21.11.1944
Efri deild: 71. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1068 í B-deild Alþingistíðinda. (2019)

134. mál, bændaskóli

Frsm. meiri hl. (Eiríkur Einarsson):

Herra forseti. — Þegar Sunnlendingar seint og síðar meir fengu áhuga fyrir að reisa bændaskóla á Suðurlandssvæðinu, þá var áhugi fyrir því meðal héraðsbúa þar heima fyrir og fulltrúa þeirra á Alþ., að ef kæmi til þeirrar skólastofnunar, þá yrði hún gerð þannig úr garði, að hún fullnægði á sem ýtarlegastan og beztan hátt þörfum almennings til bændamenntunar, að hún veitti viðtæka og yfirgripsmikla menntun, þar sem aðallega yrði miðað við hina praktísku, verklegu þekkingu, til þess að bændaefnin, sem þar hefðu menntun hlotið, væru sem bezt þess umkomin, er heim kæmi, að taka við búrekstri af foreldrunum, hvert að sínu setri, og með þeirri fjölbreytni, sem á sér stað í búnaðarháttum þar í byggðum. Með hliðsjón til þessa var það engin tilviljun, að þegar frv. um þetta loksins náði samþykki á Alþ. 1942, sbr. l. frá þeim tíma nr. 39, þá var það lögfest í sérákvæði um bændaskóla Suðurlands, sem ég skal nú lesa hér upp, með leyfi ~hæstv. forseta:

„Þegar bændaskóli Suðurlands tekur til starfa, skal með reglugerð sett sérákvæði um starfsemi hans, og skal þá varðandi tilraunastarfsemi og önnur verkefni hans lögð megináherzla á það, er snertir sérstöðu Suðurlandsundirlendisins í búnaðarháttum.“

Með því að fá þetta inn í l. vakti það fyrir okkur, að skólanum skyldi valinn sá staður, þar sem fjölbreytni væri sem mest í öllum landsgæðum, svo að hægt væri að veita þar verklega kennslu í sem flestum greinum sunnlenzks búrekstrar. Þetta var margrætt og nauðsynlegt álitið, að jörðin, sem skólinn væri settur á, væri stór og fjölbreytileg, þar þyrfti að vera nóg efni til túnræktar og mýrlendi, sem hentugt væri til áveitugerða, nóg beitiland til þess að hægt væri að vetrinum að gera samanburð á innigjöf og útibeit. Og svona mætti lengi telja. Slíkri jörð þyrfti yfirleitt að vera vel í sveit komið og þyrfti hún að vera með sem flestum þeim kostum, sem nauðsynlegir eru til þess, að þar sé hægt að framkvæma sem víðtækasta og fjölbreyttasta kennslu í landbúnaði.

