13.12.1944
Neðri deild: 91. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í B-deild Alþingistíðinda. (2037)

134. mál, bændaskóli

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. — Ég hafði búizt við því, að einhver meðmælandi Skálholts tæki til máls í d. á undan mér. Hv. samþm. minn hefur talað hér í þessu máli og tekið í sama streng og ég mun gera, að leiða rök að því, að bændaskóli Suðurlands er vel settur á Sámsstöðum í Fljótshlíð og löglega ákveðinn þar af fyrrv. landbúnaðarráðherra.

Frv. það, sem flutt var í Ed. af hv. 2. þm. Árn. um, að l. um bændaskóla á Suðurlandi skuli breytt á þann hátt, að skólinn skuli lögákveðinn í Skálholti, er þess eðlis, að eftir að búið er að ákveða skólanum stað á Sámsstöðum, þá er hafinn slíkur áróður, að það væri kallað frekja og dónaskapur að halda slíku til streitu, ef það væri einhver annar en hv. 2. þm. Árn., sem hefði flutt þetta mál og róið svo frekjulega fyrir því. Hann hefur orð fyrir að vera mildur og blíður á manninn, og það út af fyrir sig hefur blindað ýmsa þm. og beygt dómgreind margra þeirra, svo að þeir, sem hafa léð málinu fylgi, hafa ef til vill blindazt af því, að þeir hafa ekki ímyndað sér, að hv. þm. væri með svo dónalegt og frekjulegt mál á ferðinni, og hefðu léð því fylgi án þess að athuga nógu rækilega, hvað þeir voru að gera.

Það væri rétt að athuga lítið eitt forsögu þessa máls, þótt það hafi áður verið gert. Í l. um bændaskóla Suðurlands, sem sett voru 1942, var svo ákveðið, að landbrh. skyldi ákveða skólanum stað að fengnum till. Búnaðarfélags Íslands. Hv. þm. Mýr., sem talaði hér síðast, treysti sér ekki til að taka afstöðu til málsins, en viðurkenndi þó, að landbrh. hefði haft fullt vald til að ákveða skólanum stað og að hann væri löglega settur á Sámsstöðum. Þess vegna kemur mér kynlega fyrir, að þessi hv. þm. skuli ekki ætla að taka ákveðna afstöðu til málsins, eftir að hafa lýst þessu yfir. Hann vildi ekki skapa það fordæmi, að Alþingi færi að rifta löglegum gerðum ráðh., því að það fordæmi gæti orðið hættulegt í framtíðinni, en samt ætlar hann að sitja hjá við atkvgr. Ég vil ekki segja, að þessi hv. þm. bregðist skyldu sinni sem þm., þegar hann ætlar að láta málið afskiptalaust, þó að hann sjái, að það ætlar að taka hættulega stefnu. Mér finnst þó eftir þessa yfirlýsingu, að hann standist tæplega við annað en að greiða atkv. á móti því, að þessari ráðstöfun ráðh. verði breytt.

Því hefur verið lýst, að n. hafi verið kosin af stjórn Búnaðarfélags Íslands til að velja skólanum stað, og það er öllum kunnugt, að þessi n. starfaði nokkuð og klofnaði í málinu. Því hefur verið lýst, að sjónarmið Skagfirðinga varð ofan á í vali staðarins. Það, sem meiri hl. n. telur máli sínu aðallega til stuðnings, er það, að Skálholt hafi miklu landi yfir að ráða og að þar séu skilyrði til áveitu. Hins vegar segir í sérákvæði l. um bændaskóla, að velja skuli hentugasta jarðnæði fyrir skólann og að skólinn eigi að starfa á þann hátt, að hann miði sem mest að því að búa bændur og bændaefni undir búskap eins og bezt hentar á Suðurlandi og eins og búskapur verði yfirleitt rekinn á Suðurlandi í framtíðinni. Ég mun koma að því síðar, hvað ég álít í því efni um fyrirkomulag búskapar á Suðurlandi í framtíðinni. Ég er sannfærður um, að það verður ekki landstærðin, sem þar verður aðalatriðið. Það er vitanlega nauðsynlegt, að skólinn hafi yfir nokkru landi að ráða, nægilegu ræktunarlandi, en hann þarf ekki að hafa mikla hrosshaga eða bithaga eins og er í Skálholti, og það er ekki nauðsynlegt, að á skólajörðinni séu skilyrði fyrir áveitu.,

