13.12.1944
Neðri deild: 91. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1091 í B-deild Alþingistíðinda. (2036)

134. mál, bændaskóli

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. – Eins og getið er um í nál. landbn., tók ég enga afstöðu til þessa frv. og leiddi hjá mér afgreiðslu þess í n. Þar sem ég hafði nokkur afskipti af málinu áður, þá tel ég rétt, að ég geri grein fyrir, hvers vegna ég sá mér ekki fært að taka þátt í afgreiðslu malsins. Ástæðan til þess er sú, að mér finnst vera búið að fara svo illa með þetta mál og það komið í svo mikið óefni, að ég get ekki búizt við neinum viðunanlegum árangri af málinu eins og nú er komið.

Ég verð að fara ofur lítið út í forsögu málsins. Á sínum tíma, þegar l. um bændaskóla á Suðurlandi voru sett, þá var það ákvæði í l., að ráðh. skyldi ákveða skólanum stað að fengnum till. Búnaðarfélags Íslands. Þegar búið var að samþ. l., var málið sent stjórn Búnaðarfélags Íslands og hún beðin af hæstv. ráðh. að gera till. um staðinn. Stjórn félagsins taldi sig ekki hafa tök á eða tíma til að rannsaka þetta mál sjálf, vildi ekki kasta til þess höndunum, og valdi þess vegna n., sem skyldi rannsaka málið. En um það leyti sem stjórnin tilnefndi menn til að gera þessar till., barst henni bréf frá stjórn Búnaðarsambands Suðurlands, þar sem þess var beiðzt, að sambandinu væri heimilað að tilnefna einn mann í þessa nefnd. Ég skal ekkert um það segja, hversu heppilegt það hefur verið, vegna þess að við vitum, að svona mál eru alltaf viðkvæm milli héraða, en stj. varð samt við því. Henni fannst ekki sanngjarnt að meina stjórn Búnaðarsambands Suðurlands að hafa einn mann í n. til að láta koma fram sjónarmið búnaðarsambandsins og stjórnar þess. Fyrir þessu vali varð Guðmundur Þorbjarnarson á Stóra-Hofi, form. stjórnar búnaðarsambandsins, en af hálfu Búnaðarfélags Íslands Steingrímur Steinþórsson búnaðarmálastjóri og Jón Sigurðsson á Reynistað. N. lagði mikið verk í að kynna sér alla staði þar eystra, fór oft austur og skoðaði þá staði, sem hún helzt áleit, að til greina gætu komið. Eftir að hafa athugað þetta lengi og ýtarlega, skilaði n. áliti, en varð því miður ekki sammála, heldur klofnaði hún í tvennt. Jón og Steingrímur mæltu með Skálholti, en Guðmundur á Stóra-Hofi mælti með Kálfholti. Nú voru till. þeirra lagðar fyrir stjórn Búnaðarfélags Íslands, og þar kom aftur fram meiri og minni hluti. Ég og Jón í Deildartungu fylgdum meiri hl. nefndarinnar. Ég fyrir mitt leyti taldi, að stjórn búnaðarfélagsins hefði fengið þessum mönnum í hendur tillögurétt búnaðarfélagsins til ráðherra. Fylgdi ég því till. meiri hl. nefndarinnar og Jón í Deildartungu, en einn, Pétur Ottesen alþm., varð sammála Guðmundi á Hofi og mælti með Kálfholti. Þannig fór málið til ráðherra. Ég bjóst við, að þegar þessar till. kæmu til ráðh., þó að þær væru ekki samhljóða, þá mundi ráðh. ákveða skólastaðinn eftir till. meiri hl. n. og meiri hl. stj. Búnaðarfélags Íslands, þess aðila, sem var af Alþ. ákveðinn til að gera till. um skólastaðinn, því að þótt það stæði að forminu til í l., að ráðh. ákvæði staðinn að fengnum till. stj. Búnaðarfélags Íslands, þá hygg ég, að Alþingi hafi gengið út frá því, að till. Búnaðarfélags Íslands, sérstaklega eftir jafnmikið verk og hafði verið lagt í að athuga skólastaðinn og allar aðstæður, yrðu látnar ráða, en vitanlega hafði ráðh. að forminu til vald til að velja hvaða stað sem hann vildi. Nú gerðist ekkert í málinu, þar til kom að stjórnarskiptum, eftir að fyrrv. stjórn hafði sagt af sér. Þá er það, að landbrh. ákveður staðinn, ekki í Skálholti eins og meiri hl. n. hafði lagt til, ekki í Kálfholti eins og minni hl. n. hafði lagt til, heldur á allt öðrum stað. Sámsstöðum í Fljótshlíð, sem n. hafði rannsakað sérstaklega og hafði við athugunina mjög komið til greina, en horfið var frá af öllum samhljóða. Ég verð að segja, að ég varð fyrir miklum vonbrigðum út af þessari afgreiðslu málsins og taldi, að hér væri farið allt öðruvísi að en Alþingi hafði gert ráð fyrir á sínum tíma, því að ég fullyrði, að þingið mun hafa gert ráð fyrir, að till. Búnaðarfélagsins yrðu látnar ráða um skólastaðinn. Ég tel því mjög miður farið, að ekki var upphaflega af ráðherra eða ráðherrum hnigið að því ráði að setja skólann á þann stað, sem meiri hl. Búnaðarfélagsins hafði mælt með. Hins vegar þýðir ekki um það að ræða, ráðh. hafði að forminu til lagalegan rétt til að ákveða staðinn, því að í l. segir, að ráðh. ákveði staðinn eftir að hafa fengið till. frá stj. Búnaðarfélags Íslands, en ekki samkv. till. stjórnar Búnaðarfélags Íslands. Honum er ekki fyrirskipað að ákveða staðinn samkvæmt till., heldur að fengnum tillögum. En þrátt fyrir það að ég er mjög óánægður með þessa afgreiðslu ráðh. á málinu, þá tel ég það samt að stíga úr öskunni í eldinn að taka málið upp til að ónýta með þingsamþykkt löglegar gerðir ráðh., sem þingið hefur fengið honum í hendur og hann er búinn að ákveða.