Hinn almenni vilji um þetta fékk staðfestingu í þeirri lagagr., sem ég las, og síðan áréttingu, mjög mikils verða, í þeim till., sem síðar komu fram frá lögmæltum tillögumönnum um bændaskólasetrið. Því að eins og kunnugt er og l., sem eru fyrir hendi, bera með sér, átti bændaskólasetrið sunnlenzka að ákveðast af landbúnaðarráðuneytinu, að fengnum till. Búnaðarfélags Íslands. Þetta fór að því leyti fram eins og l. gerðu ráð fyrir, að Búnaðarfélag Íslands sinnti þar sinni skyldu, þó með því, að stjórn Búnaðarfélagsins skipaði til þess sérstaklega 3 menn. — Það var til umr. jafnframt í öndverðu, hvort gerlegt væri að láta Sunnlendinga ráða sjálfa um staðinn. En það þótti ekki gerlegt, af ástæðum, sem mér virðast koma mjög réttilega í ljós í nál. hv. 1. þm. N.-M., sem liggur nú hér einnig fyrir til umr. sem minni hl. nál. Það skín í gegnum það, — ég man ekki, hvort það er beint orðað —, að það hefði með því móti verið of mjög hætt við hreppapólitík í sambandi við málið, ef þeim hefði sjálfum verið falið að ákveða staðinn fyrir skólann. Það skín í gegn, að það sé átt við þessa hreppapólitík milli héraða, því að þeim þykir það réttlát leið, sem varð niðurstaðan hjá okkur á Alþ., þ.e. að fara þannig að þeim málum, að Búnaðarfélagið geri till. og landbrn. setji fram sínar tillögur. Með þessari aðferð var talið, að séð væri við þessum leka. Þetta tókst líka svo vel til, að af hálfu Búnaðarfélagsins var til þess n. valin af meiri hl., sem var svo óháður öllu vinfengi héraðsbúa, að það gat ekki komið til greina af hálfu þeirra Steingríms Steinþórssonar og Jóns á Reynistað. Sem sagt, það voru valdir til þess 3 mætir menn, sá þriðji var Guðmundur Þorbjarnarson á Stóra-Hofi, af svæðinu sjálfu. Það er full skýring á þeim kafla, sem illu heilli komst inn hjá n. Þeir Steingrímur og Jón tilnefndu Skálholt, en svæðisbúinn, Guðmundur á Hofi, tilnefndi Kálfholt í Rangárvallasýslu. Þetta hlýt ég að geta um til skýringar, en það er ekki til að sveigja að neinum, þetta voru allir hver á sinn hátt merkir menn, en aðstaðan kemur líka heim við niðurstöðurnar. Samt var það svo, að þessir 3 menn áttu að mestu leyti samleið, og þeir samþ. ágreiningslaust sameiginlegt nál. Þar sem hér er um að ræða sameiginlegt og ágreiningslaust nál. þessara 3 manna, þykir mér hlýða að kynna hér örfá atriði úr þessu sameiginlega nál. þeirra þriggja, áður en þeir klofnuðu um staðinn. Eitt af því, sem þeim ber öllum saman um, lýtur að stærð jarðarinnar, og ætla ég, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp smákafla úr nál., en skal stilla því í hóf. Hann hljóðar svo:

„Nefndin lítur svo á, að velja beri landsmikla jörð, þar sem verkefni sé nægilegt um langt skeið við áframhaldandi ræktunarframkvæmdir. Fjölbreyttari búskaparhættir verða vafalaust teknir upp af bændum eftirleiðis en verið hafa. Lítur nefndin svo á, að sem fjölbreyttastan búskap eigi að reka á væntanlegu bændaskólasetri, sumpart varðandi jarðrækt (túnrækt með sáðskipti, kornrækt, garðrækt o.fl.) og sumpart varðandi búpeningsrækt (auk venjulegra búpeningstegunda, alifugla, svínarækt o.fl.). Þá telur og nefndin mjög vel til fallið, að stofnað yrði til smábýlis eða smábýla á landi bændaskólasetursins, þar sem eingöngu væri stuðzt við ræktað land og sem fjölbreyttasta framleiðslu. Yrði slíkt býli eða slík býli, ef fleiri væru, nokkurs konar sýnishorn þess, hvernig smábýli á ræktuðu landi einvörðungu ættu að vera skipulögð og hvernig búrekstri skuli þar háttað. Nefndin álítur því, að ekki komi til greina að velja aðra jörð en þá, sem hefur víðáttumikið ræktunarland.“

