27.11.1944
Neðri deild: 82. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1119 í B-deild Alþingistíðinda. (2065)

130. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. — Eins og þetta mál liggur fyrir, hefur hv. landbn. ekki viljað fallast á brtt., sem liggur fyrir á þskj. 494, og telur n., að ákvæði þessi séu að miklu leyti í jarðræktarlögunum. En þetta álít ég ekki rétt. Að vísu eru þessi ákvæði um það, að trúnaðarmönnum Búnaðarfélags Íslands sé sérstaklega ætlað að gefa skýrslur um þær jarðir, sem eru í hættu vegna ágangs náttúruafla. Hitt er svo kunnugt, að þessi

ákvæði hafa ekki verið notuð, og það hefur verið lítið af jörðum, sem hafa fallið undir þessi ákvæði. Þegar meta á eina jörð, þá er margt, sem verður að meta. Í fyrsta lagi ræktunarskilyrði, í öðru lagi samgöngur og hlunnindi, og þó að eitthvað af þessu vanti á jörðina, þá er hún ekki dæmd óbyggileg. En okkur virðist brtt. okkar hafa það fram yfir, að ákvæðin um þetta verði fyllri en áður og meiri líkur til, að þau ákvæði komi að gagni, þar sem þau beinlínis gera ráð fyrir því, að þegar búnaðarsambandsfundur hefur ákveðið að koma á jarðræktarsamþykkt í samræmi við þetta frv., þá sé það beinlínis skylda Búnaðarfélagsins að láta fara fram rannsókn á öllu byggða svæði sambandsins, með sérstöku tilliti til þessa atriðis. Annað atriði, sem ég vil benda á, er það, að síðara ákvæðið í jarðræktarl. er eðlilega ekki orðið annað en pappírsákvæði, þó að í 42. gr. sé það ákvæði, að sé eitthvað af jörðinni svipt jarðabótastyrknum, þá skuli greiða úr ríkissjóði helming þess verðmunar, sem reynist á söluverði og fasteignamatsverði húsa þeirra, er ábúandi átti á jörðinni, og í öðru lagi, ef reist er nýbýli. Þetta ákvæði er langt frá því að geta fullnægt í stað þess, að svipt er jarðabótastyrknum samkv. 39. gr. óðalslaganna. Í fyrsta lagi vantar ákvæði inn í l. um það, hvernig eigi að útvega þessum mönnum land, og í öðru lagi, þó að einhverjum mönnum væri útvegað land einhvers staðar, þá sjá allir. að menn hafa ekki möguleika til þess að halda heimilum sínum uppi. Að þetta ákvæði skuli enn vanta, er annaðhvort af því, að þeir menn, sem um þetta mál hafa fjallað, hafa ekki haft fullan skilning á því, sem hér um ræðir, eða þeir hafa ekki hugsað til þess, að þetta kæmi nokkurn tíma til framkvæmda. Brtt. okkar bæta að vísu ekki úr þessum galla jarðræktarlaganna, en ég tók það fram við 2. umr., að ég teldi ekki ástæðu til þess að koma með ákvæði um þetta, vegna þess að það lægi fyrir þinginu annað frv. um nýbýlasjóð og ég treysti því, að ef þessar brtt. yrðu samþ., þá yrði það frv. samþ. líka. Það frv. felur í sér það, sem við teljum vanta í jarðræktarlögin og í þetta frv. Ég hefði verið fús til þess að falla frá 2. lið brtt., en ég vil taka það fram að síðustu, að ef þessi brtt. verður felld, þá mun ég sitja hjá við atkvgr.