Í þessum sömu l., sem ég vitnaði í, gaf Alþingi ráðh. fullt vald til að ákveða skólanum stað. Ráðh. gerði það. Hann ákvað skólanum stað á Sámsstöðum í Fljótshlíð. Það er því eins og ég áður sagði algerlega ótímabært og ófyrirsynju að vera með þetta frv., sem nú er hér til umr. Ég ætla ekki að trúa því, þó að svo líti út nú, að meiri hl. þessarar d. ljái því samþykki sitt. Það verður a.m.k. að athuga, áður en menn ljá þessu máli fylgi, hvort Sámsstaðir eru óforsvaranlegur skólastaður, hvort Sámsstaðir eru þannig úr garði gerðir, að ekki sé forsvaranlegt að byggja skólann þar, og hvort þeir uppfylla þau skilyrði, sem sett eru í l. um bændaskóla Suðurlands. Ef d. kemst að þeirri niðurstöðu, að Sámsstaðir séu hentugur staður og uppfylli þau skilyrði, sem skólastaðurinn á að hafa, þá nær engri átt að gera þá goðgá að samþ. það frv., sem hér liggur nú fyrir. Ef Sámsstaðir hins vegar dæmast svo kostarýr jörð, að þar væri ekki unnt að reka bændaskóla með þeim árangri, sem ætlazt er til, þá væri vitanlega ekki nema eðlilegt, að Alþingi hryndi þeirri gerð, sem ráðh. hefur gert, því að þá er bersýnilegt, að hún hefur verið gerð án þess að leitað hafi verið upplýsinga um, hvort það væri gerlegt og á viti byggt að reisa skólann á þessum stað.

Það er þá rétt að gera sér grein fyrir, hvað það er, sem mælir með Sámsstöðum sem skólasetri. Það er svo, að gerð hefur verið ráðstöfun til að bæta við það land, sem Sámsstaðir hafa yfir að ráða, og tryggja jörðinni, ef þurfa þykir, tvær nærliggjandi jarðir, svo að sú ástæða, sem hér hefur stundum verið talað um, að skólinn mundi hafa yfir of litlu landi að ráða á Sámsstöðum, er ekki lengur fyrir hendi. Skólinn hefur, þegar hann er búinn að fá þessar tvær jarðir, yfir miklu og góðu landi að ráða, áreiðanlega það miklu, að það er síður en svo ástæða til að tala um, að landrými sé þar ekki meira en nóg. Hitt skal viðurkennt, að þarna verður lítið um hrossahaga, til þess er landið of frjósamt. Verður því að ætlast til, að það verði notað til ræktunar, en ekki til rányrkju.

Á það hefur verið bent, að Sámsstaðir eru sérlega vel í sveit settir, þar sem þeir eru í miðri Rangárvallasýslu, við þjóðveginn, en eins og kunnugt er, er ætlazt til, að skólinn verði sérstaklega fyrir fjórar sýslur á Suðurlandi og jafnvel fimm, Skaftafellssýslur báðar, Rangárvallasýslu, Árnessýslu og Vestmannaeyjar. Má því segja, að Sámsstaðir séu miðsvæðis.

