20.11.1944
Neðri deild: 77. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í B-deild Alþingistíðinda. (2057)

130. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Það hefur verið talað fyrir þeirri brtt., sem hér liggur fyrir, þótt ræðumaður hafi farið nokkuð víða yfir. Þessi ræða gaf að vissu leyti skemmtilegt tilefni til að ræða um dreifbýli og þéttbýli.

Mér skilst, ef ætti að fylgja hugsun ræðumanns út í æsar, að þá væri eitt af því fyrsta að leggja Austur-Skaftafellssýslu í auðn og flytja íbúana burt, því að mér skilst, að óvíða á landinu sé eins örðugt um samgöngur og skilyrði að ýmsu leyti eins slæm. Annars er þetta engan veginn ný hugmynd að vilja flytja fólkið til og jafnvel flytja alla af landi burt. Þetta höfum við haft á öllum harðindatímum. Það hefur oft verið vitnað til þess, hvað danska stjórnin ætlaði að gera 1788. (SigfS: Eru harðindatímar nú?) Ég skal koma að því síðar. Þá hafði hún svo mikla ótrú á landinu, að hún hélt, að fólkinu mundi líða miklu betur, ef það væri flutt úr landi til Danmerkur. Ég býst við, að enginn okkar harmi, að þetta var ekki gert. Og ég efa það ekki, ef einungis er litið á rafmagn og önnur þægindi, að þá sé hægt að láta fólkinu líða betur með því að safna því á Suðurlandsundirlendið og til Reykjavíkur. En hins vegar býst ég við, að þegar til lengdar léti, mundi enginn óska eftir því, frekar en óska eftir, að allir Íslendingar hefðu verið fluttir á Jótlandsheiðar. Það er ýmislegt fleira, sem kemur til greina. Það er nú einu sinni þannig, að landið er frekar stórt og gæði þess verða aðeins notuð með því að byggja dreift. Ætli það yrðu ekki æðimargir, sem vildu skipta á 100 punda varpi og laglegum túnskika? Það gæti ekki komið til mála, að þau hlunnindi, sem eru í landi hér og hafa verið frá ómunatíð, ætti ekki að nytja. En mjög mikið af þessum hlunnindum eru beinlínis tengd við útkjálka landsins. Og sumar þær sveitir, sem eru afskekktar, eru þrátt fyrir það með allra beztu sveitum þessa lands.

Ég held þetta sé alls ekki eins einfalt mál og mér virðist ýmsir vilja vera láta. Menn munu reka sig á það. Og það sýnir ekki annað en að þeir, sem þessu halda fram, hafa í raun og veru ekki trú á landinu eða á því, að þessi þjóð geti byggt þetta land. Þeir hugsa, að hún geti byggt einhverjar skákir kringum kaupstaðina, meira sé hún ekki fær um, því að annars væri ekki ástæða til að vilja eyðileggja þau verðmæti, sem þessi kynslóð og undanfarnar kynslóðir hafa skapað. Það getur ekki verið öðruvísi, ef svipta ætti þær öllum stuðningi hins opinbera. Ég skal svo láta útrætt um þetta mál, því að það er í útjaðri þessarar tillögu.

Ég vil benda ræðumanni á, að um þetta, sem brtt. kveður á um, er til gildandi ákvæði í jarðræktarlögunum, og það þarf ekki annað. Ef maður vill taka þetta nánar fram, ber að vísa til þeirra ákvæða. Þau er að finna í 6. kafla jarðræktarlaganna, nr. 54 frá 4. júlí 1942. Þar er þetta greinilega tekið fram og vonandi, að það þurfi ekki að gera því frekari skil.

Viðvíkjandi 3. lið brtt. vil ég benda á, að þar sem lagt er til, að ýmis byggðarlög sambandssvæðanna verði útilokuð frá þátttöku í ræktun, sem tillögumenn leggja til, að falli niður, þá hygg ég, að það hljóti að vera af misskilningi að einhverju leyti. Þetta ákvæði er sett þarna inn í til þess að fyrirbyggja, að jafnvel fátæk sveitarfélög, sem geta haft ágæta ræktunarmöguleika, verði út undan. Og þetta kemur til af því, að það er gert ráð fyrir í samþykktinni, að ef sýslufélög og stærri heildir gera ekki samþykktir, þá er smærri heildum heimilt að gera það. Þá er alltaf nokkur hætta, að þeir, sem eru efnaðastir, geri hjá sér samþykktir, og getur þá svo farið, að veigalitlir einstaklingar geti orðið út undan. En það væri hugsanlegt að gera tilvísun til jarðræktarl. viðvíkjandi þessu.

Að svo mæltu sé ég ekki ástæðu til að ræða þetta frekar að sinni, en vil skjóta því til hv. flm., hvort þeir vildu ekki taka till. aftur til 3. umr. Við munum þá athuga málið, og sérstaklega með tilliti til þessa ákvæðis jarðræktarl. Þá hygg ég, að málið verði bezt leyst.