12.12.1944
Neðri deild: 90. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1148 í B-deild Alþingistíðinda. (2153)

112. mál, kirkju- og manntalsbækur

Jón Sigurðsson:

Ég vil leyfa mér að þakka n. fyrir afgreiðslu þessa máls. — Ég var ekki viðstaddur, þegar málið var tekið til 2. umr., en út af þeim umr., sem hér hafa farið fram, vil ég taka fram, að mér er það ekki neitt kappsmál þannig lagað, en það, sem fyrir mér vakti og vakir, var í fyrsta lagi að tryggja, að alltaf væru til tvö samrit af kirkjubókunum, svo að öruggt væri, þó að ein slík bók færist, að til væri annað samrit, sem treysta mætti og hægt væri þá að taka afrit af. Þetta var fyrir mér aðalatriðið í flutningi málsins.

Hitt atriðið, sem ég lagði mikla áherzlu á, var að tryggja héruðunum, að þau fengju ávallt annað samritið. Það lægi heima í héraðinu hjá viðkomandi sýslu- eða héraðsbókasafni, því að ég taldi samkv. þeirri reynslu, sem margfaldlega hefur fengizt, að það mundi vera tryggara en þeim væri dreift hingað og þangað út um allar sýslur. Ég geri fastlega ráð fyrir, að von bráðar verði komið þeirri skipan á, að hvert hérað eigi sitt bóka- og skjalasafn, þar sem slíkar bækur eru vandlega geymdar og betur tryggðar en þegar þeim er dreift út um héruðin hingað og þangað hjá prestum í misjafnri .geymslu, eins og ávallt vill verða, þegar svo er.

Það, sem ég tel, að skorti hér á við brtt. hv. þm. V.-Sk., er, að héraðsbókasöfnunum eru ekki tryggðar þessar bækur. Í brtt. er gert ráð fyrir, að þær séu geymdar á prestsetrunum og prestarnir geti haldið afritunum, e.t.v. hundrað ár. Í öðru lagi tel ég, að fyrirkomulag það, sem frv. gerir ráð fyrir, tryggi betur en með brtt., að bækurnar séu rétt færðar. Ég hef rekið mig á það, — og ég býst við allir þeir, sem eitthvað hafa grúskað í gömlum kirkjubókum, — að þar eru eyður og stundum undarlegar eyður og bersýnilegt, enda vitað, að nöfn og mikilsverðar athafnir hafa beinlínis fallið burtu. Ég gæti nefnt ýmis dæmi því til sönnunar, sem eru vel kunn. Ég er sannfærður um, ef sú skipan er höfð á, sem gert er ráð fyrir í frv., að einhver valinn maður kæmi heim í prestakallið og tæki afrit, þá gæti ekki hjá því farið, að hann ræki minni til, að þessi og hinn atburður hefði skeð, þessi hjón verið gift, þetta barn skírt o.s.frv. Þetta eru viðburðir, sem alloft hafa alveg fallið burtu af vangá hjá prestunum.

Þetta tel ég nokkurt öryggi eða talsvert öryggi fyrir rétta færslu kirkjubóka og geri bækurnar verðmætari en ella, því að segja má, að í þessu felist á vissan hátt endurskoðun, sem er mikils virði. — Þá er náttúrlega, svo að ég snúi mér að brtt., ekki því að leyna, að því miður hafa verið nokkur brögð að því hjá einstökum prestum eins og hjá öðrum embættismönnum, að borið hefur á vanrækslu á þessu sviði, og það mun ekki vera dæmalaust, að ekki sé fært í kirkjubækur jafnvel árum saman, — skírnir, fermingar o.fl. sé á lausum blöðum í bókunum. Þetta mundi vitanlega ekki geta gengið með þeim hætti, sem gert er ráð fyrir í frv. mínu, vegna þess að þeir, sem kæmu heim á heimili prestanna til þess að að taka afrit af bókunum, mundu krefjast að fá þessar síður. Og ég vil fullyrða, að þeir prestar væru fáir, sem ekki notuðu tækifærið til að færa inn í prestþjónustubækur sínar um leið.

Þetta allt saman tel ég frv. til gildis, og ég geri ekki mikið úr því, að þessar bækur verði sérstaklega þvældar, þó að einhver valinn maður úr hverri sókn kæmi heim á prestsetrið og tæki afskriftir af bókunum. Það mundi víðast hvar ekki taka nema dagsstund, ef sæmilega góður skrifari væri að, og viða ekki nema örfáa klukkutíma. Auk þess þurfa sóknarnefndarformenn að færa inn í bækurnar hjá sér skrá yfir alla, sem eru gjaldskyldir til prests og kirkju, og þarf því aðeins að bæta við þeim, sem eru innan við 16 ára aldur. Ég get þess vegna ekki gert mikið úr því.

Aftur á móti játa ég, að það er eitt atriði, sem brtt. hv. þm. V.-Sk. stendur mínu frv. framar um, og það er, að sóknarpresturinn sendi eins og bráðabirgðaskrá eða skýrslu til safnsins, svo að safnið hafi á hverjum tíma aðgang að því, sem komið er í bækurnar, áður en þær eru færðar. Það tel ég vera til þæginda fyrir söfnin. En að öðru leyti, hvað snertir þarfir þjóðskjalasafnsins, þá verð ég að líta svo á, að þjóðskjalavörður sé okkur öllum dómbærari um þarfir safnsins, og hvað því hentar bezt einmitt á þessu sviði. Ég beygi mig því fyrir því, enda hefur hann réttilega bent á, að bækurnar skuli ekki afhenda fyrr en eftir 50 ár, þegar þær eru afskrifaðar.