Á Sámsstöðum er fagurt, svo að óvíða í sveitum er útsýni fegurra. Segja má, að það út af fyrir sig hafi ekki mikla þýðingu, en þó er rétt að taka það fram, ef einhver hv. þm. hefði ekki komið í Fljótshlíðina, af því að því hefur verið haldið fram við þessar umr. í Ed., að það væri ljótt á Sámsstöðum. Ég geri ráð fyrir, að óþarfi sé að gera það að umræðuefni hér, vegna þess að flestir eða allir hv. þm. munu hafa komið að Sámsstöðum í Fljótshlíð, og þeir eru áreiðanlega hver um sig færir um að dæma um, hvort þar er nógu fallegt til að reisa þar bændaskóla.

Sámsstaðir eru tilraunastöð, einkum með kornrækt og matjurtarækt o.s.frv. Forstjóri hennar er Klemenz Kristjánsson, og er þessi tilraunastöð undir hans stjórn fyrir löngu orðin landskunn. Rétt fyrir innan Sámsstaði er önnur tilraunastöð, skógræktarstöð, og ekki langt þar frá er þriðja tilraunastöðin, sandgræðslustöð. Allar þessar stofnanir geta orðið nemendum bændaskóla á Sámsstöðum að ómetanlegu gagni. Kornrækt, skógrækt og sandgræðsla, allt þetta er starfsemi, sem bændaefnin þurfa að kynnast, svo framarlega sem það er meiningin hjá okkur að hefja nýtt og víðtækt landnám í landi okkar og okkur er alvara að gera landbúnaðinn að nýtízku atvinnugrein. Sumir munu spyrja og jafnvel efast um, að það sé hagur að því að hafa tilraunastöðvar nærri skóla. Ég hef heyrt það á einstöku þm., að tilraunastöðin á Sámsstöðum sé ekki annað en „humbug“, og sumir halda fram, að sandgræðslan í Gunnarsholti og skógræktarstöðin á Tumastöðum sé ekki heldur annað en „humbug“. Ef menn halda, að slíkar stöðvar séu til lítils gagns, þá skulum við hætta að tala hátt um að klæða landið skógi og hefta uppblástur og sandfok og að eigi að hefja hér á landi fullkomna ræktun og grasrækt á sem víðtækustum grundvelli.

Ég hef heyrt fáeina menn halda því fram, að á Sámsstöðum sé jarðvegur svo frjór og góður, að af þeim sökum sé ekki heppilegt að hafa þar skóla. Þetta er vitanlega firra ein og eins það, að tilraunastöðvarnar í Fljótshlíðinni séu settar þar niður, af því að jarðvegurinn þar sé of frjór. Þær eru settar þar af því, að jarðvegurinn þar er heppilegur til tilrauna og tilraunastöðvarnar eiga að sýna þann árangur, sem ætlazt er til, að hægt sé að ná við meðalskilyrði annars staðar. En úr því að það er álit sérfróðra manna, að Fljótshlíð sé heppilegur staður til slíkra tilrauna, þá er vitanlega alveg eins heppilegt, að bændaskóli standi þar líka.

Ég skal ekki deila um það hér, hvort tilraunastöðvar eigi tilverurétt eða ekki, við þá, sem vilja draga það í efa. Ég veit, að þeir eru sem betur fer miklu færri. Það má virða mönnum, sem hafa ekki kynnt sér þær, til vorkunnar, þó að þeir hafi ekki réttan skilning á þessu. Ég ætla, án þess að fjölyrða mikið um gildi þessara tilraunastöðva, að fullyrða, að þær eru einn þýðingarmesti þátturinn í því byrjunarstarfi, sem við erum nú að hefja. Ísland hefur verið byggt í meira en þúsund ár. Landnámsöldin fyrri ex liðin.