Þetta er sameiginlegt álit þeirra þriggja, að það komi ekki til mála annað en víðáttumikið ræktunarland, að nokkru leyti tilgreind ástæða og að nokkru leyti utan við ástæðuna. Ég lít svo á, að svo langt sem nál. þeirra nær óklofið, þá sé það bindandi álitsgerð fyrir landbrn. Eitt undirstöðuatriði, sem þarna kemur fram, er það, að þeir leggja áherzlu á, að jörðin verði stór og fjölbreytileg og að þar verði hægt að stofna til smábýlastarfsemi og til nýbýla, eftir því sem til greina kemur fyrir framtíðina. Þessu slæ ég föstu sem undirstöðuatriði af þeirra hálfu. Þegar þeir tala um ræktunarskilyrði í Rangárvallasýslu og Skaftafellssýslu, þá segja þeir, að þar sé að vísu víðáttumikill sandjarðvegur, en þar séu skilyrði einnig einhæf. Þeir segja enn fremur: „Eðlilegt og sjálfsagt virðist, að Gunnarsholt og Sámsstaðir geri nauðsynlegar tilraunir með ræktun og nytjun sandjarðvegs. Nefndin hefur því orðið ásátt um það, að bændaskóli Suðurlands skuli hvorki reistur á aðaláveitusvæðum né aðalsandgræðslusvæðum Suðurlandsundirlendisins. Enda er það svo, þrátt fyrir hin víðáttumiklu áveitusvæði og sandsvæði, að þá eru þó aðrar jarðvegstegundir enn meira útbreiddar. En það eru venjulegir mýraflóar, sem svo ganga yfir í hálfdeigjur og loks í harðvelli.“

Þetta bendir á það sama, þeir vilja hafa jarðveginn sem fjölbreytilegastan, eins og áður segir, „að nefndin telur, að jarðvegsskilyrði þurfi að vera sem fjölbreytilegust. Þá telur og nefndin mikilsvert að hægt sé að koma við áveitum að einhverju leyti, svo að nemendur fái einnig að kynnast þeirri ræktunaraðferð.“ Nefndin leggur einnig áherzlu á mjög hagkvæm áveituskilyrði til fræðslu í þessum efnum, samanber Flóaáveitu og Skeiðaáveitu, og er ekki óeðlilegt, þó að n. kæmi óskipt auga á þetta.

Þá segir n. enn fremur: „Mjög er æskilegt, að jarðhiti sé í landi jarðarinnar, sem nota megi sumpart til þess að hita híbýli staðarins og sumpart til gróðurhúsaræktunar, sundlaugar og ýmiss konar annarra nota.“

Það er merkilegt, að öll þessi atriði, sem eru undirstöðuatriði, telur öll nefndin ágreiningslaust bindandi fyrir landbrn. Um rafvirkjunarskilyrði segja þeir: „að háspennulínan frá Sogsvirkjuninni hljóti að verða lögð til hvers þess staðar, þar sem bændaskóli verður reistur, enda sé staðurinn innan Árnessýslu eða í vesturhluta Rangárvallasýslu.“ Þeim finnst aðalatriðið, að Sogsvirkjunin nái til þessa staðar.

Um samgöngur og legu segir nefndin: „Þá er og æskilegt, að skólastaðurinn liggi vel í héraði. Þó getur það ekki talizt neitt aðalatriði, eins greiðar og samgöngur eru nú orðnar milli héraða og sveita.“ Vegna þess, í hve þolanlegt horf samgöngur eru komnar, telur n. þetta ekki neitt aðalatriði, og eins og við vitum, þá er nú orðið ekki nema 1–2 tíma ferð það, sem áður var 1–2 dagleiðir, og er þetta því vel skiljanlegt. Þá talar n. um veðráttu og segir: „Enda orkar mjög tvímælis, að rétt sé að velja bændaskóla stað í veðursælustu sveitum, heldur þar, sem veðurfar er svipað og almennt gerist.“ Þeir vilja ekki, að skólastaðurinn verði af náttúrunnar hendi neinn dekursstaður, heldur sýni fjölbreytni og sé um veðurfar líkur því, sem gerist víðast hvar annars staðar á svæðinu.

Þá tala þeir um byggingarefni og vatnsból og tala um, að í sambandi við jörð þá, sem komi til greina, þá verði að vera sæmileg útkoma að þessu leyti.

