22.11.1944
Efri deild: 73. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1072 í B-deild Alþingistíðinda. (2021)

134. mál, bændaskóli

Frsm. meiri hl. (Eiríkur Einarsson):

[Frh.]: Þegar umræðu var frestað í gær, var þar komið máli mínu, að ég hafði lýst með nokkrum orðum því, sem ég taldi, að helzt mætti verða máli mínu til upplýsingar og til stuðnings þeirri niðurstöðu, sem leitað er í þessu máli með frv. því, sem hér liggur fyrir. Ég hafði sem sé minnzt á fyrirmæli bændaskóal. sjálfra, er ákveða, að bændaskóli skuli standa á Suðurlandi og að þar, sem bændaskólinn er settur, skuli vera miðað við sérstöðu Suðurlands í búnaðarháttum. Ég hafði einnig minnzt á það atriði í hinu sameiginlega áliti n., sem átti að velja staðinn, að hún var öll á einu máli um það, að á skólasetrinu yrði að vera nóg landrými, sem gæfi aðstöðu til tilrauna, og að hægt væri að færa út kvíarnar eftir þörfum, til þess að hinar ýmsu tilraunir, sem á þessum bændaskóla yrði að gera, gætu notið sín þar á sem víðtækastan og fullkomnastan og tilbrigðilegastan hátt. Um þetta var n. öll sammála. Þá var n. einnig öll á einu máli um það, að staðinn bæri að velja með tilliti til þess, að þar væri veðurfar sem líkast því, sem almennt gerist á Suðurlandi, og það er einkennilegt, að þeir skyldu allir verða á einu máli um það, að þar skyldi hvorki vera kaldranalegra né hlýrra en almennt gerist á þessu svæði, og sýnir þetta mjög vel hinn glögga skilning, sem nm. hafa haft á þessu máli.

Þá var það einnig sameiginlegt álit n., sem þarf engrar skýringar við, að það væri mjög veigamikið atriði við val á slíkum stað, að þar væri jarðhiti, ekki sízt þar sem um bændaskóla væri að ræða. Var þar ekki eingöngu um það fjárhagsatriði að ræða að geta notað jarðhita í stað kola, heldur einnig með tilliti til þess, að notkun jarðhitagróðurhúsa er í stöðugri þróun í landinu, og er það að verða verulegur atvinnurekstur, þar sem aðstaða er til þess. Sýnist því nauðsynlegt, að bændaskóla sé valinn staður, þar sem aðstaða getur skapazt til að stunda og kenna gróðurhúsarækt, og er það vitað mál, að í Skálholti er þessu skilyrði prýðilega fullnægt.

Þá gerir n. ráð fyrir því sem sjálfsögðu atriði, að skólinn sé vel í sveit settur, og er það auðvitað mál, þar sem þeir gera ráð fyrir, að skólinn standi í Árnessýslu eða vestanverðri Rangárvallasýslu, en hitt sé fremur aukaatriði, hvort hann sé nokkru nær eða fjær þessum eða hinum staðnum.

Þetta og fleira, sem öll n. var sammála um, tel ég algerlega bindandi fyrir landbúnaðarráðuneytið, sem átti að lokum að setja sinn opinbera stimpil á staðinn. Út fyrir þau takmörk, sem n. óklofin telur, að setja verði, er staðurinn sé valinn, tel ég, að rn. hafi ekki rétt til að fara, því að þá væri komið út á of hálan ís.

Í áliti tilraunaráðs ríkisins er varað við því að þrengja of mikið að tilraunabúinu á Sámsstöðum með því að ákveða bændaskólann þar, enda landrýmið lítið. Einnig telur n., að of einhæft sé að hafa skólann á aðaláveitusvæðunum, þótt kornrækt og áveiturækt séu æskilegir þættir í búnaði. Í sama nál. segir líka, að skólajörðin þurfi að hafa ýmsa kosti, svo sem mýrar til þess að ræsa fram, valllendi, áveituland og annað það, sem kemur til greina við búrekstur. Þótt tilraunaráð taki fram, þegar það er búið að vara við því að hafa bændaskólann á Sámsstöðum, að það sé æskilegt, að samgöngur séu svo greiðar, að bændaskólinn geti hagnýtt sér þær framfarir, sem verða í kornræktinni, telur búnaðarfélagsn. það litlu máli skipta, hvar á aðalsvæði Suðurlandsundirlendisins skólinn yrði, því að auðvelt væri að komast á milli. Auk þessa er Skálholt vel í sveit sett, þegar hin fyrirhugaða Hvítárbrú hjá Iðu verður reist.