Í þessi þúsund ár stóðum við að mestu í stað í búnaði til aldamótanna síðustu. Sömu þúfurnar sátu í túnunum allan tímann, og þau stækkuðu ekki, og sömu aðferðir voru hafðar til að nytja þau. Upp úr aldamótum hófst ný landnámsöld, en betur má, ef duga skal. Allir eru sammála um, að nýr og betri skriður þarf að komast á ræktunarmálin. Tilraunastöðvar eru byrjun á þessu landnámi. Búnaðarskólarnir í landinu eru tveir, og því miður verð ég að segja, að þeir eru ekki reknir fullkomlega með það fyrir augum að búa bændur sem bezt undir það að verða búendur við þau skilyrði, sem þeirra bíða við smábúskap á hinum dreifðu býlum. Skólarnir hafa stórbúskap, sauðfjárrækt og hrossa. Áveituengi er á Hvanneyri meira og betra en nemendur geta búizt við að hafa. Það verða ekki nema örfáir bændur, sem geta rekið stórbúskap, þótt námið hafi við hann miðast og hugur þeirra kunni að standa þar til. Það er ljóst, að búskapurinn er að færast í það horf til frambúðar á Suðurlandi, að búin séu ekki stærri en svo, að bóndinn geti annazt þau með sínu skylduliði. Aðalatriðið verður að framleiða mjólk handa Reykvíkingum, og framleiðslan verður að byggjast á fullkominni ræktun. Skólinn þarf að geta kennt jarðrækt til hlítar, en ekki hrossabúskap á viðlendum jörðum. Menntunina, sem bændur þurfa mest við, eiga þeir að fá á — menntastofnuninni á Sámsstöðum, hún hefur hin ákjósanlegustu skilyrði til að veita einmitt þá menntun.

Það má ekki dragast mörg ár, að bændaskólinn verði reistur og starfræktur. Með því að reisa skólann á Sámsstöðum er hægt að koma honum upp tiltölulega fljótt og með tiltölulega litlum stofnkostnaði til að byrja með. Þar eru fyrir mikil og góð húsakynni. Með því að byggja eitt stórt hús fyrir nemendurna, og kennarar og skólastjóri gætu einnig verið þar, þá væri hægt að hefja kennslu. Gripahús þyrfti ekki að byggja í bráð, meðan dýrtíðin er. Í Skálholti yrði stofnkostnaður þegar frá upphafi margfalt meiri.

Ég minntist á bændaskólana á Hólum og Hvanneyri. Langt er frá, að ég ætli að gera lítið úr þeim, þótt ég fullyrði, að þeir hafi ekki skilað bændaefnunum eins færum og þurft hefði til að stunda búskap á eftir hvert í sinni sveit. Það er nú svo, að á þessum skólum hefur verið undanfarin ár meiri og minni halli. Og skólastjórarnir hafa freistazt til þess að láta nemendur sína vinna óskyld störf, en ekki eingöngu þau, sem þeir gætu lært af. Raunar er ekki löng reynsla komin, síðan nemendur voru skyldaðir til að vera þar við verklegt nám sumarið milli námsvetranna. En ég tel, að skólarnir hafi ekki náð að glæða nægilega áhuga bændaefna á því jarðræktarstarfi, sem þeirra bíður. Margir búfræðikandídatar hafa jafnvel horfið alveg frá því hlutverki, sem þeir lærðu til, gerzt verkamenn á mölinni eða tekið að sér ýmis óskyld störf. Það er ekki hægt að kref jast minna en að þeir ungu menn, sem útskrifast úr bændaskóla, sinni eftir það störfum við landbúnað eða í þágu hans, og það verður ekki tryggt með öðru en áhuga þeim, sem bændaskólarnir eiga að vekja hjá nemendunum. Svo mikill straumur hefur undanfarið verið úr sveitum til kaupstaða, að krefjast verður, að þessi hópur, sem sérmenntun fær í búnaði, sé klettur, sem standi móti þeim straumi og brjóti hann. Ég minntist á það áðan, að mögulegt væri að koma skólanum á Sámsstöðum upp á stuttum tíma og fyrir til þess að gera lítið fjármagn. Þegar hæstv. fjmrh. mótmælti þessu frv. í Ed. fyrir skemmstu, taldi hann það stærsta kostinn á Sámsstaðaskólanum, en óttaðist, að framkvæmdir hlytu heldur að dragast í Skálholti vegna dýrleiks. Það mætti ætla, að skólinn á Sámsstöðum gæti tekið til starfa haustið 1946. Engin reglugerð hefur enn verið samin fyrir skólann, en menn hafa látið sér detta í hug, að það ætti ekki að vera tveggja vetra, heldur eins árs skóli, er hæfist með vetri við bóklegt nám, en vor, sumar og haust yrði stundað verklegt nám og nemendur gerðir fullnuma á þeim tíma í þeirri jarðrækt, sem þeir hafa mesta þörf fyrir. Með því að útskrifa nemendur eftir árið gæti skólinn menntað helmingi fleiri bændaefni en jafnstór tveggja vetra skóli gerir, og er það ekki lítið atriði.