Þá tala þeir um mannvirki og segja: „Telur n. jafnvel að ýmsu leyti ákjósanlegt, að sem minnst verðmæti standi í byggingum, svo að ekki þurfi að taka neitt tillit til þeirra, þegar skipulagsuppdráttur verður gerður af staðnum.“

Þá er næst talað um eignaryfirráð, og telur n. eðlilegt, að skólinn verði reistur á ríkisjörð, svo að ekki þurfi að kaupa jörð eða taka eignarnámi. Svo kemur að niðurstöðu nefndarinnar, eftir að hún er búin að gefa út sameiginlegt nál.

Að lokum klofnar svo n. hvað staðarákvörðun snertir. Tveir nm., þeir Jón Sigurðsson og Steingrímur Steinþórsson, vildu velja Skálholt í Biskupstungum sem bændaskólasetur, en Guðmundur Þorbjarnarson lagði til, að Kálfholt í Rangárvallasýslu yrði tilnefnt, en nefndin hafði áður sameiginlega komizt að þeirri niðurstöðu, að báðar þessar jarðir skyldu koma til greina sem væntanlegur skólastaður. Þannig lauk þeirra sameiginlegu sögu. En gagnvart hv. d. legg ég áherzlu á það, sem ég hef drepið á sem aðalatriði í sameiginlega nál., að það sé bent á atriði til ákvörðunar um skólasetrið, að landbrn., þegar það sker úr, taki fullt tillit til þessara undirstöðuatriða, sem sé, að það sé fyrir hendi fjölbreytilegt víðlendi, hitaskilyrði og fleira, sem þeir nefna og eru á einu máli um.

Nú hefur landbn. því miður ekki getað orðið sammála um afstöðu sína til þessa frv., sem vill lögfesta skólann. Fjórir nm. — og ég þar með leggja til, að frv. verði samþ., en sá fimmti, hv. 1. þm. N.--M., getur ekki fallizt á það og skilar sérstöku nál., þar sem lagt er til, að málið verði afgr. með rökstuddri dagskrá. Það, sem virðist aðalástæðan til þess hjá hv. þm.afgr. málið á þann veg, er það, að skólasetrið hafi þegar verið ákveðið af landbrh. og verði því ekki raskað. Ég veit, að því nær sem menn standa þessu máli, því þyngra verður það á metunum fyrir þeim, að skólinn verði settur þar í sveit, sem hann hentar bezt fyrir framtíðina, og það er það, sem einungis verður um spurt, þegar frá líður, — það verður minna spurt um nöfn okkar, sem um málið höfum fjallað, það gleymist, en hitt fyrnist ekki. Þess vegna verður það aukaatriði við rekstur málsins, hvort hitt eða þetta um ákvörðun staðarins hafi tekizt betur eða verr.

Að því er ákvörðun um Skálholt snertir, þá er þess að geta, að tveir af þrem nm., sem enginn getur bendlað við héraðapólitík, mæltu eindregið með því, að Skálholt yrði valið sem skólasetur, en um þriðja manninn er það að segja, að það er hætt við, að héraðapólitík hafi nokkuð getað blandazt í málið hjá honum, þegar hann átti að taka ákvörðun um staðarval skólasetursins, og hefði það átt að gefa landbrn. mikinn styrk til þess að taka þessa ákvörðun varlega, úr því svo var komið, að n. var klofin og komin var frá Búnaðarfélagi Íslands till., þar sem meiri hl. mælti með Skálholti og þeim meiri hl. var þannig háttað sem ég hef lýst. Annars er aftan við nál. okkar í meiri hl. prentað sérálit það, sem mælir með Skálholti. Vil ég vænta þess, að hv. dm. hafi kynnt sér þetta skjal n., sem sker þannig úr um málið og ætti að geta gefið hæstv. Alþ. bendingu um það réttláta mál, sem hér er farið fram á, að lögfesta Skálholt til bændaskólaseturs. Þetta, að lenda með ákvörðunina út fyrir báðar till. og benda á Kotmúla í Fljótshlíð, sem er næsti bær við Sámsstaði, það er vægast sagt nokkuð furðulegt. Hér er um að ræða Kotmúla 1 og 2, þó að byggingunni sé ætlað að standa í Sámsstaðalandi. Sumir mæla með að víkja frá till. og hverfa austur í Hlíð, af því að þar séu byggingar fyrir, en það er ekki í anda búnaðarfélagsnefndarinnar, sem telur það kost, að sem minnstar séu byggingar, til þess að skipulagið geti orðið fullkomið miðað við það gildi, sem bændaskólinn ætti að hafa. Hvað er þá að segja um landrými á þessum jörðum austur í Fljótshlíð? Á Sámsstöðum sjálfum, neðri hluta jarðarinnar, er kornræktarstöðin rekin af Klemenz Kristjánssyni með miklum dugnaði, svo sem kunnugt er, og mun landrými þar ekki vera til aflögu, og mér hefur heyrzt á Búnaðarfélagi Íslands, að ekki muni líða á löngu, áður en kornræktarstöðin þurfi að taka til afnota einnig hinn efri hluta jarðarinnar. Ég tel því ekki ráðlegt, að bændaskólinn yrði reistur á þessum stað, enda liggur fyrir okkur álit frá tilraunaráði ríkisins. þar sem varað er við því, að þetta rekist of mikið hvað a annað, bændaskólinn og kornræktarstöðin.

