16.11.1944
Neðri deild: 75. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í B-deild Alþingistíðinda. (2130)

112. mál, kirkju- og manntalsbækur

Sveinbjörn Högnason:

Við 1. umr. málsins hafði ég bent á, að æskilegt væri, að þessu yrði fyrir komið á annan hátt en í frv. Það, sem fyrir flm. vakti, var, að bæði væru til heima í héraði og í þjóðskjalasafninu kirkjubækur, sem færðar væru eins langt fram og hægt væri að gera kröfur til. Ég hefði talið réttara, að hvert prestakall héldi alltaf sínum bókum, en prestum væri gert skylt að senda árlega eftirrit af þeim til þjóðskjalasafnsins, sem gæti síðan látið binda þau eftirrit í bækur og geymt til sinna nota. Þetta hefur n. ekki tekið til greina, heldur kýs þá leið, sem frv. til tekur og ég tel miklu verri. Ég þori að fullyrða, að mest er þörfin fyrir kirkjubækur heima í héraði. Það hefur lengi valdið mjög miklum óþægindum, þegar búið er að senda kirkjubækur að heiman, áður en þorri þess fólks er horfinn, sem þar er skráður, og þó munu allir sóknarprestar hafa verið mjög íhaldssamir með að senda frá sér bækurnar fyrr en í síðustu lög. Það mun ekki vera nema á örfáum stöðum, sem það hefur getað komið fyrir, að sama kirkjubókin væri notuð 70–80 ár, sjaldan lengur en 10–20 ár, og eigi að afhenda þær í síðasta lagi 15 árum eftir það, er e.t.v. flest fólk á lífi, sem þar er skráð. En svo ríkt hefur verið eftir bókunum gengið, að árekstrar hafa orðið milli presta og safnsins, og hef ég sjálfur sögu af því að segja. Svo langt var gengið, að áreið var stundum gerð heim á prestsetur og kirkjubók numin brott án vitundar prestsins.

Ég tel nauðsyn, að tryggt sé, að bækurnar verði heima í prestakallinu sjálfu. Ég sé ekki betur en þörf þjóðskjalasafnsins sé miklu betur fullnægt með því að láta presta senda afrit heldur en með aðferð frv., og móti því ættu engir að vera nema helzt prestarnir, sem fyrirhöfnin væri lögð á. En það munu þeir kjósa miklu heldur en láta bækurnar. Ég mótmæli því alveg, að lögfest verði að taka frumritin af prestaköllunum 15 árum eftir að hætt er að skrifa í þau. Bækurnar má ekki taka fyrr en eftir a.m.k. 70–80 ár, þegar fólkið, sem þar er skráð, er að mestu horfið.