Um kostnað skal ég aðeins nefna ágizkunartölur. Það er engin fjarstæða að koma meginhluta skólans á Sámsstöðum upp fyrir 1/4 millj. kr. En ef byggt yrði við Þorlákshver, þar sem byrja þarf á 3 km vegarlagningu og byggja á eyðistað öll hús frá grunni, hlyti það að taka mörg ár og verða milljónafyrirtæki. Ég hef sterkan grun um, að 1 eða 2 af þeim þm., sem fylgdu málinu í Ed., hafi gert það af því, að með því hugðust þeir grafa máliðkandi, hindra, að nokkuð fengist framkvæmt fyrir féleysi, a.m.k. um mörg ár enn. Um ófyrirsjáanlegan tíma er þá torveldaður undirbúningur hins aukna landnáms, sem við erum sammála um, að hefja þarf.

Þeir, sem á mig hafa hlýtt og heyrt, hverja kosti Sámsstaðir hafa, er á allt er litið, fram yfir aðra staði, munu spyrja, hví nefndin, er stað skyldi velja, gekk fram hjá Sámsstöðum. Það er ekki rétt, sem hv. 2. þm. Skagf. (JS) segir, að n. hafi aldrei komið Sámsstaðir til hugar, því að einn nm., Guðmundur Þorbjarnarson, hefur í sinni álitsgerð sagt, að um skeið hafi mjög verið um Sámsstaði rætt, þótt frá því ráði væri horfið. Það var annaðhvort þessi n. eða stjórn búnaðarfélagsins, sem leitaði umsagnar tilraunaráðs um Sámsstaði sem skólastað, og taldi ráðið þá, að Sámsstaðir hefðu ekki nógu mikið land. Nú hafa skólanum verið tryggðar tvær jarðir fast við Sámsstaði, og heitir önnur þeirra að vísu Sámsstaðir líka. Með því var málið stórum breytt, og féllst þá tilraunaráðið á, að staðurinn væri hinn heppilegasti og land nægilegt. Ég er ekki í vafa um, að n. hefði valið Sámsstaði, hefði hún haft hugmynd um, að þessar tvær jarðir voru fáanlegar til viðbótar. Þegar hæstv. fyrrv. atvmrh., Vilhjálmur Þór, leitaði umsagnar tilraunaráðs, samþ. það staðinn. Hann leitaði einnig umsagnar búnaðarfélagsins, og veitti einn úr stjórn þess, hv. þm. Borgf., samþykki sitt fyrir því, að skólinn yrði reistur á Sámsstöðum. Tveir í búnaðarfélagsstj., hv. þm. Mýr. og Jón Hannesson í Deildartungu, létu sér nægja að vísa til fyrra álits síns. Hefðu þeir talið Sámsstaði óhæfa, var það skylda þeirra að mótmæla, en það gerðu þeir ekki. Virðast þeir því ekki hafa talið þetta illa ráðið af atvmrh. Ráðh. studdist þar við samþykki hinna sérfróðustu manna, tilraunaráðsins, en í því eru Ólafur Jónsson, framkvæmdastjóri Ræktunarfélags Norðurlands, Jakob H. Líndal, bóndi á Lækjamóti, Ásgeir L. Jónsson vatnsvirkjafræðingur, Pálmi Einarsson jarðræktarráðunautur, allt landskunnir og margfróðir menn, og loks Klemenz Kristjánsson tilraunastjóri, sem gert hefur garðinn frægan á Sámsstöðum. Sízt mundi hann leggja til að hafa skólann þar, ef hann hygði það vera tilraunum sínum eða skólanum til ills. Og enginn þessara manna hefði veitt samþykki sitt án sannfæringar um, að þeir væru að gera rétt.

