16.11.1944
Neðri deild: 75. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1141 í B-deild Alþingistíðinda. (2131)

112. mál, kirkju- og manntalsbækur

Frsm. (Barði Guðmundsson):

Það vildi svo til,. þegar þetta frv. var til 1. umr., að ég var fjarstaddur vegna sjúkleiks og heyrði ekki málfærslu hv. þm. V.-Sk. En á fundi n. gat hv. þm. a.-Sk. um till. hans, að vísu ekki fyrr en búið var að samþ. um afgreiðslu málsins í n., en ég býst ekki við, þótt fyrr hefði verið frá henni skýrt, að n. hefði lagt til að hverfa frá þeim hætti, sem frv. vill á þessu hafa. Hv. þm. V.-Sk. var að ræða um ýmiss konar óþægindi, sem hlotizt hefðu af því fyrir fólk, að kirkjubækur voru ekki kyrrar í prestaköllum. Ég veit ekki betur en með frv. sé verið að reyna eins fullkomna bót á þessu og unnt er og engu verri en yrði með aðferð hv. þm. V.-Sk. En þegar kirkjubækur liggja hver í sínu prestakalli og fólk, sem statt er annars staðar á landinu, þarf að ná til þeirra, verða oft að því mikil óþægindi, að ég ekki nefni Vestur-Íslendinga, sem alltaf eru að leita til okkar um vottorð úr kirkjubókum.

Ég veit, að þm. hlýtur að viðurkenna, að það er ákaflega óheppilegt, að sama embættisbókin sé mjög lengi í notkun. Dæmi, sem hann álítur mjög fá, um 70–80 ára notkun, eru það ekki, og mætti, ef þyrfti, færa til tölurnar um langa notkun.

Hann ræddi einnig um árekstra milli presta og safnsins. Ég get fullyrt um þann áratug, sem ég hef verið þjóðskjalavörður, að aldrei hefur orðið árekstur um þetta milli presta og mín eða annarra starfsmanna safnsins, enda hef ég yfirleitt hliðrað til við presta, þegar þeir hafa óskað undanþágu um stund, og þeir hafa aldrei gert um það ósanngjarnar kröfur. Ég veit því ekki, hvaða misklíðir hv. þm. á við.