Tilraunaráð telur einnig, að landið á Sámsstöðum sé eigi svo kostum búið, að bændaskólinn eigi að vera þar, og með þessum orðum veit ég, að þeir eiga við, að landið sé of einhæft. Það væri last um þá fögru og ágætu Fljótshlíð að telja hana ekki frjótt og fagurt land, en hún er einhæf; túnbreiða ofan frá hlíðinni niður að Markarfljóti. Hún er þröngbýl, enda játað, að landið, sem ætlað er undir bændaskólann, sé aðeins 40 til 50 ha af ræktunarlandi. Má ætla, að hann þurfi að leggja undir sig jarðir inn með hlíðinni og reka bændur af þeim, ef hann ekki á að standa í sama plógfarinu. Þetta er ekki í samræmi við hugsjónir og þarfir sunnlenzkra bænda, þær eru meiri og víðtækari.

Nú leið og beið, og búnaðarfélagsn. klofnaði. Steingrímur Steinþórsson og Jón Sigurðsson, meiri hl. n., tilnefndu Skálholt sem skólasetur, en minni hl. n. tilnefndi Kálfholt. Með áliti tilraunaráðs og meiri hl. búnaðarfélagsn. var fyrrv. landbrh. búinn að fá þá bendingu, sem hefði átt að nægja. Samkv. því átti skólinn að reisast í Skálholti.

Nú klofnaði n., eins og ég gat um, og nál., sem eðlilegt er, gengur mest út á samanburð á þessum tveim stöðum, Skálholti í Biskupstungum og Kálfholti í Ásahreppi í Rangárvallasýslu. En þrátt fyrir það kemur í ljós, hvert höfuðból Skálholt er og fjölbreytt skilyrði þar til búrekstrar. Þar eru stórir flákar ræktunarlands, tilbúið áveitusvæði, tún, sem gefur af sér 800 hestburði, hverahiti, móar víðlendir og liggja fast að meginhvernum, Þorlákshver. Ég veit ekki, hvað er glæsileg lýsing á jörð, eins og Skálholti, ef ekki þessi umsögn. Eða heldur nokkur dómbær maður, að þessi meiri hl. hafi verið að toga hlut Skálholts fram af hreppapólitík? Það var afstaða minni hl., sem var blandin slíku. Guðmundur Þorbjarnarson, sá ágæti maður, kom úr allt öðru andrúmslofti, og því fór sem fór. Ef annar maður, óviðkomandi héraðinu, t.d. skólastjórinn á Hvanneyri eða Hólum, hefði verið sem þriðji maður í n. í stað hins kappsfulla og ágæta héraðsbúa, hefði n. ekki klofnað, hún hefði öll tilnefnt Skálholt. Ég er ekki að segja, að sú jörð, sem Guðmundur á Stóra-Hofi benti á til skólaseturs, sé ekki að ýmsu leyti góð, heldur segi ég, að Skálholt sé að mörgu leyti betri jörð, jarðhiti og véltæk engi, slétt tún, allt þetta hægt að nýta í byrjun skólans í Skálholti, í stað þess að þurfa að hefja mikla ræktun, áður en skólinn gæti tekið til starfa. Nei, það var að þessu leyti ekki úr vöndu að ráða fyrir hæstv. fyrrv. ráðherra. Ég tel, að valið hafi verið lagt upp í hendurnar á honum í samræmi við það, sem hér hefur verið sagt.

En hvað skeði svo, eftir að n. klofnaði og nál. var búið að liggja lengi í höndum hæstv. fyrrv. landbrh.? Þá fer að kvisast, að kannske ætti ekki að velja um staðina, sem búnaðarfélagsn. hafði bent á, hvorki meiri hl. staðinn né minni hl. staðinn, heldur skuli skólinn reistur austur í Fljótshlíð, á Sámsstöðum. Það kom á daginn, að hæstv. fyrrv. ráðh. hafði ákveðið Sámsstaði ásamt kirkjujörð þar í nágrenninu sem skólastað. Ræktanlegt land er, eins og ég hef áður sagt, 40 til 50 hektarar. Hvað er þetta til slíkrar fjölbreytni í ræktun, sem nauðsynleg er í bændaskóla, sem á að hafa forgöngu í þeim málum? Það væri hægt að bjarga þessu með því að láta greipar sópa um Fljótshlíðina, en þar er þéttbýli mikið og þröngsetnar jarðir, en ég skil ekki, að neitt vit sé í slíkum framkvæmdum.

Þegar farið var að ræða þetta mál í landbn. Ed., leituðum við upplýsinga og umsagnar hjá Búnaðarfélagi Íslands, þótt það væri áður búið að svara málinu. Stjórn Búnaðarfél. Íslands svaraði okkur því, að hún leiddi ákvörðun þáverandi landbrh. hjá sér, en vísaði annars til fyrri afstöðu sinnar með Skálholti. Minni hl. n. gerði það að aðalatriði, að skólinn yrði í Rangárvallasýslu. Ég skil þá afstöðu mæta vel, þótt það sé jafnmikil vitleysa fyrir því, að það sé nokkurt höfuðatriði, í hvorri sýslunni skólinn verði.

