08.01.1945
Efri deild: 93. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1132 í B-deild Alþingistíðinda. (2082)

232. mál, ráðstafanir vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Með l. nr. 98 9. júlí 1941, um heimild fyrir ríkisstj. til ráðstafana og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna, var ríkisstj. heimilað að fella niður tolla af ýmsum kornvörutegundum og lækka um helming þungatoll og verðtoll af alls konar sykri. Þessi heimild var svo endurnýjuð með l. frá 1943 og 1944, en féll úr gildi um síðustu áramót. Ríkisstj. taldi ekki verjandi annað en að leita framlengingar á þessum l. að nýju, þar sem það mundi hafa óhjákvæmilega í för með sér nokkra hækkun á dýrtíðarvísitölu, ef þessi tollaívilnun félli niður. Það er að vísu ekki gróðavegur fyrir ríkissjóð út af fyrir sig að viðhalda þessari tollalækkun. Tekjurýrnun fyrir ríkissjóð af þessari ívilnun mun nema kr. 11/2 milljón á ári. Þungatollur af sykri mun nema 585 þús. kr., verðtollur 281 þús. kr. og verðtollur af kornvörum 687 þús. kr. Þetta er sem næst 11/2 milljón. Ég vil taka fram, að þessar upplýsingar hef ég fengið frá Hagstofunni, og er innflutningur miðaður við árið 1943, en verðlagið við 1944. Þetta er ekki alveg nákvæmt, en skakkar ekki miklu. Aftur á móti mun dýrtíðarhækkunin, sem stafa mun af því, ef tollarnir koma aftur í gildi, nema sennilega allt að 2 stigum. Fyrir ríkissjóð út af fyrir sig borgar sig að fá tollana aftur. En með tilliti til þess, að hæpið þykir, að a.m.k. sumir atvinnuvegirnir í landinu þoli hærri dýrtíðarvísitölu en þegar er orðin, þótti ekki ráðlegt að eiga nokkuð á hættu í þessu efni. Þess vegna varð samkomulag í ríkisstj. að leita þessarar heimildar áfram. Hefur hv. fjhn., eins og formaður hennar gat um, flutt frv. fyrir ríkisstj. eftir beiðni hennar. Ég geri ekki ráð fyrir, að ástæða þyki að vísa málinu í n., þar sem það er fram borið af n., og vildi mælast til við hæstv. forseta, að hann flýtti fyrir framgangi frv. svo sem mögulegt er, því að ætlazt er til, að l. taki gildi frá síðustu áramótum. En nú stendur svo á, að skip er annaðhvort komið að landi eða von á því á næstunni. Mér er að vísu ekki kunnugt, hvort með því eru þær vörur, sem hér um ræðir, en ekki er það ólíklegt. Æskilegt væri að taka þetta frv. með afbrigðum til síðari umræðna.