Ég tel, að Alþ. sæi sóma sinn mestan í því að vísa svona frv. frá með rökstuddri dagskrá, og mun ég bera hana fram, er ég lýk nú máli mínu.

Mál þetta er hafið og sótt með eindæmum hér á Alþ. og þeirri ísmeygilegu frekju, sem menn bjuggust ekki við af flm., sem er að öðru þekktur, og menn hafa ekki varað sig á. Nú er kominn tími til að fara að átta sig. Ég vona, að hv. þm. sjái einnig, hve hættulegt fordæmi það væri að taka til að rifta lögmætum gerðum fráfarandi ríkisstjórna á þann hátt, sem hér er lagt til. Það gæti dregið margan illan dilk á eftir sér. Frv. sem þetta má með engu móti samþykkja.

Ég hef leitt rök að því, að Sámsstaðir hafa alla kosti til að bera, sem nauðsynlegir eru fyrir bændaskóla. Ég hef einnig leitt rök að því, að fyrrv. ráðherra valdi skólastað eftir að hafa leitað umsagnar fimm sérfræðinga, hæfustu manna í þessari grein hér á landi. Skólinn er því löglega settur á Sámsstöðum. Og það er bein móðgun við Rangæinga að taka skólann þaðan aftur með valdi, þegar einu sinni er búið — að ákveða hann þar á ágætri jörð.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um staðinn Skálholt. Mér þykir vænt um hann sem sögustað. Og ég ætla ekki að neita því, að Skálholt er að mörgu leyti heppilegur staður fyrir skólann. En ég þykist hafa leitt rök að því, að Sámsstaðir eru a.m.k. ekki lakari og jafnvel betri. Þeir eru betur í sveit settir og hafa það fram yfir Skálholt að hafa 3 tilraunastöðvar mjög nærri. En þó að Skálholt verði af öllum, sem þangað koma, talið heppilegt til skólaseturs, þá er það ekki nóg til að réttlæta þá frekju og ágengni, sem lýsir sér í því að samþ. frv. um, að skólinn skuli vera þar, þrátt fyrir það, sem búið er að gera í þessu máli. Ég get ekki gert ráð fyrir því, að hæstv. Alþ. hafi svo sterkan hug á að þóknast Árnesingum sérstaklega, að það vilji ganga inn á vafasama og hættulega braut til þess, jafnvel þótt sýslunefnd Árnessýslu hafi samþ. áskorun um, að skólinn yrði settur þar. Ég held hæstv. Alþ. geti ekki undir neinum kringumstæðum tekið að sér þjónsstöðuna fyrir Árnesinga sérstaklega. Sýslunefndin taldi ekki sjálfsagt, að skólinn væri í Skálholti. Ég ætla, að flestir áhrifamenn sýslunnar hafi talið, að skólinn ætti að vera annars staðar, t.d. í Laugardælum. Laugardælum er í því sambandi talið það mest til gildis, að þeir eru vel í sveit settir, en Skálholt illa. Það hefur verið talað um, að í Skálholti væri jarðhiti. En Árnesingar ætluðu alveg að ganga fram hjá jarðhitanum með því að velja Laugardæli. Þar eru að vísu volgar laugar, en þær eru ekki nógu heitar til þess að koma að nokkru gagni. En þar sem mér virðist menn leggja svo mjög upp úr hverahitanum, þá er rétt að benda á það, að hverinn er 21/2 km fyrir neðan Skálholt. Og það hefur einmitt verið talað um að byggja þar niðri frá. Ég kom að hvernum s.l. sumar. Þegar komið er þangað niður, er lokað fyrir allt útsýni nema til vesturs. Með því að byggja skólann þarna niðri í kvosinni, þá er alveg gengið fram hjá þeim kostum, sem snerta fagurt útsýni, en um það talar hv. 2. þm. Skagf. í nál. Það er annað að vera heima í Skálholti eða niðri í kvosinni við hverinn. En ef nota á hverinn, verður að byggja þar, því að ég ætla, að erfitt sé að leiða heita vatnið upp á móti. Það mundi a.m.k. hafa geysilegan kostnað í för með sér. Það hefur engum dottið í hug að minnast á það, að það væri óviðeigandi að láta skólann standa svo lágt. Enn fremur hefur enginn minnzt á, hve mikill kostnaður væri því samfara að leggja veg yfir mýrina. Það er auðvitað mjög ákjósanlegt fyrir þá menn, sem helzt vilja, að ríkissjóður legði enga peninga til þessara framkvæmda, að framkvæmdirnar væru svo dýrar og yxu svo í augum hv. þm., að ekkert fé verði veitt til þeirra. En ég veit, að hv. þm. Árn., sem toga í spottann á móti Rangæingum, vilja ekki, að málið sé svæft. Þeir eru okkur sammála um, að það sé ekki einungis nauðsynlegt fyrir Suðurland að fá skólann sem fyrst, heldur einnig þjóðina í heild.