Ég er fæddur í Árnessýslu og hafði Heklu daglega fyrir augum, og þykir mér hún tignarleg, þó að skömmin að tarna sé í Rangárvallasýslu. Nei, þetta er einskis virði, aðalatriðið er, að jörðin sé sem bezt, en ekki það, hvort hún er í Rangárvallasýslu eða í Árnessýslu. Ég vildi bara, að Skálholt væri komið í Rangárvallasýslu, því að Árnesingar eru það viðsýnir menn, að þeim stæði á sama, í hvorri sýslunni skólinn væri.

Ég sé hér í áliti minni hl. búnaðarfélagsn. atriði, sem ekki er hægt að ganga fram hjá. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Um stærð skólans eða réttara sagt nemendafjölda má segja, að flest bendi til þess, að hún eigi að vera minni heldur en þeirra bændaskóla, sem fyrir eru. Reynsla þeirra hefur sýnt, að örðugt er með þeim nemendafjölda, sem þar er, að veita nemendum þá verklegu þjálfun, sem þó er sanngjarnt og sjálfsagt að krefjast, að nemendur fái í bændaskóla.“

Þetta eru stór orð, þegar við tökum það til athugunar, að stétt bænda er eiginlega sú eina af hinum fjölmennari stéttum, þar sem ekki hefur verið krafizt faglegrar menntunar til undirbúnings lífsstarfinu, en margir víðsýnir bændur sjá, að fræðslu er þörf. Þeir hafa komið auga á, að þeir þurfa hagnýta fræðslu. Héraðsskólarnir kenna hrafl úr ýmsum greinum, svo sem ensku og dönsku, landafræði o.s.frv., en það er ekki nægileg bændafræðsla.

Það þarf húsmæðraskóla handa húsmæðraefnum og bændaskóla handa bændaefnunum, ekki sízt með tilliti til þeirrar nýskipunar, sem koma skal. Þar, sem rúm er fyrir hendi, eiga bændaskólarnir að vera svo rúmgóðir, að hægt sé að hvetja bændaefni til þess að ganga í þá, og ef það yrði almennt, að þau færu í slíka skóla, sjá allir, hver fjarstæða það er, að nemendum eigi að fækka í bændaskólum.

Bændur vilja myndarlegan skóla, og með tilliti til þess þarf jörðin að vera stór, til þess að svara til þeirra verkefna, sem hann á að leysa af hendi.

Eitt atriði er enn, sem kemur málinu við. Það er varla tilviljun, að Hólar í Hjaltadal urðu bændaskólasetur Norðurlands. Skálholt skipar ekki síðri sess í hugum landsmanna, og bændaskólamálið hefur vakið menn til umhugsunar um endurreisn staðarins. Enda er ólíku saman að jafna, hversu Skálholt er betur til þess fallið að vera bændaskólasetur en Hólar, að þeim stað ólöstuðum.

Það er nú komið á annað hundrað ár, síðan biskupsstóllinn var lagður niður í Skálholti, og síðan hefur jörðin ekki verið setin eins og æskilegt væri. Ef nú yrði hafizt handa um að rækta og fegra staðinn, mundi það ekki á nokkurn hátt hindra, að þar gæti risið upp menntaskóli eða önnur menningarstofnun, samhliða bændaskólanum.

Það hefur verið fundið frv. þessu til foráttu, að skólastaður sé þegar ákveðinn og þess vegna sé það gjörræði að ganga á slíka ákvörðun.

Benda má á, að frv. mitt var komið fram áður en fyrrv. ráðh. ákvað staðinn, og í öðru lagi, að þessi ákvörðun var tekin á þeim valdatakmörkum, sem alltaf eru talin hæpin til slíkra ákvarðana. En sleppum því. Þessi ákvörðun er tekin án tillits til tillagna búnaðarfélagsn., sem ekki tilnefndi aðra staði en Skálholt og Kálfholt. Hefur meiri hl. n. og hinn óháði hl. tilnefnt Skálholt og meiri hl. landbn. Ed. sömuleiðis. Hér er ekki um persónulegan metnað, héraðsmetnað, að ræða. Það er ekki verið að spyrja að því, hvort einum eða öðrum líki þetta, það er verið að vinna fyrir framtíðina. Það á ekki að ráða úrslitum, hvort menn eru gæddir meiri eða minni áróðursgáfu. Skálholt uppfyllir þær kröfur, sem gera verður til skólaseturs, og það er ekki aðeins ég, heldur erum við 4 eða 5, sem leggjum til, að lögfestur verði þessi staður og enginn annar sem aðsetur bændaskóla Suðurlands. Það þarf ekki að taka það fram, að þetta raskar engu, þar eð engar framkvæmdir eru hafnar vegna ákvörðunar fyrrv. landbrh. Stundum er um lagabreytingar að ræða, sem hafa mikla röskun í för með sér. Hér er ekki um slíkt að ræða. Breyt. þessi er aðeins nauðsynlegt formsatriði til þess að koma málinu á réttan kjöl eftir það handahóf, sem ráðið hefur fram að þessu.