15.09.1944
Neðri deild: 50. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1138 í B-deild Alþingistíðinda. (2123)

112. mál, kirkju- og manntalsbækur

Sveinbjörn Högnason:

Ég er hv. flm. sammála, að mikil nauðsyn er löggjafar um bókhald við prestþjónustu úti um land og það sem fyrst. Hins vegar er ég ekki alveg viss um, að hér sé bent á einu réttu leiðina til úrbóta, og kemur þetta vitanlega til athugunar í n. Fyrir því vil ég skjóta fram nokkrum aths. Það þarf sérstaklega að fá lagfæringu í það horf, að til séu fullkomnar heimildir í landsbóka- eða þjóðskjalasafninu, sem fræðimenn hafi aðgang að, og líka heima í héraði, eins og hv. flm. sagði, og það í víðtækari mæli en þskjs. hefur nú leyfi til. En það hefur nú tekið bækurnar, jafnan þegar þær eru fullfærðar, og það jafnvel án vitundar prestsins, en um slíkt veit ég dæmi. Það er bagalegt að hafa ekki slík skjöl til heima í héraðinu, þar sem það tekur oft talsverðan tíma að fá vottorð frá Lbs. Hins vegar þarf að vera trygging fyrir, að þau glatist ekki eða skemmist og séu ávallt tiltæk þeim, sem nota vilja þau til fræðiiðkana.

En mér skilst, að með því, sem hér er lagt til, sé þetta ekki að fullu tryggt. Hér er tvennt, sem þarf að lagfæra: að tryggja, að heimildirnar glatist ekki, og í öðru lagi, að þær skemmist ekki. En þetta tvennt kemur iðulega fyrir, alveg eins og hv. flm. benti á. Þær glatast með ýmsu móti, t.d. í bruna og flutningum. Mér er líka kunnugt, að ekki mjög gamlar bækur eru lítt læsilegar á mörgum köflum, vegna þess að þetta er eina eintakið og notað daglega, en ekki til almennileg geymsla á heimilinu. Prestsetrin eru mörg ekki betur hýst en svo, að ómögulegt er að geyma óskemmda bók eitt einasta ár, hvað þá lengur. Þegar ég bjó eitt ár á prestsetri norðanlands eða einn vetur, skemmdist allt bókasafn mitt, hver einasta bók, af því að enginn staður var til í bænum ólekur. Þannig er þetta á mörgum prestsetrum. Sama mundi náttúrlega gilda um húsakynni hjá mörgum bændum eða sóknarnefndarformönnum. Ég held því, að tilgangurinn væri betur tryggður með því, að bækurnar væru færðar af prestinum og geymdar á prestsetrinu, eins og nú er gert, og presturinn afritaði árlega og sendi afritið til Lbs. með öðrum skýrslum, sem hann sendir árlega frá sér. Skýrslurnar geta verið þannig gerðar, að gott sé að festa þær inn í lausblaðakápu. Ef þessar skýrslur eiga að vera í förum um sveitirnar og í notkun þannig um mörg ár eða áratugi, geta þær verið orðnar stórskemmdar, þegar að því kemur, að þær eiga að fara í Lbs. Auk þess er æskilegast fyrir Lbs. að geta haft heimildirnar sem nýjastar. A.m.k. höfum við prestar orðið varir við, að bókaverðir eru mjög ágengir að taka bækurnar, helzt áður en þær eru fullskrifaðar.

Þessu vildi ég aðeins skjóta fram fyrir n. Ég álít mjög nauðsynlegt að taka til rækilegrar yfirvegunar, hvernig eigi að koma fram þessu tvennu: að hafa heimildir þessar varðveittar óskemmdar á einum stað heima í héraði, en einnig í Lbs. Þykir mér líklegt, að n. kalli sér til aðstoðar og ráðleggingar þá menn, sem þetta mál skiptir mestu. Þjóðskjalavörður mun nú eiga sæti í n., en þá eru enn fremur biskup og skrifstofustjóri hans.