12.12.1944
Neðri deild: 90. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1150 í B-deild Alþingistíðinda. (2155)

112. mál, kirkju- og manntalsbækur

Sveinbjörn Högnason:

Það er sannarlega ekki þörf á að gera langar athugasemdir við þessar umr. Það er ekki svo merkilegt, sem fram hefur komið, það verð ég að segja. Mér finnst gegna hreinustu furðu, að í ekki flóknara máli en hér er um að ræða skuli vera svo til útilokað af þeim, sem helzt ættu að hafa vit á því, að tala megi um málið af raunhæfni og eins og hlutirnir liggja fyrir, en vera með alls konar slettur og óviðeigandi fullyrðingar í sambandi við þetta, sem hvergi eiga sér nokkurn stað, það finnst mér hreinasta furða, og skal ég tilnefna nokkur dæmi úr ræðu hv. 5. landsk.

Hann er að tala um, að það sé algerlega rangt, að sex sóknir séu í prestakalli og þar af leiðandi sex afrit af kirkjubókum. Ég sagði: „allt að sex sóknir í prestakalli“. Það er ekki óalgengt — og langalgengast —, að þrjár eða fjórar sóknir séu í hverju prestakalli. Ég hygg eiginlega, að fjórar sóknir séu algengastar í prestakallaskipuninni, eins og hún er nú í landinu. Nokkur prestaköll eru yfir, en aðeins örfá fyrir neðan.

Hann segir, að afrit af þessum bókum séu tekin af valinkunnum og ágætum mönnum. Ég neita ekki, að þeir geta verið það, en þrátt fyrir það yrðu afrit þessara bóka a.m.k. í jafnmörgu lagi og sóknirnar í hverju prestakalli, og auðvitað mjög misjafnt, hverjir tækju að sér að færa kirkjubækurnar, og ekki víst, að alltaf væru hæfustu mennirnir, sem vildu gera það. Þó að víða séu til ágætir menn, þá get ég fullvissað bæði hv. 2. þm. Skagf., flm. frv., og hv. 5. landsk., frsm. þess, — a.m.k. hefur hagstofustjóri borið sóknarprestunum í landinu þann vitnisburð, — að alltaf væru áreiðanlegastar þær skýrslur, sem kæmu frá þeim. Þetta er í raun og veru mjög eðlilegt, því að þetta tilheyrir starfi þeirra, og ég þori að fullyrða, þegar prestar hafa verið nokkur ár í prestakalli, að þá er enginn maður í þeirri sveit, sem er betur kunnugur fólkinu almennt og betur kunnugur að færa skýrslur og færa þær rétt og fylgjast með öllum breyt. en einmitt sóknarpresturinn, sem hefur þjónað um nokkurra ára bil í hverjum stað. Það þori ég alveg að fullyrða. Ég er sannfærður um, ef taka á afrit af bókum, þó að valinkunnir menn séu að verki í hverri sókn, að þetta er allt í molum. Og ef svo er ástatt, eins og hv. flm. frv. sagði, að fallið hefði niður í skýrslugerð hjá prestum og eyður væru í bókunum, þá þori ég að fullyrða, að ekki mundu mörg ár líða, áður en fullt væri af eyðum, ef afritin ætti að taka af leikmönnum víðs vegar um landið. Ef presturinn sjálfur gleymir að færa það, sem hann vinnur sjálfur, þá hef ég enga trú á, að einn maður, sem kemur einu sinni á ári til að drekka kaffisopa, eins og hv. 5. landsk. nefndi, inni það af hendi. (BG: Það er ekki víst, að hann fái kaffi.) Mér fannst hann sérstaklega vera að telja það eftir.

Varðandi leiðréttinguna held ég, að hún yrði ekki mikil, ef þetta væri gert á einni kvöld- eða morgunstund. Gæti þá auðveldlega fallið niður eitt prestsverk eða svo, auk þess sem ég efast stórlega um, að þessari reglu yrði haldið, með allri virðingu fyrir þeim mönnum, sem hlut eiga að máli í hvert sinn.