22.11.1944
Efri deild: 73. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1080 í B-deild Alþingistíðinda. (2024)

134. mál, bændaskóli

Frsm. meiri hl. (Eiríkur Einarsson):

Herra forseti. Ég skal reyna að vera stuttorður og leiða ekki umr. að öðru en því, sem orð hv. þm. hafa gefið tilefni til.

Hv. frsm. minni hl. sagði, að ekki væri hægt að tala um endurreisn Skálholtsstaðar, ef skólinn væri byggður í nánd við staðinn, af því að hann ætti ekki heima í Skálholti. Út frá hvernum eru mjög hentugir móar til ræktunar, svo að víða hefur verið ráðizt í framkvæmdir, þar sem verri eru aðstæður en þar. Og að því er snertir sjónarmið þeirra, sem vilja halda fast við helgi Skálholtsstaðar, að ekki megi hafa þar um hönd annað en það, sem geti talizt samboðið þeim tíma, þegar biskupsstóllinn var þar, áliti ég það frekar kost en galla, að skólinn væri ekki byggður á sjálfu helgisetrinu heima. Og þar sem landrými er jafnmikið og gott út frá hvernum og raun ber vitni og ræktunarskilyrði ágæt, áliti ég það sízt galla, þó að þessi aðferð væri viðhöfð.

Hv. þm. minntist á, að bændaskólann yrði að miða við séraðstöðu Suðurlands í búnaðarháttum, og minntist réttilega á margt þar að lútandi. Hann minntist réttilega á kornrækt, skógrækt og svo gróðurhúsarækt. Þetta er allt rétt hjá honum. En þegar við leggjum þessi atriði saman, verðum við að komast að raun um, hvaða niðurstaða fullnægir sem flestum þessum atriðum. Þegar það er gert með alvöru, verð ég ekkert hræddur um hlut Skálholtsstaðar í þeim samanburði.

Það hefur komið hér fram, þegar talað er um ræktun á minna svæði, að óþarft sé að hafa til þess landflæmi eins og Skálholts. Mér finnst þetta vera kórvilla, því að þegar bændaefnin eru að læra jarðrækt, verða þau að hafa undanfæri og fjölbreytni til þess að geta notið sín. Og þar sem stærstu framkvæmdir nú eru miðaðar við stórrækt, sem unnið er að með nýtízku vélum, þarf skólinn að hafa undanfæri til þess að geta notið sín. Að vinna með einföldum verkfærum á stóru landsvæði er vitanlega fjarri öllu lagi. Einmitt þetta, að jarðræktin er að færast í nýtt og stórfelldara horf, gerir tilbreytnina og stærðina nauðsynlega.

Það hefur verið tekið fram af margnefndri n., að í framtíðinni verði í sambandi við ræktunarbúskapinn komið upp smábýlum, e.t.v. fyrir kennarana líka. Slík smábýli útheimta líka landrými, og kæmi sér þá ekki vel, að skólinn réði yfir víðum lendum eins og Skálholts? Ég segi vissulega. Ég hefði gaman að heyra, með hvaða rökum þessu verður mótmælt. Allir játa, að hverahitinn sé mikils virði.

Þá segir hv. 1. þm. N.-M., að ekki muni allir Árnesingar vera einhuga um að hafa Skálholt fyrir skólasetur, hafi það komið fram hjá Kaupfélagi Árnesinga. Þetta er mikið rétt. En það er engin sönnun fyrir því, að það sé ekki almennur vilji Árnesinga að hafa skólasetur í Skálholti, þó að kaupfélagið hafi slegið þessu fram af áhuga fyrir að tryggja það, að skólanum yrði útvegaður hentugur staður, en þetta hefur orðið til þess að beina hugum margra að Sámsstöðum.

Hv. 1. þm. N.-M. sagði, að hann áliti það óviðeigandi að deila um skólastaðinn, heldur ætti að láta gilda þær ákvarðanir, sem gerðar hafa verið með lagabálki, að láta Alþ. gera það sjálft. En af hverju var þá verið að flækja Búnaðarfélaginu þar inn í? Það var gert vegna þess, að Búnaðarfélaginu var bezt treyst til að bera skyn á þetta. Það var ekki ætlazt til, að það gerði till. út í bláinn, heldur að það gerði um þetta réttmætar till., sem svo væri farið eftir. — Hv. þm. minntist á héraðapólitík í sambandi við nefnd þá, sem Búnaðarfélagið skipaði. Þetta er rétt. Eins og kunnugt er, klofnaði nefndin í tvennt, sökum sérstöðu Sunnlendingsins. Það er ekki sagt Sunnlendingnum til lasts, en hann var háður héraðapólitík. Það var gallinn.

Hæstv. fjmrh. lýsti því yfir, að hann mundi greiða atkv. móti þessari till. Hann gerði það mjög hófsamlega og með sínum rökum. Hann færir fram sem höfuðrök fyrir því, að skólinn verði reistur á Sámsstöðum, að þar sé nú búið að koma upp svo miklum byggingum, að óþarft sé að fara sér óðslega og nægi nú að auka þær smátt og smátt. Þetta eru orð, sem fara ævinlega vel af vörum fjármálaráðherra Íslands. En ég verð að segja það, að þegar um byggingar og annað slíkt er að ræða, er ekki alls staðar horft í eyrinn. Og ef gera á það að atkvæðisatriði, þá er bezt að fara að spara fleiri byggingar og leggja niður fyrir sér, hvað ráðast á í og hvað ekki, því að ef sunnlenzk bændaefni verðskulda ekki að fá sæmilega byggingu yfir sig, veit ég ekki, hverjir eiga það skilið. Það er líka í samræmi við búnaðarfélagsnefndina, að sem minnstri byggingu sé fyrir að fara á staðnum, því að þá mætti athuga, hvernig hentugast yrði hagað byggingarháttum á staðnum.

Þá var það annað atriði, sem hæstv. fjmrh. taldi Sámsstöðum mjög til framdráttar. Það var staða Klemenzar Kristjánssonar. Mér finnst þetta ómerkilegt atriði, ekki af því að ég geri lítið úr Klemenzi. Allir vita, að þetta er duglegur maður. En þegar miðað er við hann sem kennara, og það er ekki sagt til lasts um hann, efast ég um, að hann hafi næga þekkingu. Ég vil vekja athygli hæstv. fjmrh. á einu í sambandi við þetta atriði. Ég veit af kornræktarstöð, sem er haldið uppi af prívatmanni. Það er í Birtingaholti, og ég efa, að þar sé verr á haldið hinni vísindalegu meðferð málsins, ef svo má segja. Þetta er ekki sagt til þess að draga úr hinum miklu hæfileikum Klemenzar Kristjánssonar, en að gera þetta að svona stóru atriði, er óþarft.

Ég læt við þetta sitja, enda þýðir ekki annað. Treysti ég svo því, að hv. d. sjái sér fært að samþ. þetta frv.