Ég vil í því sambandi minna á aðra stjórnarframkvæmd um svipað leyti af hálfu hæstv. kennslumálaráðherra, þar sem hann skipaði dósent í guðfræði þvert ofan í till. þeirra aðila, sem gera áttu till. um skipun manns í slíkt embætti. Ég er ekki að segja, að ég sé óánægður með þá ráðstöfun hæstv. ráðh., en samt sem áður fyndist mér óviðfelldið, ef Alþingi tæki upp hjá sér þann hátt að ónýta þessa gerð með þingsamþ., setja séra Sigurbjörn Einarsson út úr embætti, en séra Björn Magnússon inn í hans stað. Menn munu kannske segja, að þarna sé nokkuð öðru máli að gegna, því að annars vegar séu menn, en hins vegar sé aðeins um jarðir eða staði að ræða, en mér finnst samt, að þetta séu hliðstæður og að Alþingi megi gæta sín að ónýta ekki löglegar stjórnarráðstafanir eins og þessi er.

Af þessum ástæðum er það, að mér finnst vera búið að fara svo illa með þetta mál, að ég er hræddur um, að það hafi mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér, m.a. aukinn ágreining og sundrungu þeirra aðila, sem að skólanum eiga að standa, og þar að auki er það leiðinlegt, ef þetta frv. verður að l., þar sem ég er sannfærður um, að ef ráðh. hefði, þegar hann hafði fengið till. Búnaðarfélagsins, ákveðið skólanum stað í Skálholti, þá hefðu menn, þó að þeir væru misjafnlega ánægðir með þá ráðstöfun, sætt sig við hana og málið verið útkljáð á friðsamlegan hátt. Mér finnst því, að öll afgreiðsla málsins sé í mesta óefni komin, og því sé ég mér ekki fært lengur að taka þátt í afgreiðslu þessa máls og mun því eins í d. og áður í n. leiða málið hjá mér og ekki greiða um það atkv.