Ég vil benda á grein, sem birtist í Þjóðviljanum fyrir stuttu, eftir dr. Björn Sigfússon. Ég býst við, að sumum hv. þm. hafi fundizt hún góð. Og hún var ágætlega skrifuð, eins og vænta mátti af þessum manni. Hann telur þar, að kenna eigi bændum jarðrækt við hverahita. Ég vænti, ef hv. þm. athuga þessi rök doktorsins, þá komist þeir að því, að þau eru harla lítils verð. Því að ef bændaskólum er ætlað að búa bændaefni undir að verða bændur, þá eiga þeir að búa þá undir það að verða bændur við þau skilyrði, sem þeir koma til með að búa við. En halda hv. þm., að margir bændur á Íslandi komi til með að búa við jarðhitaskilyrði? Ég býst við, að það verði fá prósent. Hitt er aftur nauðsynlegt, að kenna bændum fullkomna jarðrækt við venjuleg skilyrði, eins og hægt er að gera á Sámsstöðum.

Hv. 2. þm. Skagf. leggur mikið upp úr því, að áveituskilyrði eru fyrir hendi í Skálholti. Það er satt. Þau eru í tungunni, sem er 4–8 km frá Skálholti. Ef við hugsum okkur að halda áfram með gamaldags engjabúskap og allavega rányrkju, þá má leggja mikið upp úr tunguheyskapnum í Skálholti, en annars ekki. Það mætti þess vegna segja, að ekki sé rétt að leggja mikið upp úr því. Nú er Flóa- og Skeiðaáveitan að komast í þá framkvæmd, að þeim verður ekki breytt. Þeir bændur, sem búa í Flóanum, þurfa ekki að læra meira um áveitur en það, sem þeir hafa fyrir augunum dagsdaglega. En ef við hugsum okkur að kenna bændum að reka búskap við fullkomin framtíðarskilyrði, þá er ekkert leggjandi upp úr því, hvort áveita er á skólastaðnum eða ekki.

