14.12.1944
Efri deild: 88. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í B-deild Alþingistíðinda. (2075)

130. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Frsm. (Páll Hermannsson):

Herra forseti. Það er alveg rétt, sem hv. 3.“ landsk. (HG) tekur fram, að hér fylgja ekki upplýsingar um kostnað, sem stafar af undirbúningi, athugunum og mælingum. Ég hef spurzt fyrir um það hjá þeim, sem fjallað hafa um þetta efni, hvort þeir hefðu athugað þessa hlið. Þeir hafa ekki gert það. Ég get ekkert upplýst um þetta, en býst við, að kostnaðurinn verði vel viðráðanlegur. Nú hagar svo til, að ekki er eins mikill munur á því í raun og veru og virðist, ef fljótt er á litið, hvort ríkissjóður ber þennan kostnað eða einhver annar aðili, til dæmis Búnaðarfélag Íslands. Það félag hefur mestar tekjur sínar úr ríkissjóði, og er því nokkurn veginn sama, hvort féð er greitt beint úr ríkissjóði eða látið ganga gegnum félagið. Þetta gæti breytzt í framtíðinni. Nú liggur fyrir frv., þar sem gert er ráð fyrir nýrri tekjuöflun fyrir Búnaðarfélag Íslands.

Annað atriði er það, hvort heppilegra væri, að búnaðarsamböndin eða rannsóknarsvæðin ættu verkfærin eða ríkið. Það er nokkurt álitamál. Mér virðist, að það mundi vera heppilegra og þægilegra, að rannsóknarsvæðin eigi þau. En af því að þetta er álitamál, getur svo farið, að síðar verði kveðið á um þetta á annan hátt en gert er hér.

Sé ég svo ekki ástæðu til að ræða þetta að öðru leyti.