12.12.1944
Neðri deild: 90. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1146 í B-deild Alþingistíðinda. (2152)

112. mál, kirkju- og manntalsbækur

Sveinbjörn Högnason:

Ég verð að segja, að mér finnst það koma úr einkennilegri átt, þegar menn heyra rödd frá forstöðumanni þjóðskjalasafns eða öðru slíku bókasafni og skjalaverði, sem byggist á jafnlítilli skynsemd og þessi ræða. Ég hygg, að eitt hafi verið rétt af því, sem hann sagði, en það var, að hann óttaðist, að hann mundi hafa svo annstrangt, að hann gæti ekki haldið öllu safninu í röð og reglu, eins og hverjum bókaverði er gleði að gera, sem vill hafa reglu á hlutunum.

Ég skal svo víkja að þeim blekkingum, sem hann var hér með, sem mig furðar á, að jafngreindur maður og athugull skuli láta henda sig að bera fram í áheyrn svo margra manna og skynugra sem eru hér í þessari hv. d. Hann kemur hér fram með afrit af kirkjubókum og segir, að versti fjandi safnanna sé hinn mikli óskrifaði pappír og að af honum verði svo mikið, ef skýrslurnar séu sendar árlega, því að það sé ekki hægt að skrifa nema á aðra síðuna. Hann tekur sem sönnunargagn fermingarskýrslur presta, sem eru svo útbúnar, að ekki er prentað frá hans hendi nema öðrum megin á blaðið. Það skilur hver maður, að auðvelt er að búa skýrsluform þannig út, að hægt sé að skrifa beggja vegna, eða er það einhver ný fræði frá þjóðskjalasafninu á Íslandi, að ómögulegt sé að skrifa nema öðrum megin, ef blöðin eru laus? Það er kyndug fræði frá mínum bæjardyrum séð, og ég vil óska skýringar á því frá hv. 5. landsk., sem er þjóðskjalavörður á Íslandi, hvers vegna sé ófært að útbúa slík skýrsluform handa prestum og öðrum þannig, að skrifa megi á blöðin beggja vegna (BG: Já, sú skýring skal koma.) Ég veit, hvað hann ætlar að koma með. Hann ætlar að segja, að í hverju prestakalli séu svo fá nöfn, að þau útfylli ekki blöðin. En hvers vegna ekki að hafa þau þá þannig úr garði gerð, að skrifa megi fleira en eitt á sama blað? Það er auðvelt að hafa þessi skýrsluform þannig, að skrifa megi á þau bæði fermingar, giftingar, skírnir og greftranir, allt á sama blað og báðum megin á það. Þessu má haga eftir því, hvernig prestaköllin eru, og hver einasti prestur mundi geta á klukkutíma útbúið form fyrir slíkar skýrslur, svo að bókavörðurinn þyrfti ekki að mæðast mikið yfir þessum auða pappír, sem hann óttast svo mjög. M.a. skyldi ég bjóðast til að búa út fyrir hv. 5. landsk. form af eyðublöðum, sem útilokaði, að meiri eyður væru á afritunum en bókunum sjálfum, sem hann var að sýna hérna. Vildi ekki hv. 5. landsk. koma með afrit nokkurra kirkjubóka af landsbókasafninu og vita, hvort ekki eru tugir blaða óritaðir í kirkjubókunum sjálfum, því að menn vita, að bækurnar eru þannig útbúnar, að mikið er af auðum blöðum, þó að búið sé að útfylla dálkana fyrir fædda, skírða, gifta o.s.frv. Þetta veit ég, að hann þekkir svo vel, að ég þarf ekki að kenna honum neitt í því efni. Það er ekki ósennilegt, að þessi bók, sem hann hefur hérna, hafi tugi af óskrifuðum blöðum, þó að hann hafi aðeins sýnt dálkana yfir fædda og skírða. Þeir eru alltaf útskrifaðir, því að það er minnst pláss ætlað fyrir þá. Þetta er því ekkert annað en hreinasta blekking frá upphafi til enda. Það kom líka í ljós með þessar fermingarskýrslur, að blöðin eru aðeins strikuð öðrum megin, og ekki ætlazt til, að skrifað sé nema þeim megin. Annars er ekkert hægara en láta strika blöðin beggja vegna og láta prestinn skrifa beggja vegna.