Þeir, sem hafa talað fyrir þessu frv., telja sjálfsagt að byggja skólann við hverinn, niðri í dældinni, að ég segi ekki gryfjunni, til þess að nota hverahitann. En þá er ekki heldur verið að endurreisa Skálholt, því að þegar farið er heim veginn þangað, efa ég, að húsin sjáist, ef þau standa niðri við hverinn. Og þá held ég, að hv. þm. geti verið sammála um, að menn, sem koma heim að Skálholti, munu verða fyrir vonbrigðum og segja: Skálholt er enn í niðurlægingu. Þar hefur ekki enn verið byggt upp. Og sannfærðir verða þeir um það, að hefja verður nýjar framkvæmdir í Skálholti, ef reisa eigi það úr rústum.

Ég er sammála þeim mönnum, sem vilja heiðra Skálholt og reisa það við að nýju. Ég vil, að kirkjan verði endurbyggð á þeim stað, sem gamla dómkirkjan stóð, og ég vil, að heima í Skálholti, þar sem gömlu húsin standa, komi reisuleg bygging. Ég held, að Skálholt verði bezt endurreist með því að fara að einhverju leyti eftir till. biskups. Þær eru hv. þm. kunnar. Eða að í framtíðinni verði byggður þar menntaskóli, eins og þar var áður. Það er alveg víst, að hjá því verður ekki komizt að byggja menntaskóla í sveit. Menntaskólinn í Reykjavík er orðinn allt of lítill fyrir Reykjavík sjálfa. En sveitafólkið telur sig hafa sama rétt til að ganga menntaveginn og þeir, sem í kaupstöðum búa. Og auk þess væru áreiðanlega margir Reykvíkingar fúsir að senda börn sín í menntaskóla, sem starfaði í sveit. Og alls ekki er það útilokað, að till. biskups og latínuskólabyggingin geti farið saman. Væri slíkt framkvæmt, þá má segja, að vegur Skálholts væri aftur orðinn mikill.

Það er leiðinlegt, hvað till. meiri hl. n., sem átti að velja skólastaðinn, eru mikið mótaðar af gamaldags búskaparlagi og þeirri hugmynd, að það sé fyrir mestu, að skólinn hafi yfir miklu landi að ráða. Það er eflaust nauðsynlegt, að skólinn hafi yfir töluverðu landi að ráða, en það er ekkert aðalatriði, að það sé sérstaklega stórt. Það verður ekki horfið að því ráði að reka hann með stórbúskaparlagi, heldur með sem svipuðustu sniði og búskapur bænda verður í framtíðinni, þ.e. með fullkomnari nýtingu landsins með fullkomnari aðferðum en nú tíðkast.

Skálholt hefur ekkert fram yfir Sámsstaði nema það að vera sögustaður. Það hefur haft áhrif á ýmsa hv. þm. og einnig mótað að nokkru leyti afstöðu n. þeirrar, sem ég nefndi áðan. Nefndin kemst t.d. þannig að orði í nál., að þessi frægi sögustaður þurfi endurreisnar við í líkingu við það, sem Hólar eru nú. Það er eðlilegt, að Skálholt hafi töluverð áhrif á menn. Sögustaðurinn Skálholt er mikils virði fyrir þjóðina. En þrátt fyrir það má sagan ekki ráða því, hvar bændaskóla verður valinn staður. Þar má ekkert koma til greina nema það, hvar skólinn er bezt settur.

Um leið og ég lýk máli mínu leyfi ég mér að bera fram rökstudda dagskrá, sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

Þar sem fyrrv. landbúnaðarráðherra hefur ákveðið, að bændaskóli Suðurlands skuli vera á Sámsstöðum í Fljótshlíð og vitað er, að sá staður er mjög heppilegur fyrir bændaskóla, enda mælir núverandi landbúnaðarráðherra eindregið með því, að skólinn verði settur þar, telur d. ekki þörf á frekari afgreiðslu frv. og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.