16.12.1944
Neðri deild: 94. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í B-deild Alþingistíðinda. (2043)

134. mál, bændaskóli

Helgi Jónasson:

Ég skal reyna að vera þinglegur, eftir því sem ég get, og tefja ekki umr. um skör fram.

Ég færði rök að því við 2. umr. þessa máls, að búið væri að stofna bændaskóla á Suðurlandi á löglegan hátt og þar hefði í öllu verið fylgt fyrirmælum l., og um það hafa engar deilur verið. En mér kemur ekki á óvart, þó að svona sé komið, því að ég veit vel, hvað á bak við liggur. Ég gat um það við 2. umr., að þetta yrði til þess, að við fengjum engan skóla, og um það er ég að sannfærast betur og betur af viðtali við ýmsa, sem fylgja Skálholti. Þeir gera það, af því að þeir segja: Það kemur aldrei skóli í Skálholti, og það er rétt. Þetta er eitt af því, sem hæstv. stj. á að koma fram í sinni nýsköpun, og þess vegna skýtur þetta dálítið skökku við það, sem hæstv. menntmrh. hélt fram í ræðu, sem hann hélt í útvarpið 1. desember, að hér þyrfti að stofna mikið af sérskólum, bændaskólum og húsmæðraskólum. Það er ekki nema lítill hluti af þeirri plötu, sem hér er sífellt verið að leika um nýsköpun og endurbætur. Ég hef ekki vitað, að hv. 2. þm. Árn. hafi fyrr látið hlunnfæra sig svo óskaplega að vera fylgjandi slíkri stj., en hann fær kaup fyrir það, og kaupið er, að bændaskóli Suðurlands kemur ekki nú og kannske aldrei, a.m.k. ekki fyrr en eftir fjöldamörg ár, um það er ég fullviss.

Ég ætla að gera eina fyrirspurn til hæstv. landbrh. Þegar Sámsstaðir voru valdir, þá var búið að semja um og tryggja nóg land fyrir skólann með sæmilegum kjörum. Nú vil ég spyrja um það, hvort nokkuð sé farið að ræða um það við hæstv. forseta þessarar d., með hvaða kjörum hann léti reka sig af jörðinni. Ég býst við, að hann sé nokkuð rétthár samkvæmt ábúðarlögunum. Mér dettur ekki í hug að halda fram, að hann ætli að beita ósanngirni. Ég býst ekki við, að það verði óaðgengilegra að semja við hann en aðra um það, hvaða skilyrði verði sett fyrir því, að hann láti vísa sér burt af jörðinni.

Ég veit vel, að þetta frv. verður að l. En það er raunalegt fyrir hv. 2. þm. Árn., hvernig hann sviptir sína umbjóðendur skóla, sem búið var að ákveða á löglegan hátt. Ég skal ekki hafa um það mörg orð, en það eru að koma í ljós hér á þingi ýmsar fjárveitingar, sem stjórnarþm. munu hafa fengið fyrir hjálp við fæðingu eins og þessi hv. þm. gerði og er nú að fá umbun fyrir. En svo er annað líka að koma í ljós, og það er, að þetta er allt leikur. Það á sem sé að svíkja þetta loforð, sem hv. 2. þm. Árn. var gefið fyrir að styðja stjórnina. Það er mér óhætt að fullyrða, nýsköpunin verður þannig. Það sést bezt á því, hvernig farið er að með áburðarverksmiðjuna, sem var búið að undirbúa og rannsaka af fyrrv. stjórn. Því máli var kippt til baka, það átti að rannsaka það, athuga það betur, og eins býst ég við, að verði með þetta mál, enda er ekki vanþörf á, að þetta frv. verði líka athugað betur og rannsakað, áður en hafizt er handa. Þar hefur stj. mikið til síns máls.

Ég sýndi fram á við 2. umr., að fyrst þyrfti að leggja í stórfellda brúargerð og vegarlagningu, til þess að hægt væri að koma nokkru byggingarefni á staðinn, þar sem skólinn á að vera. Ég sýndi einnig fram á, að það sjónarmið, sem vakti fyrir n., sem átti að athuga þetta mál, það er þurrkað burt, það sjónarmið að endurreisa Skálholtsstað. Nú er horfið frá því. Nú á að byggja skólann á allt öðrum stað, að vísu í Skálholtslandi, en það er ekki hægt að kalla það endurreisn á Skálholtsstað, ef skólinn er byggður frammi í tungunni milli Hvítár og Brúarár nokkra kílómetra frá Skálholti og sést ekki einu sinni heim á staðinn.

Málinu er tryggður framgangur á þessu þingi. Um það liggur fyrir stjórnarúrskurður og ráðstöfun, svo að ég fer ekki að beita hér málþófi. Ég vil mótmæla algerlega þessari aðferð og þeim rangindum, sem Sunnlendingar eru beittir með þessari málsmeðferð, sem hér er viðhöfð, og það er raunalegt til þess að vita, eftir þær miklu vonir, sem Sunnlendingar hafa gert sér um bændaskólann, að þm. Árn. skuli verða til að eyðileggja málið, vegna þess fólks, sem þar býr.