Þá sagði hv. þm., að ég hefði sagt við 2. umr. málsins, að ég vildi ekki gefa tvo aura fyrir 50 ára gamlar kirkjubækur. Ég sagði, að ég vildi ekki gefa tvo aura fyrir bækur, sem væru búnar að ganga manna á milli í 50 ár og geymast misjafnlega. Aftur á móti eru margar hundrað ára og mörg hundruð ára gamlar bækur, sem ég vildi gjarnan eiga. Eins og hann ætti að þekkja bezt af landsbókasafninu, þá eru margar bækur, sem flækzt hafa lengi á milli, orðnar ónothæfar, og ef þær ættu að ganga enn lengur á milli og færast af mörgum mönnum, þá er gefið, að slík eintök yrðu einskis virði. Með þeim till., sem ég flyt, er tryggt, að alltaf fáist í þjóðskjalasafninu afrit af kirkjubókum, sem hefur ekki gengið á milli neinna og er alveg nýtt og óveikt. Þá eru þær margfalt meira virði en ef þær ættu að ganga manna á milli um hver áramót, taka af þeim afrit í mörgum sóknum og kæmu svo til landsbókasafnsins eftir 50 ár. Ég ímynda mér, að það væri ekki neinn hagur fyrir þjóðskjalasafnið. Það, sem þessi mótstaða hv. þm. byggist á, er efalaust ekkert annað en það, að hann telur eftir sér að taka við skýrslum árlega, raða þeim niður og færa inn. En þá væru líka alltaf nýjar prestsbækur til dags „dató“, heldur en eins og núna að hafa þær ekki fyrr en eftir 60 eða 100 ár. Vitanlega er það aukið starf, en til hvers er stofnunin og bókaverðirnir og starfsmennirnir, ef þeir eiga ekki að halda slíkum hlutum í lagi og helzt fá bækurnar óvelktar og í sem beztu ásigkomulagi? Ég verð því að segja, að þessi mótbára hv. 5. landsk. byggist ekki á skynsemi, — ekki einu sinni á minnsta snefli af því, sem hagnýtt er í þessu efni. Hún byggist eingöngu á einhverri sérstakri afturhaldssemi og mótþróa, að vilja ekki breyta nokkurn skapaðan hlut til frá því, sem áður var, þó að hann viti, að á mörgum sviðum eru bækur, sem hann hefur fengið, í óhæfu ástandi og þeim aðferðum, sem eru við hafðar, ávant í stórum stíl. (BG: Ég er ekki flm. frv)

Hv. 5. landsk. talaði um, þegar hann sýndi prestsbókina, að svona litu afritin út, er farið væri eftir frv. Þetta eru hreinustu ósannindi. Það er alls ekki ætlazt til eftir frv., að afrit af kirkjubókunum séu tekin í heilu lagi, heldur í hverri einstakri sókn, og það er auðvitað fært inn mismunandi eftir sóknum, því að töluröðin á fæddum, dánum, skírðum eða giftum er ekki eins rétt í þeim afritum, sem tekin eru fyrir bókasöfn heimilanna.

Ég sé svo í raun og veru enga ástæðu til að vera að ræða þetta meira. Það upphlaup, sem hv. 5. landsk. var að gera um þetta, er frá mínum bæjardyrum gersamlega óskiljanlegt. Það er ekki rætt neitt um hið praktíska fyrirkomulag á þessum hlutum, enda virðist hv. þm. hafa sáralítinn áhuga á að færa þetta með samvinnu í það lag, sem hentugast væri, bæði fyrir þá, sem þurfa að nota þessar heimildir síðar, og þá menn, sem eiga að starfa að því að gera heimildirnar sem beztar úr garði. Fyrir sóknarprestana er líka metnaðarmál, að bækur þeirra og skýrslur séu góðar heimildir, vel færðar og í góðu lagi, en ekki í tómum brotum. Bækurnar kannske eyðilagðar af því að flækjast í illum geymslum og að margir hafa handfjatlað þær.

Ég vil þess vegna vonast til, þar sem ég er sannfærður um, að brtt. minar ná fullkomlega eins vel upphaflegum tilgangi flm. og áreiðanlega geðfelldari þeim mönnum, sem eiga að útbúa heimildirnar, og betri fyrir þjóðskjalasafnið, þó að þjóðskjalavörður sjái það ekki, að það sé athugað hlutdrægnislaust, hvað heppilegast er í þessu efni. Ég efast ekki um, að hver maður, sem leggur þetta niður fyrir sér hlutdrægnislaust, sér, að þær eru heppilegri fyrir alla og ná tilganginum betur en upphaflega frv.