12.12.1944
Neðri deild: 90. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1149 í B-deild Alþingistíðinda. (2154)

112. mál, kirkju- og manntalsbækur

Frsm. (Barði Guðmundsson):

Hv. þm. V.-Sk. virtist gera sér mikinn mat úr því, sem ég sagði viðvíkjandi pappír, sem kæmi í þjóðskjalasafnið, ef svona fyrirkomulag væri notað. Hann tók fram, að lítill vandi væri að ráða bót á slíku, og bar mér heimsku á brýn, að ég skyldi leyfa mér að nefna þetta. Það væri mjög auðvelt að hafa skýrsluformin miðuð við hvert einstakt prestakall. En hv. þm. benti ekki á, hvernig ætti að koma þessu fyrir.

Svo var hv. þm. að bera mér á brýn, að afstaða mín í þessu máli mótaðist af því, að ég vildi ekki hafa meira umstang í þjóðskjalasafninu en væri. Ég hugsa, að lítið kæmi til minna kasta að raða þessum skýrslum eða sjá um meðferð þeirra, en annars vil ég alveg vísa svona dylgjum frá mér sem óviðeigandi á þessum stað.

Aftur á móti er rétt að minnast á það, sem hv. þm. sagði um óþægindin, sem sóknarprestarnir hefðu af því, ef þetta frv. yrði samþ. óbreytt, því að þá þyrftu sóknarnefndarformenn að koma heim á heimili prestanna, setjast þar upp og taka af skriftir. Þvílík óskapleg óþægindi fyrir sóknarprestinn á Breiðabólsstað eða annars staðar að taka á móti virðulegum sóknarnefndarmanni eina kvöldstund eða svo, því að lengri tíma tekur það ekki fyrir eina sókn. Þetta ætti hv. þm. V.-Sk. að vita allra manna bezt.

Svo vil ég taka fram, að það er heldur óheppilegt dæmi, þegar hv. þm. talar um í því sambandi, að það séu sex sóknir í einu prestakalli. Það er alger undantekning, og það væri nýstárleg starfsemi, ef allt miðaðist við undantekningar, en ekki við reglurnar. Slíku anza ég ekki.

Þá sagði hv. þm. V.-Sk., að ég hefði farið rangt með það atriði, sem ég hafði eftir honum við 2. umr. málsins, þar sem hann sagðist ekki vilja gefa tvo aura fyrir þær bækur, sem væru 50 ára gamlar eða hefðu gengið á milli manna í 50 ár, eins og hann vildi orða það. Ég skal taka skýrt fram, að efnislega fór ég alveg rétt með það, eins og allir geta heyrt, en það var frekar af góðvild gagnvart hv. þm., að ég notaði orðin á þá leið, að bækurnar væru orðnar 50 ára, heldur en þær hefðu gengið á milli manna. Þetta eru því bara útúrsnúningar hjá hv. þm. V.-Sk.

Í frv. stendur, að fela eigi sóknarnefndarformönnum eða öðrum enn hæfari mönnum að annast þessar afskriftir og varðveita bækurnar. Ég efast um — með fullri virðingu fyrir hv. sóknarprestum —, að valinkunnir menn í hverri sókn standi ekki prestunum fullkomlega á sporði um hirðusemi og vandvirkni. Ég hef svo ekki meira að segja.