09.03.1944
Efri deild: 25. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í B-deild Alþingistíðinda. (214)

31. mál, sparisjóðir

Frsm. (Pétur Magnússon):

Eins og sjá má á þskj. 182, hefur fjhn. orðið sammála um að mæla með, að þetta litla frv. verði samþ. óbreytt.

Það eru aðeins tvö ákvæði, sem breytt er lítils háttar á gildandi l. um sparisjóði, svo að hér er ekki um neinar stórfenglegar breyt. að ræða.

Í gildandi l. um sparisjóði eru engin fyrirmæli um það, hvernig farið skuli að, ef sparisjóður verður gjaldþrota eða lagður niður á annan hátt. En í þessu frv, er lagt til, að hæstv. dómsmrh. skipi þá tvo skiptaforstjóra, er auglýsa innköllun til sparifjáreigenda og annarra skuldheimtumanna á venjulegan hátt, krefja inn skuldabréf hans og selja eignir hans.

Ástæðan til þess, að þessi leið er farin, er sú, að svo mun vera litið á, að skiptaréttur hafi ekki aðstöðu til þess að standa fyrir skiptum sparisjóða, og er nauðsynlegt að fá til þess menn, sem geta litið eftir rekstri sjóðsins, meðan á skiptunum stendur, en það mun verða örðugt fyrir hinn reglulega skiptaráðanda, sem er bundinn við sitt embætti.

Hin breyt. er sú, að ef sparisjóður hættir störfum, án þess að um gjaldþrotaskipti sé að ræða, er skilanefnd, sem aðalfundur kýs, heimilt að gefa út innköllun til skuldheimtumanna á venjulegan hátt. Innköllunarfrestur skal eigi vera styttri en sex mánuðir.

Þetta eru einu breyt., sem um er að ræða, og þar sem fjhn. var sammála um, að báðar þessar breyt. væru eðlilegar og til bóta, varð hún sammála um að mæla með því, að frv. næði fram að ganga.