15.09.1944
Neðri deild: 50. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1136 í B-deild Alþingistíðinda. (2122)

112. mál, kirkju- og manntalsbækur

Flm. (Jón Sigurðsson):

Það mál, sem hér liggur fyrir og ég er flm. að, er nýtt á vissan hátt. Ég hygg, að það séu í raun og veru ekki til nein l. um færslu kirkju- og manntalsbóka eða sálnaregistra. Þau ákvæði, sem ég gat fundið, eru í fyrsta lagi í biskupsbréfi frá 1746, þar sem svo er fyrir mælt, að prestar skuli gera skrá yfir fædda, dána, gifta og fermda og sálnaregistur. Það var fyrst með konungsbréfi frá 1812, að prestum er gert að skyldu að færa kirkjubækur. Í þessu konungsbréfi er svo til ætlazt og mælt svo fyrir, að kirkjubækur skuli vera í tvíriti, og enn fremur tekið fram, að prestur færi annað eintakið, en hitt djákninn eða annar trúverðugur maður. Þessu mun hafa verið fylgt nokkurn veginn til 1880, en eftir þann tíma hverfur mikið til annað eintakið, og eftir 1900 hefur engin tvíritun átt sér stað.

Það er bersýnilegt af þessu konungsbréfi, að tilgangurinn með þessu er sá, að þótt svo færi, að kirkjubækur brynnu eða glötuðust á annan hátt, þá væri þó alltaf tryggt, að hitt eintakið væri til, og það var meira að segja svo strangt ákveðið í þessu konungsbréfi, að aldrei skyldi koma fyrir, að báðar bækurnar væru samtímis undir sama þaki.

Nú hefur reynslan sýnt og er búin að margsýna, að þessa ákvæðis í konungsbréfinu hefur verið þörf. Þeir eru nær því óteljandi brunarnir á prestsetrum, frá því að þetta konungsbréf kom út, og í mjög mörgum tilfellum hefur hlotizt af því, að fleiri eða færri kirkjubækur hafa brunnið. Það eru fjöldamargar sóknir og prestaköll á landinu, sem eiga ekki eina einustu kirkjubók, hvorki sálnaregistur né manntalsbækur, sum um hundrað ára skeið. T.d. á það prestakall, sem ég er í, engar kirkjubækur til, aðeins lítils háttar slitur af sálnaregistri frá 1815 til 1919, svo að hvorki ég né fjöldamargir sveitungar mínir getum lagt fram plögg um það, að við höfum fæðzt eða verið til. Ég nefni þetta aðeins sem dæmi, en svona er hægt að benda á fjöldamörg dæmi víða á landinu. Maður þarf ekki annað en fara á þjóðskjalasafnið og kynna sér, hvað er til af slíkum bókum þar.

Svo er annað, að mörgum mönnum finnst sárt að þurfa að láta þessar bækur frá sér, þar sem í þeim eru fjöldamargar heimildir um héraðið, sem þeir vilja ógjarnan missa. Þetta hefur líka orðið til þess, að ýmsir hafa haldið þessum bókum miklu lengur en þeir hafa raunverulega leyfi til, og hefur það orðið til þess, að bækurnar hafa misfarizt í brunum eða á annan hátt.

Í þessu frv. er tekin upp sú gamla tilskipan, að kirkjubækur skuli tvíritaðar, og það á þann veg, að til þess að þetta verði sem auðveldast, þá sé það sóknarn., hver í sinni sókn, sem eigi að sjá um annað eintakið, og einhver maður, sem sóknarn. velur til þess, færi inn í bókina og varðveiti hana. Þetta verður að sjálfsögðu að vera í fullu samstarfi við prestinn, sem gefur allar upplýsingar þar að lútandi, en viðast hvar er þetta hverfandi lítið verk fyrir þá menn, sem þar eiga hlut að máli. Þeir eiga hvort eð er að færa skrá í bækur sínar yfir alla gjaldendur til sóknarinnar, og þá munar ekki mikið, hvað manntal snertir, þó að þeir færi einnig þá, sem eru innan við 15 ára aldur. Það er þess vegna óhætt að segja, að þetta sé tiltölulega lítil fyrirhöfn, samanborið við ávinninginn, sem hlyti af því að verða. Hér er um tilraun að ræða til að varðveita mjög merkilegar heimildir, og þegar þessi skipan er komin á, þá eru sveitirnar eða héruðin ekki lengur svipt þessum heimildum.

Ég sagði, að mörgum mönnum væri sárt um að missa þessar bækur vegna heimildanna, sem þær hafa að geyma, en með tvírituðu bókunum er gert ráð fyrir, að bækurnar gangi til héraðsbókasafnanna, og eru héruðunum þannig líka tryggðar þessar bækur til eignar og afnota. Ég veit líka, að í margra augum er það ekki ómerkilegt atriði, að víða úti um sveitir eru menn, sem unna íslenzkum fræðum, bæði sagnfræði og ættfræði og hvers kyns mannfræði, og gjarnan vilja stunda þær fræðigreinar í tómstundum sínum, en hafa engin tök á að dveljast langdvölum í Reykjavík, því að öllum slíkum heimildum er sópað hingað.

Ég álít beinlínis metnaðarmál fyrir héruðin að reyna að varðveita slíkar heimildir á öruggum stöðum í héraðinu fyrir þá menn, sem áhuga hafa á því, svo að íbúarnir hafi afnot af þeim. Þetta hlýtur að vera einn þáttur í menningarbaráttu sveitanna að tengja þannig saman og hlýtur ávallt að byggjast á að tengja saman fortíð og nútíð.

Það má segja, að héraða- og kaupstaðabókasöfn hafi fengið með þessu ný verkefni, sem ég tel ekki ómerk. Það hefði átt að vera búið að taka það upp víðs vegar um landið. Ég vil hvetja til þess að safna ýmsum óprentuðum heimildum, sem oft geta verið á við og dreif um héraðið, en verða síðar meir mikils virði sem heimild að sögu héraðsins. Slíkar heimildir glatast nú margoft, vegna þess að enginn staður er til að geyma þær og enginn hirðir heldur um að safna þeim.

Ég skal geta þess, að ég hef borið þetta frv. undir forstöðumann þjóðskjalasafnsins og starfsmenn þess og sömuleiðis biskup. Hafa þeir tjáð mér, að þeir teldu mjög æskilegt og enda nauðsynlegt, að slík ákvæði kæmust í l. Ekki sízt er þeim á þjóðskjalasafninu kunnugt um, hvernig þetta hefur margoft farið forgörðum.

Ég fjölyrði ekki frekar, en vænti skilnings manna í hv. d. Það getur verið álitamál um nefndina, en af því að þetta er menningarmál, finnst mér eðlilegast að vísa málinu til menntmn. og legg það því til.