, að frá næsta nýári verður Ólafsfjörður sérstakt lögsagnarumdæmi og fær bæjarréttindi. Aðalbreyt. er í 2. gr. frv. og er í því fólgin, að tekið er úr núgildandi l. skilyrði um það, að endurábyrgðar skuli krefjast frá Eyjarfjarðarsýslu fyrir láni, sem tekið er til hafnargerðarinnar. Með öðrum breyt. er aðeins fært til samræmis við þá ákvörðun, sem ég hef getið um, að Ólafsfjörður er gerður sérstakt lögsagnarumdæmi.

Sjútvn. hefur athugað frv. og borið saman við gildandi l. og ekki orðið vör við annað en breyt. séu í samræmi við það, sem til var ætlazt. Þó er rétt að geta þess, að í 5. gr. frv. kemur fram mismunur, sem mun vera prentvilla, í sektarákvæðunum. Þar stendur 500–2000 kr., en mun eiga að vera 500–20000 kr. Lítur n. svo á, að þetta sé prentvilla, og gerir um það aths. í nál. og ætlast til, að það sé leiðrétt í prentun.

Það kom fram í n., að ýmsir litu svo á, að þar sem l. eru tekin upp í heilu lagi og samþ. sem hafnarl. fyrir Ólafsfjörð, þá mætti líta svo á, að þar með væri slegið föstu, að þau hlutföll, sem nú eru á framlagi til hafnargerðarinnar frá bæjarsjóði og ríkissjóði, skyldu haldast. Einstakir nm. litu svo á, að með þessu væri engu slegið föstu, því að að sjálfsögðu væri ekki hægt að auka það fé, sem til hafnarinnar er lagt, nema með lagabreyt., og yrði þá á valdi þingsins í hvert skipti, hvort sömu hlutföll skuli haldast, en til þess að taka af allan vafa, gekk n. öll inn á að setja í nál., að þau ákvæði um upphæðir, sem eru í 1. og 2. gr., næðu aðeins til þeirra upphæða, sem þar eru tilgreindar nú í þessum l. Ég vil taka þetta fram vegna þess, að innan n. voru uppi raddir, sem lögðu allmikla áherzlu á, að þetta væri skýrt tekið fram, að þótt l. væru samþ. í heilu lagi sem hafnarl. fyrir Ólafsfjörð, þá væri þar með ekki gefið neitt loforð um það, hvernig hagað yrði fjárframlögum til hafnarinnar, ef meiri framlög þyrfti en nú eru í l. Til að fyrirbyggja allan misskilning, tel ég rétt að láta þetta koma fram.

Þá taldi n. allar líkur til, að þörf væri á að rýmka nokkuð fjáröflunarheimildina fyrir tilvonandi bæjarstjórn Ólafsfjarðar, til þess að hægt væri að afla nægilegs fjár til þess að standa straum af hafnargerðinni. Þetta er nokkuð dýrt mannvirki, en bæjarfélagið, sem að því stendur, tiltölulega lítið, og taldi n. því mjög eðlilegt að færa þetta í svipað horf og nú er um lendingarbætur og l. þar um. Þar er sem sé heimilt að taka

allt að 6% af afla, sem þar kemur á land. Þetta er réttlætanlegt á þessum stað, þar sem Ólafsfjörður er aðallega fiskihöfn. Það er vitað, að þetta mannvirki er það dýrt, að aldrei hefði verið ráðizt í það aðeins til að bæta uppskipunarmöguleika eins og á sér stað á nokkrum öðrum stöðum. Taldi n. því rétt, að þessi heimild væri hækkuð. Það er að sjálfsögðu á valdi bæjarstjórnar og hafnarnefndar, að hve miklu leyti þessi heimild er notuð. N. leggur til, að leggja megi allt að 6% á allan afla, sem á land er lagður. Við lítum svo á, að þessi breyt. sé nauðsynleg, því að tekjuöflunarleiðir fyrir hafnarnefnd verða varla aðrar en þessi.

Ég hef þá gert grein fyrir afstöðu n., sem leggur til, að frv. verði samþ. með þessari einu breyt. á 10. gr. 2. f.