18.10.1944
Neðri deild: 67. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1065 í B-deild Alþingistíðinda. (1997)

161. mál, hafnarlög fyrir Neskaupstað

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. — Breyt. þær á hafnarl. Neskaupstaðar, sem frv. þetta gerir ráð fyrir, eru aðallega þær, að fjárhæðir l. eru hækkaðar nokkuð, bæði framlag ríkissjóðs og eins ábyrgðarheimild ríkissjóðs fyrir framlagi kaupstaðarins.

Reynslan hefur sýnt það nú þegar, að þær fjárhæðir, sem núgildandi hafnarl. Neskaupstaðar tilgreina, eru orðnar of lágar miðað við þær framkvæmdir, sem lagt hefur verið í nú þar í sumar, því að staðið hefur yfir bygging hafskipabryggju, sem hefur reynzt allmiklu dýrari heldur en ráð hafði verið fyrir gert. Er af þeim ástæðum og jákvæmilegt að hækka nokkuð þær fjárhæðir, sem í l. hafa verið tilgreindar. Auk þess hefur svo bæjarstjórnin í Neskaupstað ákveðið að efna til nokkurra frekari hafnarbóta, eins og með því að gera hafnargarð á Neseyraroddanum til aukins skjóls á höfninni. Og þó að ekki liggi fyrir nú nákvæmar áætlanir um það, hvað slíkt mannvirki muni kosta, þá leiðir af því, að fjárupphæðir l. verða að hækka talsvert þess vegna.

En það, sem sérstaklega hefur rekið á eftir með þessa breyt. á hafnarl. fyrir Neskaupstað, er það, að hafnarn. kaupstaðarins hefur ákveðið að byggja á vegum hafnarsjóðs dráttarbraut þar í bænum. Til þess líka að gera það leyfilegt, að hafnarsjóður annist byggingu dráttarbrautarinnar, þá er það gert ótvírætt í l. með þessu frv., ef samþ. verður, að fé til dráttarbrautarinnar megi taka af því fé, sem á að verja til hafnarframkvæmdanna. En allir hafa ekki verið sammála um, hvort bygging dráttarbrautar þarna eigi að heyra undir hafnarbætur samkvæmt hafnarl. Vitamálastjóri hefur talið, að eftir hafnarl. geti bygging dráttarbrautarinnar talizt hafnarmannvirki. Og vegna þessarar samþykktar bæjarstjórnar Neskaupstaðar um að byggja dráttarbraut er óhjákvæmilegt að hækka framlag ríkisins og ábyrgðarheimild ríkissjóðs fyrir framlagi kaupstaðarins, ef það fyrirtæki á að komast í framkvæmd. — Þetta eru sem sagt einu breyt., sem farið er fram á í þessu frv., að gerðar verði á hafnarl. fyrir Neskaupstað. Og ég sé ekki, að á þessu stigi málsins sé þörf á að gera fyrir þessu frekari grein. Óska ég, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.