Með leyfi hæstv. forseta skal ég nú lesa þessa álitsgerð, sem er dags. 5. des. 1942 og hljóðar svo: „Tilraunaráð jarðræktar telur, að misráðið muni vera að tengja hinn fyrirhugaða bændaskóla á Suðurlandi og tilraunastöðina á Sámsstöðum nokkrum þeim böndum, er leitt gæti til árekstrar eða skerðingar á sjálfstæðum rekstri þessara stofnana hvorrar fyrir sig. Sömuleiðis álítur tilraunaráðið, að núverandi jarðeign Búnaðarfélags Íslands austur þar sé tæplega svo stór né kostum búin, að hún sé líkleg til þess að fullnægja nauðsynlegri þróun, er þessar stofnanir tækju með breyttu viðhorfi og vaxandi verkefnum.

Hins vegar álítur tilraunaráð, að það mætti teljast til kosta við val á jarðnæði fyrir skólann, að það væri svo í námunda við Sámsstaði, að sem auðveldast væri að láta nemendur kynnast störfum þar og fá þar verklega kennslu, eftir því sem aðstaða á tilraunastöðinni leyfði og um semdist milli þessara stofnana á hverjum tíma.“

Nefndin öll segir: „Við teljum samgöngurnar komnar í svo gott horf, að stærðin er í raun og veru aukaatriði.“ — Í þessu sambandi má minna á, að það hefur orðið niðurstaða landbúnaðarráðuneytisins að ákveða til bændaskólaseturs Sámsstaði í Fljótshlíð, ásamt jörðinni Kotmúla og nýbýli úr Kotmúla, og held ég, að það sé játað af landbúnaðarráðuneytinu sjálfu, að ræktanlegt land á þessum jörðum sé 40–50 ha lands. Ef ég fer með rangt mál, þætti mér vænt um, að það yrði leiðrétt strax. Mér finnst þetta svo lítið land fyrir hið fjölbreytta starf, sem bændaskólinn þarf að hafa með höndum, að hætta sé á, að það staðni í plógfarinu. Fjölbreytnin er svo lítil, þó að landið sé gott, að þetta ex hreinasta fjarstæða.

Ég sé nú, að hæstv. forseti bendir mér á klukkuna, og er það von, því að kominn er sá tími, þegar fundi er vanalega frestað. Með tilliti til þess og hins, að ég þyrfti nokkru nánar að gera grein fyrir máli mínu hér, áður en þessu lýkur, vildi ég bera það undir hæstv. forseta, hvort ekki sé rétt að fresta málinu og brjóta blað, þar sem hætt er, svo að menn geti verið minnugir þess á morgun, hvar byrja skuli. [Frh.]